Í byrjun nóvember næstkomandi kemur út á vegum Óðinsauga bókin Saknað – íslensk mannshvörf eftir Bjarka H. Hall.
Bókin hefur að geyma 31 ítarlega kafla um mannshvörf á Íslandi og Íslendinga sem horfið hafa erlendis. Einnig er að finna styttri umfjallanir um flest þau mannshvörf sem höfundi er kunnugt um á árunum 1920-2019.
„Ritun þessa verks hefur tekið á, en óhætt er að segja að við hverja eina spurningu sem maður finnur svar við í þessum málflokki vakni sennilega um tíu aðrar í staðinn,“ segir Bjarki í tölvuskeyti til Viljans.
Upphaf þess að ráðist var í ritun þessara bókar má rekja til slyss sem höfundur bókarinnar lenti í árið 2017. Varð hann óvinnufær um tíma, en öllu jafna starfar hann sem vinnuvélastjórandi hjá verktakafyrirtækinu Ístak. Til að hafa ofan af fyrir sér meðan bata væri náð, hóf hann að safna saman upplýsingum um mannshvörf og stofnaði síðuna “Íslensk mannshvörf” á Facebook og vefsíðuna www.mannshvorf.is þar sem fjallað hefur verið um málaflokkinn. Í kjölfar fjölda áskorana um að ráðast í gerð bókar var fátt annað að gera en taka slaginn.