Lítil kirkja sem tekur heilt helvíti

Þegar tveir miklir sagnameistarar leggja saman verður útkoman safarík. Út er komin bók um lífsferil Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndaleikstjóra eftir Einar Kárason, en hann hefur eins og alþjóð veit verið bæði ævintýralegur og öfgafullur. Hér segir frá fjölmörgum litríkum karakterum, sumum heimsþekktum, sumum af botni mannfélagsins, sumum ósköp venjulegum – en alltaf tekst þeim félögum að draga fram húmor eða harmleiki sem gera þá ógleymanlega.

Viljinn birtir hér með góðfúslegu leyfi höfundar þrjá valda kafla úr bókinni.

Faðir minn

Pabbi var mjög rólegur, góðmenni. Vann sem tollari, og seinna þegar við Ívar Gissurar vorum að gera heimildamynd um höfnina þá hitti ég kalla sem sögðu: „Þú þyrftir ekki að vera nema brot af pabba þínum til að vera ágætismaður.“ Sigurður Guðmundsson, sá þekkti myndlistarmaður og sem ég átti síðar eftir að kynnast vel, vann einhverntíma með pabba og hann sagði mér að pabbi hefði verið að skamma hann og fleiri unga menn fyrir að gera of mikið upptækt hjá fólki. Annar maður sem ég hitti löngu seinna sagði mér eftir föður sínum að pabbi hefði komið til hans og sagt: „Bróðir þinn er að fara of geyst í lífinu.“ Svoleiðis að viðkomandi fór niður í skip til bróður síns sem reyndist vera með káetuna sína fulla af smygli.

   Pabba fannst allt í lagi að menn tækju með sér það sem þeir gætu drukkið sjálfir og reykt, en ef menn voru farnir að selja mikið var rétt að aðvara þá. Hann var geysivinsæll af sjómönnum. Síðar hitti ég oft sjóara niðri í Glæsibæ, bæði af togurum og frökturum, og naut þá mjög góðs af faðerninu. Tollurum voru gjarnan gefnar gjafir er þeir komu um borð í skip, bjór eða vín. Niðri í kjallara heima var alltaf læst kompa. Ég rakst svo á lykil sem gekk að henni og lét Tolla bróður borga mér fyrir að fá að nota hann, því hann var sólginn í bjór.

   Pabbi mátti ekkert aumt sjá. Hann var mikið í burtu frá heimilinu því hann var alltaf að vinna. Tók aldrei bílpróf. Tók bara strætó, eða lét Þóri bróður keyra sig. Þórir var svo mikill sveitamaður í sér að mamma varð að fela sultukrukkur svo hann tæmdi þær ekki uppí sig með skeið.

   Skagfirðingar komu mikið í heimsókn í Stórholtið og svo seinna í Karfavoginn þegar við vorum flutt þangað því að pabbi átti alltaf viskí. Það er til saga af því þegar Hjálmar frá Kambi í Deildardal kom eitt sinn suður. Hann var mjög svipmikill maður með skegg niðrá maga og til er af honum mjög fræg ljósmynd sem Loftur tók. Hann kom suður og fór niðrað höfn að hitta pabba og þegar þeir fundust hætti pabbi strax að vinna og þeir tóku strætó heim í Stórholt. Stóðu aftast í troðfullum vagninum, í gryfjunni sem þar var í gömlu vögnunum. Pabbi sagði: „Mikið líturðu nú vel út Hjálmar minn!“ Þá svaraði Hjálmar, sem var skrækur og talaði hátt: „Þú hefðir átt að sjá mig þegar ég fór upp á Kellinguna!“ Strætó sprakk úr hlátri, en hann meinti þegar hann kleif steindranginn háa við Drangey, Kerlingu, en það var mikið afrek.

   Pabbi dó úr hjartaáfalli 75 ára, var bara í stólnum heima að horfa á fréttirnar. Ég þekkti hann auðvitað aldrei nema sem roskinn eða gamlan mann. Ég heyrði svo oft talað um hvað hann væri gamall þegar ég var barn, bæði hann og reyndar mömmu líka. Ég man að maður þurfti stundum í skóla að fylla út spurningalista með persónuupplýsingum, og átti meðal annars að gefa upp fæðingarár foreldra, og það var búið að prenta inn 19.. en ég þurfti alltaf að breyta því í 18. Á þeim árum bað maður auðvitað almættið um að taka hann ekki frá mér, þótt gamall væri. En þótt við værum nánir, ekki síst eftir að eldri bræður mínir voru fluttir að heiman, þá kom andlát hans ekki á óvart. Hann hafði vitað að hverju dró, var búinn að heyra í læknum og sagði að það væri ekkert hægt að gera. Hann hafði mælt svo fyrir að hann yrði jarðaður við hlið Þóru, fyrri konunnar, í grafreit norður á Höfða. Mamma sýndi mikið umburðarlyndi gagnvart þessari fyrri konu sem var alltaf á ljósmynd í svefnherberginu og hún sagði mér að væri af engli; ég fór stundum með vini mína inn í herbergið og sýndi þeim myndina af englinum; þetta þótti heldur renna stoðum undir tilveru engla.

