Ragnar meðal vinsælustu höfunda Evrópu nú um stundir

Ragnar Jónasson er nú með þrjár bækur í tíu efstu sætunum á metsölulista Der Spiegel yfir mest seldu kiljur í Þýskalandi. Mistur, lokabókin í þríleik Ragnars um lögreglukonuna Huldu, fór beint í fjórða sæti nýs lista. Þar eru svo fyrir Dimma í þriðja sæti og Drungi í tíunda.

Fáheyrt er að höfundar séu með svo marga titla í senn á meðal mest seldu bóka hverju sinni. Í sumar þegar Dimma fór fyrst í annað sæti listans voru fimmtán ár liðin síðan íslensk skáldsaga hafði náð þeim árangri. Þá hafði íslenskur höfundur aldrei fyrr náð þeim árangri að vera með tvær bækur í efstu sætum listans, hvað þá þrjár eins og nú, að því er greinir frá í tilkynningu frá forleggjara Ragnars hér á landi.

„Ég efast um að nokkur íslenskur höfundur hafi átt þrjár bækur á meðal þeirra tíu söluhæstu á jafn mikilvægu málsvæði og Þýskaland er. Þýski bókamarkaðurinn er gríðarlega stór og þetta sýnir svo ekki verður um villst að Ragnar er á meðal vinsælustu höfunda Evrópu nú um stundir. Velgengni hans er mikið gleðiefni öllum þeim sem vilja veg íslenskra bókmennta og höfunda sem mestan,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti og Veröld sem gefur út bækur Ragnars á Íslandi.

Þýska forlagið sem gefur út bækur Ragnars fór þá óvenjulegu leið að láta mjög skammt líða á milli útgáfudaga bókanna í þríleiknum, en Dimma kom út í maí, Drungi í júlí og Mistur nú í september. Dimma er nú í sinni 17. viku á listanum, Drungi í 10. viku og Mistur ný á listanum, en metsölulisti Der Spiegel mælir sölu á yfir 4.200 útsölustöðum í Þýskalandi.

„Mér er náttúrlega efst í huga gleði og þakklæti yfir því hversu vel bókunum hefur verið tekið, sérstaklega í Þýskalandi og svo víðar. Og auðvitað er gaman að sjá hversu mikla athygli vekur að bækurnar skuli vera svo ofarlega á lista á sama tíma,“ segir Ragnar Jónasson.

Þríleikur Ragnars sem hefst á Dimmu hefur hlotið mikið lof og svo hafa vinsældir bókanna líka skilað sér í því að bandaríski sjónvarpsrisinn CBS Studios hefur ákveðið að ráðast í gerð átta þátta sjónvarpsþáttaraðar upp úr Dimmu. Tilkynnt var um þá fyrirætlan í síðustu viku.

Bækur Ragnars um lögreglukonuna Huldu hafa hvarvetna hlotið frábærar viðtökur og nægir þar að nefna að The Times sagði í vor að þríleikurinn væri ekkert minna en tímamótaverk og Sunday Times að Mistur væri stórkostlegur endapunktur á honum og yki enn hróður Íslands á sviði glæpasagna.

Bækur Ragnars hafa selst í um einni og hálfri milljón eintaka á heimsvísu, en þær eru gefnar út í um það bil 40 löndum á 27 tungumálum.

Þýsk útgáfa þríleiks Ragnars Jónassonar um lögreglukonuna Huldu, Dimma, Drungi og Mistur, sem ytra nefnast Dunkel, Insel og Nebel.