Steingrímur J. bauð „versta seðlabankastjórastarf“ á Vesturlöndum

Árið 2009 var Svein Harald Øygard óvænt boðið að gerast seðlabankastjóri á Íslandi til bráðabirgða – sem erlendir fjölmiðlar sögðu vera versta seðlabankastjórastarf á Vesturlöndum.

„Þetta hlutverk veitti mér einstakt tækifæri til þess að fylgjast með landi og þjóð, ríkinu og stofnunum þess, og jafnframt ofurefli hnattræns bankakerfis, fjármagns og hagfræði,“ segir Norðmaðurinn í nýrri bók sem hann hefur ritað um Íslandsævintýri sitt, en þar ræðir hann einhverja örlagaríkustu daga í sögu okkar frá nýju sjónarhorni.

Ólöf Pétursdóttir þýddi bókina, en í tilefni af útkomu hennar stendur Norræna félagið í Reykjavík, fyrir opnum fundi síðdegis á morgun með yfirskriftinni, Hrunið, endurreisnin og Norðurlöndin  – vinir í raun, eða hvað?

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fv. fjármálaráðherra.

Á fundinum munu Svein Harald Øygard og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fyrrum fjármálaráðherra segja frá upplifun sinni af þeim örlagaríku tímum þegar efnahagshrunið reið yfir Ísland og endurreisnin átti sér stað, og fjalla um hvort og þá hvernig norrænt samstarf skipti þar einhverju máli.

Steingrímur J. var fjármálaráðherra á Íslandi eftir hrun og er sá sem ábyrgð bar á því að bjóða Norðmanninum stöðu seðlabankastjóra hér á landi.

Fundurinn fer fram í húsnæði Norræna félagsins, Óðinsgötu 7, við Óðinstorg og hefst kl. 17:00. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.