Ná börnin okkar boðskapnum gegn veirunni?

Alþingismaðurinn fyrrverandi áritar bók sína um veiruna alræmdu.

„Tilefnið er að ég velti því fyrir mér í einni af gönguferðum mínum hvort börnin okkar næðu boðskapnum gegn veirunni alræmdu,“ segir Hjálmar Árnason fv. alþingismaður og skólameistari í samtali við Viljann um nýútkomna barnabók sína, Ég er kórónaveiran, sem fjallar eins og titillinn bendir til, um mál málanna þessa dagana.

Hann segir að þannig hafi sagan orðið til. Hann hafi prófað hana á barnabörnum sínum, ömmum og kennurum og fengið þau viðbrögð að hún virtist virka. Þá hafi hann ákveðið að láta slag standa.

Kórónuveiran hoppar á milli fólks. Hvernig forðumst við hana? Sóley litla vill ekki þvo sér um hendurnar. Hvað gerist þá? Og hvað gerist þegar Sóley loksins þvær sér um hendurnar? Hvernig fer þá fyrir kórónaveirunni?

Þessum spurningum veltir Hjálmar fyrir sér í bókinni, sem er listilega myndskreytt af Fanneyju Sizemore. Hann kveðst hafa fengið ábendingu frá sjálfum Goddi um hana sem upplagða listakonu fyrir slíka bók.

Það er bókaútgáfan Ugla sem gefur bókina út.