Sjóslysin hafa í mörgum tilfellum haft langvarandi áhrif á andlega líðan mannanna

Svava Jónsdóttir blaðamaður og rithöfundur.

„Í bókinni eru viðtöl við 12 skipbrotsmenn sem sögðu af mikilli einlægni frá sjóslysunum og hvaða áhrif þau hafa haft á andlega líðan þeirra jafnvel áratugum eftir sjóslysin. Mennirnir eru Valdimar H. Sigþórsson og Gunnar Þór Hilmarsson, sem voru á Dísarfelli, Gunnar Scheving Thorsteinsson, sem var á Tungufossi, Hafsteinn Garðarsson, sem var á Krossanesi, Þorsteinn K. Ingimarsson og Hilmar Þór Jónsson, sem voru á Bjarma, Jón Gunnar Kristinsson, sem var á Æsu, Hjalti Ástþór Sigurðsson, sem var á Unu í Garði, Gunnar Kristján Oddsteinsson, sem var á Ófeigi, Örlygur Rúdólf Guðnason, sem var á Andra, og Jón Snæbjörnsson og Júlíus Víðir Guðnason sem voru á Suðurlandi,“ segir Svava Jónsdóttir blaðamaður sem hefur sent frá sér bókina Heimtir úr helju, rætt við 12 skipbrotsmenn.

„Eins og áður sagði sögðu mennirnir frá af mikilli einlægni. Þetta voru hrikalegir atburðir sem höfðu auðvitað mikil áhrif á þá og það tók augljólega stundum á að rifja þetta upp og það tók stundum líka á að vinna í þessari bók þar sem svona hryllilegir atburðir og svona miklar tilfinningar koma við sögu en í sumum tifellum létust skipsfélagar og menn horfðu jafnvel á þá drukkna. Ég tek fram að í einu tilfellinu er því lýst þegar viðkomandi horfir í augu manns sem var að kveðja þetta líf á þann hátt og hann nafngreinir hann en ég hafði samband við fjölskyldumeðlim þess látna sem gaf leyfi sitt. Í öðru tilfelli komust menn ekki í björgunarbáta heldur kræktu sig saman í sjónum og allt í kring voru risastórir gámar og þurftu mennirnir að forðast þá.

Skipstjórinn á Tungufossi, Gunnar Scheving Thorsteinsson, var einn eftir í stóru skipnu. Hann hugsaði fyrst og fremst um að áhöfninni yrði bjargað og fór hann nokkrum sinnum á kaf með skipinu Það sem hann sagði í viðtalinu er eftirminnilegt: „Mér létti mikið þegar ég vissi að búið væri að bjarga öðrum og þá fór ég fyrst að hugsa um sjálfan mig. Ég hafði ekkert spekúlerað í því; aðalatriðið var að allir kæmust.“ Fyrirsögn þess viðtals er: „Ég var alveg tilbúinn að deyja.“

Suðurland fórst á jólanótt og höfðu skipverjar borðað hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld. Það var síðasta máltíðin um borð. Jólamaturinn. Jólatré var í messanum og menn tóku svo upp jólagjafir. Jón Snæbjörnsson var í terlínbuxum, skyrtu, þunnum jakka og spariskóm. Og Júlíus Víðir var í hvítri skyrtu, nýjum gallabuxum og kínaskóm. Síðan tók hryllingurinn við. Þrír skipsfélagar lágu síðan látnir á botni björgunarbáts.

Áhrif sjóslysanna eru margvísleg. Það er auðvitað í sumum tilfellum sorg vegna látinna skipsfélaga en sjóslysin hafa í mörgum tilfellum haft langvarandi áhrif á andlega líðan mannanna. Þar má nefna þunglyndi, einn var óvinnufær í um 20 ár vegna andlega áfallsins, einn vildi „klára það sem sjónum tókst ekki að klára“, einn greindist í kjölfarið með geðhvarfasýki en hann byrgði þetta allt inni og kenndi sér um að tveir drukknuðu og einn leitaði aðstoðar á þessu ári, áratugum eftir sjóslysið.

