Rannsóknarlögreglumaðurinn Guðgeir mættur í Herjólfsdal

Skaði eftir Sólveigu Pálsdóttur er komin út hjá bókaforlaginu Sölku. Rannsóknarlögreglumaðurinn Guðgeir snýr aftur í þessari sjöttu spennusögu höfundar og í þetta sinn er teymi hans kallað að tjaldsvæðinu í Herjólfsdal eftir að ljóst er að þar hafa átt sér stað voveiflegir atburðir. Skemmtiferð vinahjóna virðist hafa farið á annan veg en til stóð og ljóst er að margt býr undir yfirborði og ásjónu fólks. Rannsókn lögreglunnar teygir anga sína víða, allt frá eldfjallaeyjunni til frumskóga Mið-Ameríku.

Skaði er hörkuspennandi saga sem talar beint inn í samtímann, segir í tilkynningu frá útgefanda. Meðal þess sem bókin gerir að umfjöllunarefni sínu eru þeir djöflar sem margir draga og hversu langt fólk er tilbúið að ganga, stundum með hugbreytandi efnum á borð við ayahuasca, til að hljóta andlega frelsun frá þeim.

Sólveig hlaut Blóðdropann, verðlaun fyrir bestu íslensku glæpasöguna, fyrir síðustu spennusögu sína, Fjötra, og var framlag Íslands til Glerlykilsins. Hún var fyrir fáeinum árum útnefnd Bæjarlistamaður Seltjarnarness. Bækur hennar hafa verið þýddar á ensku og þýsku. Útgáfurétturinn af Skaða hefur þegar verið seldur til Bretlands en útgefandi hennar þar í landi tryggði sér réttinn löngu áður en fullbúið handrit var komið í hans hendur enda höfðu fyrri bækur hennar fengið frábærar viðtökur þar í landi, meðal annars með góðum umsögnum í Financial Times og The Guardian. Fyrrnefnda blaðið sagði meðal annars í umsögn sinni: „Það sem við höfum heyrt er satt. Sólveig Pálsdóttir er með þetta.“