Rithöfundur og eiginkonan með bækur, handrit og barn í maganum

„Þetta er tíunda skáldsagan mín, en síðasta bókin mín kom út fyrir sex árum, vegna þess að ég hef verið á fullu í bíóverkefnum síðan þá. En ég byrjaði reyndar á Dimmuborgum vorið 2014 en lagði hana svo til hliðar, en er mjög glaður að hafa loksins fundið tíma til að klára hana, því ég var alltaf mjög ánægður með grunnsöguna,“ segir Óttar M. Norðfjörð, rithöfundur sem búsettur er í Barcelona, en Dimmuborgir, ný skáldsaga hans kom út á dögunum hjá Forlaginu.

Bókin fjallar um bókmenntagagnrýnandann Elmar sem missti besta vin sinn 25 árum fyrr. Það hefur aldrei fengist á hreint fyrir víst hvað gerðist, en Elmar hefur alltaf verið viss um að eineltistuddi sem lagði þá í einelti í 10. bekk grunnskólans þeirra hafi drekkt honum, viljandi eða óviljandi, í Nauthólsvík. En svo koma fram vísbendingar sem benda til nokkurs annars og Elmar dregst inn í málið og uppgötvar alls kyns leyndarmál um gamla besta vin sinn.

Óttar segist hæstánægður með viðtökurnar, en hann sé strax kominn á kaf í önnur verkefni. Þau séu fyrir hvíta tjaldið, flest á byrjunarstigi, þótt kvikmyndin Una (sem byggir á handriti eftir hann og Martein Þórsson) fari reyndar í tökur í sumar, með framleiðslustyrk frá Kvikmyndamistöð Íslands.

„Svo fáum við vonandi að vita á næstu dögum eða vikum hvort Netflix hafi áhuga á því að framleiða aðra seríu af Brot/The Valhalla Murders,“ bætir hann við, en Óttar var aðalhandritshöfundur þeirra þátta sem vakið hafa mikla athygli út um allan heim, enda útbreiðsla Netflix og áhorf með ólíkindum.

„Ég er síðan með aðra bók í maganum. Og talandi um maga, konan mín er með nýtt barn í maganum sem von er á eftir rúma viku. Svo það er nóg að gera, en það er bara gaman, því mér finnst fátt leiðinlegra en að hafa lítið að gera,“ segir hann léttur í bragði við Viljann.

En kom velgengni sjónvarpsþáttanna honum á óvart?

„Já, hún kom okkur sem stöndum að seríunni náttúrulega mjög skemmtilega á óvart. Maður vissi ekki alveg hvernig útlendingar myndu taka henni, en það hefur verið fram úr björtustu vonum. Hún hefur fengið mjög fína dóma, verið mælt með henni á stöðum eins og Vice í Bandaríkjunum og Entertainment Weekly, og svo var hún líka lengi vel á topp 10 áhorfslistum Netflix út um allan heim. Ástralíu, Brasilíu, Argentínu, Indlandi, Bandaríkjunum, svo nokkur lönd séu nefnd, og svo í nánast öllum Evrópulöndunum. Svo við kvörtum ekki, og erum bara spennt að sjá hvort Netflix vilji endurtaka leikinn. En það fer allt eftir einhverjum algóryþmum sem þau eru með, uppsafnað áhorf og þannig. En eins og ég segi, þetta ætti að koma í ljós á næstunni.“