Það er ekki hægt að ímynda sér þá raun sem þessir menn gengu í gegnum og það má segja að það hafi verið lífsreynsla að hafa tekið þessi viðtöl. Ég er búin að vera í blaðamennsku í 30 ár og hef oft tekið átakanleg viðtöl og stundum hafa viðmælendur grátið þegar þeir hafa sagt mér frá sínum erfiðustu stundum og ég hef tárast en þarna voru 12 viðtöl sem tengdust einu verkefni og það má segja að allir þessir elskulegu og einlægu menn hafi sett hjarta sitt og sál í þessa bók.“

Hvers vegna ákvaðstu að skrifa bókina?

„Ég hef verið í blaðamennsku í 30 ár og ég hef auk þess skrifað fimm aðrar bækur og svo þýtt tvær; úr dönsku og ensku. Ég held að það megi segja um marga ef ekki alla blaðamenn að þeir séu alltaf eða allavega oft að leita að efni og ef bókaskrif eru líka inni í myndinni þá má segja það sama. Ég sat í rauðum stól í stórri byggingu fyrir sex árum síðan og var að taka viðtal við mann um starf hans en hann hafði lent í sjóslysi. Og þá fékk ég hugmynd. Að taka viðtöl við menn sem hafa lent í sjóslysum. Svo mallaði sú hugmynd í nokkur ár og ég skrifaði reyndar nokkrar bækur í millitíðinni; en nú er hún komin út.“

Hvernig er að taka þátt í íslenska jólabókaflóðinu?

„Þetta er ljúft og ég tek þessu bara rólega. Ég vona að bókin seljist ágætlega. Yfirleitt er það neikvætt ef vara er ekki til í verslun en ég var nýlega í verslun í miðbænum þar sem ég vissi að bókin ætti að vera til en hana var hvergi að sjá. Ég er róleg í tíðinni og hélt að það væru kannski mistök eða misminni hjá mér að hún ætti að fást þarna en ákvað samt að spyrja starfsmann. Hann kíkti í tölvukerfið: Bókin hafði selst upp. Ég lét því vita og var væntanlega komið með bækur. Mér var nýlega boðið á mánaðarlegan fund hjá félagi þar sem fyrrverandi sjómenn koma saman til að kynna bókina og ákvað að bjóða með mér einum af mönnunum sem ég tók viðtöl við, Valdimar sem var á Dísarfelli. Lýsingar hans á sjóslysinu og áhrifum þess voru átakanlegar. Myndir sem teknar voru á fundinum voru svo birtar á Facebook-síðu félagsins og skrifaði einn félagsmanna. „Einstaklega áhrifamikill fundur.“ Annar félagsmanna skrifaði. „Frásögn Valdimars var flutt af yfirvegun og áhrifameiri en maður á að venjast.“ Mér finnst þetta segja svo margt. Frásagnir þessara manna eru einstaklega áhrifamiklar.“

Er rithöfundurinn alltaf að? Meira í farvatninu?

„Það er gaman og áhugavert að vinna í blaðamennskunni og í 30 ár hefur maður tekið viðtöl við svo margt áhugavert fólk – um gleði og sorgir, sigra og ósigra. Núna eru bækurnar orðnar átta – sex sem ég hef skrifað sjálf og tvær sem ég hef þýtt eins og áður sagði. Þess má geta að önnur þeirra sem ég þýddi er eftir Carina Axelsson en saga hennar sjálfrar er eins og í ástarsögu; hún kom til Íslands í tilefni útgáfu bókarinnar, MÓDEL Í DULARGERVI. GLÆPUR Í TÍSKUHEIMINUM, og var hér í nokkra daga. Hún er hálfsænsk og hálfmexíkósk og ólst upp í Bandaríkjunum og vann sem módel á árum áður og kynntist svo fyrir um 20 árum síðan Gustav, prinsi af Sayn-Wittgenstein-Berleburg, og er hann systursonur Margrétar Danadrottningar. Faðir hans var þýskur prins, eða fursti, og afi hans hafði sett það í erfðaskrána að sá prins sem erfði allt góssið í Bad Berleburg yrði að kvænast konu sem væri aríi, af aðalsættum og mótmælandi. Og Gustav er einmitt sá prins. Það þurfti málaferli í mörg ár til að Carina og Gustav gætu gifst en allt endaði vel og gengu þau í hjónaband í fyrrasumar og sendi þýðandinn prinsinum og prinsessunni auðvitað brúðargjöf og má því gera ráð fyrir að falleg myndbók með myndum af Íslandi skreyti bókahillu í höllinni í Bad Berleburg sem og púði frá Tundra sem skartar íslenska þjóðarblóminu. Carina er núna prinsessa af Sayn-Wittgenstein-Berleburg og eiga hjónin son sem fæddist fyrr á þessu ári með hjálp staðgöngumóður.

