Slakur seinni hálfleikur gegn Nígeríu gerði útslagið

Skapti Hallgrímsson blaðamaður og rithöfundur.

Út er komin bókin Ævintýri í Austurvegi – Strákarnir okkar á HM í Rússlandi, eftir Skapta Hallgrímsson, blaðamann. Þetta er eina bókin um þátttöku Íslands á HM sem kemur út, að því best er vitað.

Íslendingar stigu í sumar á stærsta svið knattspyrnumanna í fyrsta skipti, þegar þeir tóku þátt í lokakeppni heimsmeistaramótsins og heimsbyggðin hreifst af frækinni frammistöðu strákanna okkar, fulltrúa langfámennustu þjóðar sem nokkru sinni hefur verið með á HM, þrátt fyrir að liðið kæmist ekki upp úr riðlakeppninni.

Bók Skapta er ríkulega myndskreytt en þar segir hann á persónulegan hátt frá þátttöku Íslendinga, ævintýri sem lengi verður í minnum haft; fjallar bæði ítarlega um leiki Íslands og fjölskrúðugt mannlífið meðan á keppninni stóð.

Andartakið áður en Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu Messi.

„Menn ganga býsna stoltir frá borði en flestir gera sér líklega jafnframt grein fyrir því að það var hægt að ná lengra. Allir vildu gera betur og eru því í aðra röndina vonsviknir. Eitt stig úr þremur leikjum er ekki sérstök tölfræði. Auðvitað hljómar það undarlega en afar litlu munaði að Ísland kæmist í 16-liða úrslit HM í fyrstu tilraun á kostnað Argentínu! Það hefði þótt saga til næsta bæjar og raunar til allra bæja veraldar. Þegar upp er staðið var það slakur seinni hálfleikur gegn Nígeríu sem gerði útslagið. Hinar 225 mínútur mótsins lék íslenska liðið vel,” segir Skapti meðal annars í bókinni.

Skapti hefur fylgst með knattspyrnu í áratugi, starfaði í 36 ár á Morgunblaðinu, þar af sem fréttastjóri íþrótta í rúman áratug en íþróttirnar voru aldrei langt undan þau fjölmörgu ár sem hann starfaði á blaðinu eftir að Skapti snéri sér formlega að skrifum um annað.

Skapti hefur skrifað um íslenska knattspyrnumenn í þekkta erlenda fjölmiðla í mörg ár, einkum í Kicker í Þýskalandi og hið enska World Soccer, og eftir hann liggja tvær íþróttabækur; Leikni framar líkamsburðum, saga körfuknattleiks á Íslandi, og Bikardraumar, saga bikarkeppninnar í knattspyrnu.