   Það var mjög erfitt fyrir mömmu þegar pabbi dó, þau voru rétt að byrja að lifa lífinu. Hann tók aldrei lán, það hef ég ekki erft frá honum! Hann var á ágætis lífeyri.

   Pabbi var ekki sérlega músíkalskur en trallaði oft svona fyrir munni sér, tamtamtam. Þó átti hann fiðlu og spilaði víst á böllum þegar hann var ungur. En hann var mjög ljóðelskur og bókelskur, ég man að hann keypti seríu með ljóðum ungra skálda sem AB gaf út, og hélt meðal annars upp á ljóð Steinunnar Sig. Hann hafði líka áhuga á því sem Guðbergur skrifaði og var hrifinn af Tómasi Jónssyni metsölubók. Ég fór eitt sinn á bókamarkað og kom heim með Móðurina eftir Gorkí og ljóðabókina Ský í buxum eftir Majakovskí og þá sagði pabbi: „Elskan mín vertu ekki að kaupa þetta, það er allt til hérna niðri í kjallara.“ En það var óinnbundið, og þessvegna fékk það ekki að fara í stofuhillurnar. Það var ekki bók nema hún væri innbundin. Hann var framsóknarmaður af gamla skólanum, á móti hernum og svona. Hann fór í mótmælagöngu með okkur Einari Má Guðmundssyni vini mínum þegar Nixon og Pompidou funduðu hér. Í frakka og með hatt, eins og lífvörður Stalíns. Steingrímur Hermannsson sagði mér síðar að pabbi hafi kvartað á Framsóknarfundum yfir því að flokkurinn hefði færst of langt til hægri.

Í sveitinni

   Rétt við bæinn er Höfðavatn sem er á milli Þórðarhöfða og lands og lokast með eiði bæði norðanmegin og sunnan, og í vatninu er sérlega bragðgóður silungur, rauður í sárið og feitur, enda lifir hann þar á marfló, því sjórinn brýst inn í vatnið á stórstraumsflóði. Þessi silungur var veiddur í net og var aðalfæðan á staðnum, og Bríet gamla hafði að mestu séð um þessar netaveiðar. Bríet var stórmerkileg, og Guðrún Ásmundsdóttir lék hana seinna í Bíódögum. Eftirfarandi sögu um hana sagði Friggi bóndi mér síðar:

   Bríet gamla var þannig gerð að öll dýr hændust að henni. Hvert sem hún fór gengu þessi dýr á eftir henni. Eftir að ég hætti að vera þarna í sveit var hún eitt sinn á leið að vitja um silunganetin inni í vatni og er það spölkorn að ganga. Gekk hún fremst, en síðan komu tveir hundar, heimaalningurinn, tvær geitur og lestina rak gulur köttur sem var frekar mannfælinn. Þessi hersing þrammar eftir veginum þegar héraðslæknirinn kemur akandi á löngum Land Rover, nemur staðar og býður henni far. Þá segir hún: Ja, ekki nema dýrin komi líka. Hún sest þá frammí en læknirinn fer að raða dýrunum aftur í bílinn og tekst að koma inn geitunum, Rósalind og Mjöll, gimbrinni og hundunum. En kötturinn vill ekki láta ókunnugan mann ná sér heldur fer undan í flæmingi þegar læknirinn nálgast. Á endanum gefst hann upp við að góma köttinn. Hann snýr aftur að bílnum og segir við Bríeti: Kötturinn vill ekki koma með okkur. Þá steig Bríet út og mælti: Annaðhvort förum við öll, eða enginn. Hélt þá öll hersingin áfram fótgangandi en læknirinn ók burt.

   Af því Bríet var farin að lýjast þá fór ég mjög að sjá um netin, og það var gott því að ég var ekki til margs annars nýtur, níu ára pjakkurinn, í samanburði við stálpað verkmennið Tolla bróður, og erfitt að fylla hans skarð.