Svo gæti bókunum mínum fjölgað en ég er með ýmsar hugmyndir. Það er sennilegt að ég muni skrifa ævisögu og svo fékk ég hugmynd að krimma. Ég á margar hugmyndir að barnabókum en það er sérstaklega ein sem yrði myndskreytt sem stendur upp úr sem ég hugsa að ég fari að vinna eitthvað í. Hvort þetta komi svo allt út kemur bara í ljós.

Þess má geta að ég er meðal annars með BA-próf í spænsku og væri til í að þýða bók eftir spænskan eða suður-amerískan rithöfund. Spænskumælandi heimurinn er í mínum huga mikill ævintýraheimur hvort sem það tengist bókmenntum eða tónlistinni. Svo er tungumálið eins og fjólublátt flauel. Svo skrifaði ég stutt handrit á sínum tíma sem ég sendi til frábærs kvikmyndagerðarmanns sem er til í að leikstýra og datt viðkomandi í hug að ég gæti skrifaði þetta fyrir mynd í fullri lengd. Spurning um að gera eitthvað í þessu en hugmynd mín er að þetta yrði mjög ljóðrænt en ákveðin tegund tónlistar tengist þessu. Ég hef hins vegar ekkert reynt að fá framleiðanda.“

Úr frásögn Valdimars af Dísarvelli

Valdimar Hallur Sigþórsson, sem var á Dísarfelli þegar það fórst suðaustur af Hornafirði 9. mars 1997, sagði meðal annars:

Við fórum síðan út á dekk og hópuðumst þar saman. Það var farið í lest fimm og sex og þá sáu þeir að lest fimm var orðin hálffull af sjó. Gámarnir voru allir komnir á flot í lestunum og skipið var komið með mikinn halla upp í vindinn. Þá voru gámar byrjaðir að rifna upp og velta út í sjó.“ Valdimar segist hafa litið á klukkuna þegar mennirnir fóru í annað skiptið og athuguðu með sjóinn í lestinni og að þá hafi klukkan verið korter til 20 mínútur yfir tvö.

Ægir réðst á skipið af öllu afli og tætti það í sig. Kranabómurnar slitnuðu af festingunum og þeyttust út svo þær stóðu þvert út frá skipinu.

„Við vorum þarna í helvíti langan tíma. Maður var að reyna að gera eitthvað svo sem að reyna að losa björgunarbátana sem var alveg tilgangslaust. Ég og annar losuðum einn björgunarbát og hentum í hafið en hann blés ekki út. Ég vafði um hendina á mér spottanum sem átti að kippa í til að hann myndi blása upp og þá var ég nærri því búinn að missa hendina. En það skeði ekki neitt. Og note bene þá höfðu allir björgunarbátar í þessari inniveru áður en við fórum út í þennan örlagaríka túr farið í yfirlagningu þannig að það var farið svo vel yfir þá að þeir virkuðu ekki. En einhvern veginn gat ég losað hendina og við bara slepptum bátnum. Svo fór maður að hugsa um það seinna að við hefðum aldrei getað verið í þessum bátum vegna þess að í þessum halla með þetta veður á sér þá náttúrlega bara hreinsaðist dekkið af gámum. Það voru gámar alls staðar í kringum okkur. Ef við hefðum farið út á björgunarbát þá hefði hann lent á gámi og sprungið. Það átti að fara að ferma tvíburana okkar hálfum mánuði síðar og ég sagði við sjálfan mig að ég skyldi sko lifa þetta af vegna þess að ég ætlaði að mæta í ferminguna hjá krökkunum. Einn skipverjanna sagði að skipið væri að fara niður og sagðist ætla að henda sér í sjóinn. Og hann henti sér þá í sjóinn. Við hinir vorum í þó nokkuð langan tíma eftir það um borð.“

Valdimar segir að á svona stundum hverfi tíminn. „Hann stoppar. Ég fylgdist ekkert með tímanum.“

14 – 16 metra háar öldurnar voru eins og skrímsli allt í kringum hallandi skipið.

