Lögmaður sem er veikur fyrir fallegum konum

Dýrbítar er önnur bók Óskars Magnússonar lögmanns og bónda á Sámsstaðabakka, um kollega sinn Stefán Bjarnason hæstaréttarlögmann. Sú fyrri (Verjandinn, 2016) vakti verðskuldaða athygli og ber að fagna nýjum, litríkum og vel sköpuðum sögupersónum í ört stækkandi gallerí íslenskra glæpasagnabókmennta.

Aðalsöguhetjan Stefán er maður sem lesandinn fær strax mikið dálæti á. Hann er eldklár, sérvitur og fylginn sér, en stóri veikleiki hans í lífinu eru fallegar konur. Og vitaskuld kemst okkar maður varla gegnum daginn án þess að renna á svellinu í þeim efnum með einum hætti eða öðrum. Holdið er veikt og dásamlegar lýsingar á samskiptum Stefáns við hitt kynið eru oft svo óborganlegar, að lesandinn skellir upp úr.

Að hætti höfunda nútíma sakamálasagna er vettvangur Dýrbíta ekki bundinn við Ísland; hér þarf eins og í öðru að hugsa um stærri markaði og tækifæri sem þar kunna að leynast. Ástir og örlög eru vitaskuld yfir og undir og allt um kring og þráðinn vefur Óskar hugvitsamlega og með orðfæri sem lesandinn nýtur þess að gæða sér á.

Þetta er vel skrifaður texti af þroskuðum höfundi sem hefur gaman af því að munda stílvopnið. Og það skilar sér.

Ég vænti þess að Stefán sé þegar byrjaður að lenda í frekari hremmingum á handritsstigi í nýrri sögu í tölvu Óskars Magnússonar, því aðdáendur hans munu vilja fá að lesa meira.

****

Björn Ingi Hrafnsson

Dýrbítar, e. Óskar Magnússon. JPV Útgáfa 2019.