Landslagið í ferðamennsku mun breytast í heiminum og ekki síst á Íslandi

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir. / Ljósmynd af btb.is

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir er búsettur ásamt fjölskyldu sinni í Lundúnum, en þau dvelja þó reglulega hér á landi og halda nánum tengslum við land og þjóð. Hann hefur því fengið tækifæri til að verða vitni að gríðarlegum afleiðingum kórónaveirunnar frá ólíkum sjónarhornum, auk þess sem fjölskyldan veiktist sjálf af COVID-19 í mars 2020, eins og fram kemur í frásögn hans í bókinni Vörn gegn veiru eftir Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, sem nýkomin er út.

„Í stuttu máli má segja að Ísland hafi notið vinsælda um allan heim vegna óspilltrar náttúru og annarra gæða svo sem hreins vatns og lítillar mengunar. Í breyttum heimi eftir COVID-19 mun sú sérstaða aðeins verða dýrmætari. Athyglisvert er að hafa í huga að náttúruhamfarir hafa áður leitt til langtímaávinnings hjá okkur enda þótt þær hafi haft í för með sér skammvinnan skell. Gott dæmi um það er gosið í Eyjafjallajökli þegar túristagos á íslenskan mælikvarða lamaði allar flugsamgöngur í hálfan mánuð milli tveggja heimsálfa, Evrópu og Ameríku. Landkynningin sem Ísland fékk í kjölfarið var ómetanleg og átti sinn þátt í þeirri gríðarlegu þenslu sem varð í ferðamennsku hér á landi á næstu árum. Nú þarf að huga að því með okkar besta fólki hvernig hægt er að endurtaka þann leik svo að Ísland komi öflugra út eftir faraldur kórónaveirunnar.

Það er vel hægt. Landslagið í ferðamennsku mun breytast í heiminum og ekki síst á Íslandi. Færri ferðamenn munu sækja landið heim, en þeir sem það gera munu eyða meira hér og skilja meira eftir sig í hagkerfinu. Þetta verða sem sagt efnameiri einstaklingar með meira ráðstöfunarfé sem gera auknar kröfur um gæði og öryggi. Slíkt er líklega gott með tilliti til smæðar þjóðarinnar og þeirrar sérstöðu sem við viljum varðveita eftir bestu getu.

Það getur ekki verið markmið okkar að laða að massatúrisma, milljónir ferðamanna sem koma hingað með lággjaldaflugfélögum og skilja lítið eftir sig. Með öðrum orðum: Þetta verður frekar spurning um gæði en magn og ætti að leiða til þess að framleiðni í ferðaþjónustu sem atvinnugrein gæti aukist enda þótt ferðamönnum fækki. Það er áhugaverð staða og felur í sér gríðarleg tækifæri.“