„Við vorum náttúrlega búnir að loka öllum dyrum bakborðsmegin og þá sá maður sjóinn vera að reyna að brjótast inn alls staðar. Og hallinn var svoleiðis að maður gekk bara á veggjunum. Ég fór til að fá mér eitthvað að borða í eldhúsinu þar sem ég var orðinn svo svangur og þá kom vonleysi yfir mig þegar ég gekk þaðan út. Ég eiginlega lagðist á spil aftur á af því að ég hálfpartinn gafst upp. Og þegar ég var á bak við þettta spil þá var eins og allur máttur hyrfi úr líkamanum. Ég bara sá ekki neinn tilgang vegna þess að þú getur ekki ráðið við Ægi sem er með 14 – 16 metra ölduhæð. Einn vinur minn kom til mín og gaf mér kinnhest og það var eins og ég fengi start og þá fór ég í gang. Ég reyndi að gera allt sem mér datt í hug og sem öðrum datt í hug eins og að losa björgunarbátinn eins og ég sagði. Skipstjórinn og yfirstýrimaðurinn voru uppi í brú og skipið var þarna eiginlega á hliðinni. Þetta var svo skrýtið; maður man eftir rosalega miklu. Við vorum búnir að raða okkur á landgang af því að við náðum þar fótfestu og gátum haldið okkur í lunninguna. Við sáum stjörnubjartan himin og svo komu ský yfir. Við sátum þarna og þá sagði Gunni, vinur minn: „Valdi, ertu nokkuð með sígarettu?“ Ég held ég hafi verið sá eini sem var með sígarettu og gaf honum. Og ég held ég hafi verið sá eini í búning sem ég gat rennt niður og stungið hendinni inn og náð í sígarettur. Og svo bauð ég bara sígarettur. Við vorum þarna reykjandi og horfandi upp í loftið og veltum fyrir okkur hvað myndi gerast. Myndi þyrlan koma og redda okkur?

Mig minnir að einn vélstjórinn hafi farið tvær ferðir frá dekki og upp í brú til að tala við mennina þar af því að talstöðvarnar okkar og þeirra virkuðu ekki.

Einn í hópnum var að reyna að skjóta upp neyðarblysum en málið er að af því að öldurnar voru það stórar þá skaut hann inn í öldurnar. Sjórinn bara lýstist upp. En það náttúrlega sást ekki neitt enda voru held ég ekki mörg skip þarna í kringum okkur. Þarna börðumst við og ég veit ekki hvað lengi við vorum þarna. En sjálfvirki neyðarsendirinn á skipinu fór í gang rúmlega fimm um morguninn.

Við sátum þarna á hálfgerðu hænsnapriki og það var verið að spá í að fara í sjóinn af því að í Slysavarnaskólanum hafði verið sagt að maður ætti að reyna að vera sem lengst á skipinu en við sáum að það var byrjað að detta niður að aftan. Þau fara yfirleitt með rassgatið fyrst og svo niður. Við vorum eitthvað að spá og spekúlera og ég náði í spotta til þess að binda í lunninguna þannig að menn gætu haldið í hann til þess að komast eftir síðunni og niður í sjó. Og menn klöngruðust þarna niður og ég var síðastur.“

Brot.

„Það er svo skrýtið. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir kraftinum í brotunum. Ég gleymi ekki þessu broti sem ég lenti þarna í; krafturinn var svo mikill og svo gífurlegur af þessu broti sem ég lenti í sem þeytti mér út í haf og dembdi mér á bólakaf af svo miklum krafti að kinnarnar á mér flöksuðu á leiðinni niður. Ég var í flotgalla og ég vissi að hann kæmi mér upp aftur og ég var mjög rólegur á þessum tíma.

