Hvernig tengist morð á leigubílstjóra í Reykjavík árið 1977 seinni heimsstyrjöldinni?

Skúli Sigurðsson er alltaf að.

„Í sem allra stystu máli er sagan um launmorð, njósnir og nasista á flótta. Kjarni sögunnar fjallar um dularfullt morð á leigubílsstjóra í Reykjavík árið 1977 og eftirmála þess en angarnir teygja sig aftur til seinna stríðs og víða um heim, einkum til Suður-Ameríku. Þetta er sögulegur njósnaþriller í anda gömlu kaldastríðsreyfaranna, allt löðrandi í brennivíni og reyk. En þetta er þannig saga að best er að lesandinn viti sem minnst þegar hann opnar bókina.“

Þannig mælir verðlaunahöfundurinn Skúli Sigurðsson í samtali við Viljann, en hann sló eftirminnilega í gegn í fyrra með sögunni: Stóri bróðir og hlaut Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin 2022.

Hvers vegna ákvaðstu að skrifa hana?

„Ég er ekki viss um að ég hafi beinlínis ákveðið það. Ég valdi ekki söguna, sagan kom til mín, smátt og smátt. Það voru nokkrar hugmyndir sem ég var að bræða með mér en þessi tók á sig mynd og mér var nauðugur einn kostur.

Ég held að flestir höfundar séu leiksoppar sagna sinna en ekki öfugt. Þó vildi ég helst skrifa bók sem var frábrugðin fyrri bókinni minni, Stóra bróður, og efnið og tímabilið bauð sannarlega upp á það. Mig langaði líka að fara svolítið út fyrir hið venjubundna efni íslenskra glæpasagna og láta reyna á sögu sem væri alþjóðleg og varðaði atburði sem ollið gætu sögulegum straumhvörfum.“

Hvernig er að taka þátt í íslenska jólabókaflóðinu? Lesa upp, fylgjast með bóksölu, lesa dóma. Er þetta keppni?

„Þetta getur verið smá hasar og stress en ég hef gaman að þessu. Ég er enn á því stigi að ég segi já við öllu. Ég er til í að prófa allt tvisvar. Það er alltaf gaman að lesa fyrir fólk og spjalla við lesendur, gott að fá endurgjöf og maður fær stundum nýja sýn á eitthvað sem maður hefur skrifað.

Ég reyni að taka dómana, hvort sem er í fjölmiðlum eða almennra lesenda, ekki persónulega en það getur verið erfitt þegar gagnrýnin er óvægin. Sumir fussa og sveia, hrista hausinn og óa sig en maður má ekki dvelja við það og heilt yfir hefur báðum bókunum mínum verið vel tekið, einkum af almennum lesendum.

Slæmir dómar herða mann bara. Og forherða.

Ég er blessunarlega búinn að kortleggja þriðju bókina, hún liggur fyrir á sjö post-it-miðum og einu svo til endalausu glósuskjali í símanum mínum

Ég lít ekki á jólabókaflóðið sem keppni við aðra höfunda en ég er auðvitað svo nýr í þessu að mér finnst bara gaman að fá að vera með. Auðvitað vill maður selja bækur og maður keppist við en maður er ekki að keppa við kollegana.

Aðrir og reyndari glæpasagnahöfundar hafa tekið mér opnum örmum og þetta er allt í mesta bróðerni. Lilja Sigurðardóttir hefur til dæmis reynst mér vel varðandi ýmislegt í bransanum, af einskærum almennilegheitum. Tilfinningin er sú að við séum öll í sama liðinu. Hver er í liðinu á móti veit ég ekki. Kannski gagnrýnendur. Ekki þó lesendur, svo mikið er víst.“

Er rithöfundurinn alltaf að? Meira í farvatninu?

„Rithöfundurinn er alltaf að ef hann er rithöfundur. Hann kemst ekki hjá því, hann er alltaf að sjá eitthvað, heyra og upplifa eitthvað sem fer í sarpinn. Hvað varðar skrifin sem slík þá bendi ég innan á kápuflipann á Manninum frá São Paulo, þar stendur „Næsta bók Skúla kemur út haustið 2024.“ Þannig að það er kannski eins gott að meira sé í farvatninu. Ég er blessunarlega búinn að kortleggja þriðju bókina, hún liggur fyrir á sjö post-it-miðum og einu svo til endalausu glósuskjali í símanum mínum. Ég er byrjaður að setja niður fyrstu kaflana en þetta fer hægt af stað meðan verið er að koma Manninum frá São Paulo út, í jólapakkann og fyrir sjónir lesenda.“

Maðurinn frá São Paulo

Héðinn lyfti stólnum þegar hann stóð upp til þess að ekkert heyrðist og tókst að setja hann hljóðlaust niður aftur. Sokkaklæddir fæturnir svifu hljóðlega yfir gólfið, fyrst eitt skref og svo annað og svo áfram þar til Gideon var innan seilingar.

Was ist los?“ sagði Þjóðverjinn eins og út í loftið og í sömu andrá lét Héðinn til skarar skríða. 

Hann sparkaði í hægri hnésbót Gideons sem hljóðaði upp yfir sig. Héðinn ýtti á eftir sparkinu og Gideon féll niður á hnéð. Svo vafði hann hægri handleggnum um háls fautans og studdi vinstri framhandleggnum aftan á hnakkann. Hann herti að af öllum kröftum, það hrygldi í Gideon sem greip í handlegg Héðins og reyndi að losa takið. 

„Ég ætla ekki að drepa þig,“ sagði Héðinn hásri röddu.

Gideon barðist um og trúði Héðni líklega ekki. Hann reyndi að rísa upp á vinstri fótinn en Héðinn setti þunga sinn á móti og hélt honum niðri. Hönd Gideons greip jakkaermi Héðins og hljóðið virtist ærandi þegar efnið rifnaði. Hendurnar fálmuðu um höfuð Héðins, hann áttaði sig á að fingurnir leituðu að augum eða munni eða einhverju til að rífa í og gróf andlitið niður við vinstri handlegginn og höfuð Gideons.

„Slakaðu bara á, þetta verður bráðum búið,“ sagði Héðinn alveg niðri við eyra Gideons. Líklega hljómaði það ekki hughreystandi. 

Strangt til tekið var lögreglumönnum ekki heimilt að nota svæfingartakið í störfum sínum en margir þeirra kunnu það nú samt, það gat komið í góðar þarfir þegar yfirbuga þurfti stóra menn. Takið stöðvaði blóðflæði til heila þess sem haldið var og hann átti að missa meðvitund eftir um tíu sekúndur. Hættan var að takinu væri haldið of lengi og sá sem haldið var missti ekki bara meðvitund heldur hlyti heilaskaða eða jafnvel bana. 

„Þetta verður allt í lagi, leyfðu þessu bara að gerast,“ sagði Héðinn.

Was ist los?“ sagði Þjóðverjinn í því sem Héðni heyrðist vera forundran.

Héðinn hafði aldrei beitt svæfingartakinu en þessar tíu sekúndur virtust óvenjulega margar. Gideon reyndi enn að standa upp en virtist svo missa máttinn og síga aðeins saman. Hendurnar hættu að fálma.

Maðurinn frá São Paulo. Höfundur: Skúli Sigurðsson, Útgefandi: Drápa.