Nálægðarreglan eftir Oddnýju Mjöll Arnardóttur

Oddný Mjöll Arnarróttir dómari og lagaprófessor. / Háskóli Íslands ©Kristinn Ingvarsson

Í ritinu Nálægðarreglan eftir Oddnýju Mjöll Arnardóttur er fjallað um umbótaferli sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gengið í gegnum á síðustu árum og breytingar á dómaframkvæmd hans.

Varpað er fræðilegu ljósi á nálægðarregluna og svigrúm til mats og gefin heildstæð mynd af því hvernig staða dómstólsins í hinu evrópska kerfi mannréttindaverndar og samband hans við innlend yfirvöld hefur breyst á síðustu árum. Í ritinu er auk þess fjallað sérstaklega um nýlega dóma mannréttindadómstólsins í málum gegn Íslandi og þeir nýttir til skýringa á þeim hræringum sem til umfjöllunar eru.

Loks er leitast við að gera ítarlega grein fyrir því hvernig samband innlendra dómstóla við mannréttindadómstólinn birtist í yngri dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og dregnar af því ályktanir um hvort breytingar hafi orðið á nálgun Hæstaréttar og hvort frekari breytinga er þörf ef innlendir dómstólar hyggjast nýta sér það aukna svigrúm til mats sem hinar nýju nálganir mannréttindadómstólsins bjóða upp á.

Ritið er ætlað þeim sem stunda rannsóknir og kennslu á sviði mannréttinda en gagnast ekki síður lögmönnum, dómurum, stjórnvöldum og öðrum þeim sem glíma við álitaefni tengd mannréttindavernd.

Höfundur ritsins, dr. Oddný Mjöll Arnardóttir er rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands og dómari við Landsrétt. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við mannréttindi, bæði frá sjónarhorni stjórnskipunarréttar, þjóðaréttar og Evrópuréttar