Svo þaut ég niður í hafdýpið. Það hægðist meira og meira á mér og ég fór svo að fara hægt upp þangað til ég var kominn upp á yfirborðið. Ég man nú ekki til þess að ég hafi sopið neinar hveljur. Ég hafði passað mig á að vera með kjaftinn á mér lokaðan og ekki reynt að anda neitt. Það fyrsta sem ég gerði var að líta í kringum mig og þá sá ég látinn mann í sjónum. Við reyndum svo að draga hann svo til okkar. Strákarnir voru byrjaðir að festa sig saman með því krækja sig saman; við vorum eins og slanga í sjónum.

Maður hugsaði náttúrlega fyrst og fremst um að komast lífs af. Það var engin hræðsla. Eftir að maðurinn gaf mér löðrunginn þá varð ég eiginlega aldrei hræddur. Það gerðist eitthvað í hausnum á manni en þegar við vorum í sjónum þá sá ég ömmu mína sem var þá látin. Hún var í hvítum kirtli og horfði á mig þar sem hún sveif fyrir ofan okkur; hvort þetta sé í hausnum á manni eða hvort þetta sé þessi æðri máttur sem menn eru að tala um en hún horfði á mig og var með handleggina krosslagða.“

Hún vildi ekki taka þig í faðminn.

„Hún vildi ekki taka mig. Og þegar ég sá þetta hugsaði ég: „Ég kemst lífs af. Það eru alveg hreinar línur.“ Þetta er svona æðri máttur. Eða er til eitthvað æðra? En í þessu tilfelli þegar við vorum þarna í þessu þá komst ég að því að mannskepnan verður að hafa eitthvað sem er æðra manni upp á það að geta ákallað það og þá kannski róast hugurinn. En hvað það er veit ég ekki. Og ég kemst ekki að því fyrr en ég drepst. En þessi mynd var rosalega föst í huganum allan tímann á meðan við vorum í sjónum. Og það var ekki nema í kannski tvær til þrjár mínútur sem hún var svífandi yfir mér. Ég man svo vel eftir að hún var í síðum hvítum kirtli og með krosslagða handleggi eins og ég sagði og þá einhvern veginn komst það inn hjá mér að ég kæmist lífs af úr þessu. Ég var ekki að segja neinum frá þessu.“

Dísarfellið var á leið niður.

„Ég og nokkrir aðrir sáum þegar við vorum komnir í sjóinn að sjórinn sprautaðist út nokkurn veginn miðskips; það var eins og skipið hefði verið að gliðna í sundur í miðjunni.“

Menn í sjónum.

14 – 16 metra ölduhæð.

„Við gátum ekki talað. Það var svo mikið rok. Við vorum samt alltaf með nafnakall og kölluðum nöfn okkar reglulega. Svo komu öldurnar. Fyrsti maður fór yfir ölduna. Ég var aftast og þegar kom að okkur tveimur síðustu þá var þyngdin orðin svo mikil öðrum megin við ölduna að við fórum bara í gegnum hana. Þar sem við vorum fastir saman vissi ég að þegar maður kæmi aftur niður brekkuna þá gæti maður náð andanum aftur. Svona var þetta í einhverja klukkutíma. Ég gleypti sjó og svartolíu og maður náttúrlega ældi því eins og múkki. Svo fengum við einhvern hreinsilög þegar við komumst svo á spítalann en maður brann undan svartolíunni. Maður var lengi að jafna sig í rauninni. Maður getur eiginlega ekkert sagt hvað var að ske í sjónum vegna þess að maður var bara að hugsa um sjálfan sig og maður er þá númer eitt, tvö og þrjú. Og manni var eiginlega alveg sama um aðra.“
Þetta snýst um að bjarga sjálfum sér.

„Já.“

Svartolía. Og appelsínugulir gallarnir voru orðnir svartir.

HEIMTIR ÚR HELJU. RÆTT VIÐ 12 SKIPBROTSMENN
Höfundur: Svava Jónsdóttir, útgefandi: Tindur