   Friggi bóndi, frændi minn á Höfða, lést fyrir skömmu og ég sakna hans mikið. Hann kenndi mér margt, en hann var meðal annars minn mentor í sagnamennsku. Ein af uppáhaldssögunum hans var af því þegar Lionsklúbburinn á Hofsósi hélt eitt sinn fund þar sem var rætt hvernig þeir gætu látið gott af sér leiða á jólum sem í hönd fóru. Það var mikið af einsetumönnum og konum í héraðinu sem þeir ákváðu að heimsækja og gleðja á aðfangadag. Svo létu þeir sauma á sig jólasveinabúninga og í þannig múnderingu þeystu þeir um sveitirnar á vélsleðum. Þeim er tekið mjög vel þar sem þeir koma, þar til þeir komu inn í Sléttuhlíð. Þar bjó frændi okkar, Eggert á Ytra-Hóli. Hann hélt nokkrar beljur en var ekkert að flýta sér í fjósið á morgnana, svaf oftast til hádegis, en hundarnir gengu inn og út um lausa fjöl í útidyrahurðinni. Jólasveinaflokkurinn leggur sleðum í hlíðinni fyrir ofan bæinn og skokkar af stað með pakka handa kallinum og jólasveinaköll á vörum; hohohó. Hundarnir verða varir við aðförina og hlaupa út urrandi og geltandi en þeysa svo inn í bæ til að vekja húsbóndann. Hann æðir út á hlað og pírir augun upp í fjallið og grillir í þennan ófögnuð sem nálgast, stekkur inn í hús og nær í haglabyssu og hleður og fretar svo stanslaust á þá, eltir þá svo upp í fjallshlíðina og einhverjir voru komnir með högl í afturendann þegar þeir sluppu á braut.

   Húmor Frigga var mjög skemmtilega skagfirskur. Ein af hans uppáhaldssögum var um það þegar biskup landsins vísiteraði héraðið og skoðaði kirkjur. Á Silfrastöðum er lítil kirkja sem var meðal annars stundum höfð undir geymsludót. Biskup segir blíður á svip: „Ósköp er þetta lítil kirkja.“

   Bóndinn á Silfrastöðum svarar: „En hún tekur heilt helvíti!“

Eitt af lífunum fauk í veiðiferð

Veiðitúr sem ég fór í skömmu eftir síðustu aldamót, sumarið 2002 nánar tiltekið, varð ærið sögulegur. Í þeim túr var Þorfinnur Ómarsson, þá framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs, en fyrri kona hans er skyld Erling Ingvasyni sem ég var þá að kynnast og hefur síðan verið mikill veiðifélagi minn og einn besti vinur. Í túrnum tilkynnti Þorfinnur mér að vilyrði fyrir styrk til kvikmyndarinnar Kaldaljós sem Hilmar Oddsson leikstýrði en ég framleiddi yrði afturkallaður, en svo fór nú reyndar ekki. Í veiðiferðinni norður í Laxá í Aðaldal var líka Gunnar Carlsson, framleiðslustjóri sænska sjónvarpsins og meðframleiðandi minn í nokkrum myndum. Það er veitt til klukkan tíu á kvöldin, borðað klukkan 11 og svo er smá kvöldvaka. Síðasta morguninn vaknaði ég eldsnemma, þreyttur og lítið sofinn, og byrja á því að keyra Gunnar sænska á Húsavíkurflugvöll, skellti mér svo í sturtu og fór svo á veiðistað sem heitir Hæðarendi, rétt við brúna yfir þjóðveginn. Ég hafði veitt vel og landað þremur löxum þegar um það bil tuttugu punda stórlax tók fluguna. Nú hófst svakaleg barátta. Þetta var rétt um klukkan tólf á hádegi, eða þegar átti að hætta veiðum, en fiskurinn var alveg brjálaður; sterkustu fiskarnir eru nýgengnir tuttugu punda hængar og þetta var einn af þeim. Þarna var ekki hægt að nota farsíma. Ingvi Hrafn Jónsson ók hjá og stoppaði, hann hafði verið að veiða með ritstjóra New York Times og þeir horfðu á aðfarirnar í klukkutíma, en þá fór Ingvi upp í veiðihús og sagði að Friðrik myndi aldrei ná að landa þessum laxi einn síns liðs. Þá kom Erling mér til hjálpar og leikurinn barst út í lítinn bát sem fiskurinn dró niður flúðir og upp aftur. En hann náðist loks, og var þá orðinn þrekaður. Erling spurði hvort ætti að sleppa honum, en ég sagði nei, drepa og setja í reyk. Klukkan var orðin tvö um eftirmiðdaginn, allir voru farnir en ég fór með fiskinn upp í Hólmavað til Kristjáns heitins sem þar bjó og reykti oft fyrir mig og marga aðra af mikilli list. Hann var slíkur höfðingi að hann þáði helst enga borgun fyrir þannig greiða, en svona til að launa honum voru menn stundum að gauka að honum flösku af góðu viskíi eða einhverju slíku. Einu sinni gaf Erling Ingvason honum lítersflösku af 96% spíra sem hann hafði komist yfir, en hann var þá í tannlæknanámi. Hann sá svo, á meðan hann sjálfur var að sækja aflann í skottið á bílnum, að kallinn var búinn að skrúfa af tappann og var að svolgra þessu eitri í sig beint úr flöskunni, og hélt áfram að kyngja þrátt fyrir aðvaranir um annað. Loks tók Kristján stútinn frá munninum, þurrkaði sér og sagði:

