Bókaforlagið Veröld hefur gefið út bókina „Tími til að tengja“ eftir Bjarna Hafþór Helgason. Bókin inniheldur 20 smásögur af ýmsum toga sem einkennast af húmor höfundarins í ýmsum myndum. Hann segir sögurnar vera skáldsögur þótt vissulega sé í einhverjum þeirra byggt á raunverulegum atburðum. Elstu sögurnar eru yfir fjörtíu ára gamlar en flestar eru þær skrifaðar á síðustu tveimur árum í Kópavogi, London og Davíðshúsi á Akureyri. Titil bókarinnar má rekja til hins vinsæla lags „Tengja“ sem Bjarni Hafþór samdi á háskólaárunum við texta eftir mág sinn Arnar Björnsson, en Skriðjöklar gerðu lagið landsþekkt á sínum tíma.
„Fyrsta sagan í bókinni er samin á menntaskólaárum mínum á Akureyri og einnig síðasta sagan. Þessar tvær litlu sögur vildi ég hafa eins og lítinn ramma um heildarverkið, þær eru jólasögur og því ákvað ég að láta sögurnar í bókinni hverfast með beinum og óbeinum hætti um síðasta hluta ársins þótt efni margra þeirra hafi í raun ekkert með jól eða áramót að gera. Þannig verður til nokkurs konar tenging í gegnum bókina og desember er jú mikill tengitími fyrir bæði menn og málleysingja. Sögurnar eru ekki árás á venjur okkar og hefðir, en mér finnst gaman að horfa á þær með öðrum hætti en ég hef sjálfur vanist frá blautu barnsbeini,“ segir Bjarni Hafþór í stuttu spjalli við Viljann í tilefni útgáfu bókarinnar.
Titill bókarinnar kom úr safni margra hugmynda, Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Veröld, var hrifinn af Tengja heitinu og dóttir höfundarins, Anna Hafþórsdóttir, lagði til endanlegt útlit.
Á bakhlið bókarinnar segir m.a.:
„Bráðfyndnar sögur þar sem leiftrandi húmor Bjarna Hafþórs fær að njóta sín og kunnuglegir hlutir eru sýndir í nýju og óvenjulegu ljósi. Hér geta margir á sig brosum bætt.“
Óhætt er að taka undir þessa lýsingu, hugmyndaflugi höfundarins virðast lítil takmörk sett og ný og óvænt sjónarhorn eru allsráðandi.
Skrifar allt á eigin forsendum
„Já, ég skrifa þetta allt á mínum eigin forsendum, eins og mér sjálfum finnst fyndið og skemmtilegt og svo verður bara hver og einn að hafa sinn smekk fyrir efninu. Ég varð voðalega glaður um daginn þegar til mín kom fagmaður hjá útgáfunni og sagði að honum þætti bókin ekki aðeins verulega skemmtileg, heldur væri hún líka afar vel skrifuð á íslensku máli. Ég viðurkenni að þetta kom fallega við hjartað í mér og mamma hefði orðið sérstaklega stolt af þessu. En ég ákvað að gefa bara hugarfluginu lausan tauminn og mitt meginmarkmið var að geta brosað sjálfur að örlögum manna og málleysingja í sögunum. Ekkert gleður mig meira en geta vakið hlátur og hamingjustund í augnablik hjá þeim sem lesa bókina og ég er þegar byrjaður að fá þannig viðbrögð,“ segir hann ennfremur.
Fyrir rúmlega ári síðan kom út heildarsafn tónlistar eftir Bjarna Hafþór undir heitinu „Fuglar hugans“ þar sem m.a. má finna lag hans „Tengja“ í flutningi Björgvins Halldórssonar. En „Tími til að tengja“ er fyrsta bók Bjarna Hafþórs og spurning hvort vænta megi fleiri bóka í framtíðinni?
„Það er alveg ótímabært að fullyrða eitthvað um það, en mér kæmi það svo sem ekkert á óvart, sérstaklega ef heilsan helst í góðu lagi en ég er nýgreindur með parkinson sem ég ætla þó ekki að láta stöðva mig neitt. Það hafa margir sagt við mig í gegnum árin að ég eigi að skrifa bækur, þar á meðal tiltekinn ritstjóri sem ég hef þekkt lengi. Hann sagði um daginn „Loksins, loksins“ þegar hann sá að ég var búinn að skrifa bók, en þessi orð gagnrýnanda urðu einmitt fræg um sjálfan „Vefarann mikla frá Kasmír“ á sínum tíma, þetta lýsir vel húmor ritstjórans sem ég vona innilega að verði ekki fyrir vonbrigðum með bókina þegar hann kemst í að lesa hana.“
Sögurnar í bókinni eru afar ólíkar hvað innihald varðar og reyndar hvað ritform varðar einnig. Er einhver sérstök kveikja að baki hverri sögu eða lifna hugmyndirnar af sjálfu sér í höfði höfundarins?
„Sumar eiga sér einhverja stoð í raunveruleikanum en heilt yfir eru þetta skáldsögur þar sem ég leitast við að sjá t.d. jólasiði og viðtekna hegðun í nýju ljósi en líka margt annað í fari manna og dýra. Það er eiginlega erfitt að lýsa þessu því þetta eru tuttugu ólíkar sögur. Ég veit ekki hvaðan hugmyndirnar kvikna eða hvernig, þetta verður bara til. Sem dæmi má nefna að konan mín sagði einu sinni um einhvern ökumann sem keyrði á undan okkur að hann gæfi líklega aldrei stefnuljós á sínum bíl, þetta leiddi til umræðu á milli okkar og í framhaldi af því sögu sem heitir „Stefnuljós“ en hún fjallar um Halla hik sem á ekkert of auðvelda daga. Þannig að efniviðurinn getur í raun legið alls staðar.“
Bók Bjarna Hafþórs „Tími til að tengja“ fór í fyrsta sæti á metsölulista Pennans Eymundsson í vikunni sem bókin kom út. Mikill húmor er allsráðandi á síðum bókarinnar og hún á örugglega eftir að gleðja fjölmarga landsmenn á næstu vikum og mánuðum. Viljinn óskar Bjarna Hafþóri til hamingju með bókina og einnig velfarnaðar í verkefnum hans viðkomandi hinum nýgreinda sjúkdóm sem áður er getið.