   „Það er kengur í þessu!“

   Ég lagði svo af stað áleiðis suður, en þar sem ég var þreyttur og slæptur ætlaði ég að Skálá í Skagafirði, þar sem ég átti athvarf, og leggja mig þar. Þegar ég var kominn framhjá Kinnarafleggjaranum og að Ljósavatni var mig verulega farið að syfja, ég dottaði en hrökk upp; þarna er vatnið beggja vegna vegarins og engin vegrið voru komin þarna þá. Ég segi við sjálfan mig að ég ætli að stoppa og leggja mig á bílastæði sem var þarna þrjúhundruð metrum framar, en næ ekki svo langt heldur hrekk upp við að bíllinn er að velta út í vatnið, og sá landslagið frá lóðréttu sjónarhorni. Ég gaf þá allt í botn, þetta var átta gata Jeep Grand Cherokee, og hann spýttist lengst út á vatn, bara eins og hraðbátur; það hvarflaði að mér að ég gæti kannski siglt honum aftur að landi ef ég næði beygjunni. Þá drapst á bílnum og það rifjaðist upp fyrir mér að fáum dögum fyrr hafði kínversk fjölskylda drukknað í Blöndulóni, þau gátu ekki opnað sökkvandi bílinn. Ég varð ofsahræddur. Rafmagnið var farið af rúðunni bílstjóramegin, en hún virkaði farþegamegin. Ég beið þar til bíllinn sökk og var næstum fullur af vatni til að fá ekki strauminn á móti mér, smeygði mér þá út og synti og óð í land. Erling var þá kominn þar að ásamt fleirum og hann býður mér að koma með sér og jafna mig heima hjá honum á Akureyri. Þarna voru fleiri hjálplegir; maður úr Grindavík gaf mér buxur og annar gaf mér skyrtu. Þarna var líka mjög ljúf hjúkrunarkona sem sagði: „Nú er sú hætta á ferðum að þegar rennur upp fyrir þér í hverslags lífshættu þú varst, þá muni hjartað fara að slá mjög hratt.“

   Jájá, sagði ég, og trúði því mátulega. En svo gerðist þetta skömmu síðar, hjartað fór að slá alveg á milljón. Þá bauð hún mér að fá far með sér suður til Reykjavíkur.

   Á næstu dögum var bíllinn dreginn upp með krana, því þótt hann væri ónýtur var hann fullur af allskonar dóti sem ég átti; það er alltaf allt til alls í mínum bílum meðan á veiðitímabilum stendur. Til marks um það má nefna að ég fór eitt sinn með bílinn á verkstæði. Gömlum manni sem þar var varð litið inn í bílinn þar sem öllu ægði saman, vöðlum og stöngum, háfi, fluguboxi og öllu veiðidóti sem tjáir að nefna, og gamli maðurinn varð fjarrænn í framan og sagði: Guð minn góður! Þetta er alveg eins og í jeppanum hjá honum Stefáni heitnum! Og meinti Stefán Jónsson fréttamann, sem var mikil veiðigarpur.

   Þegar ég fór norður á Húsavík að vitja um veiðidótið þá kom ég líka við hjá Kristjáni á Hólmavaði sem reykti fisk betur en aðrir. Ég var þá á ágætum svörtum Blazerjeppa og Kristján virti fyrir sér bílinn og sagði:

   „Það er gaman að sjá þig Friðrik, en það er engin sjónpípa á þessum bíl!“