Í bókinni Guðni á ferð og flugi, fer Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, með lesandann í ferðalag um hinar dreifðu byggðir Íslands og heimsækir fólk af öllu tagi. Fyrir utan að vera skemmtilegir og forvitnilegir viðmælendur fæst það við spennandi og oft og tíðum nýstárleg viðfangsefni sem styrkja lífið í sveitunum. Í þessum heimsóknum er Guðni yfir og allt um kring og hin landskunna „guðníska“ skýtur hvað eftir annað upp kollinum.
Guðjón Ragnar Jónasson fylgdi Guðna á þessum ferðum og hefur skrásett á aðgengilegan og grípandi hátt það sem á daga þeirra dreif. Viljinn birtir hér stutt brot úr bókinni, sem Veröld gefur út.
Í Mjólkurhúsinu
Þegar komið var niður af Þverárfjallinu tók Húnaþing vel á móti okkur. Útjörð var að vísu frekar léleg í ljósi þess að við vorum á ferð síðustu helgina í maí en samt var hlýtt og stutt í vorið – og kannski bærum við það bara með okkur í garð. Guðni kvaðst nú þurfa að vera léttur í lund, enda samkvæmi kvöldsins framundan; hann þyrfti að vera sannur sunnanvindur sem feykti burtu vetri og vekti upp magnlítil moldarbörnin af vetrardvala. Vitnaði hann þar til líkingamáls Bjarna Thorarensen um gróðurinn í „Vetrinum“, einu þekktasta kvæði skáldsins, en ljóðskáld rómantíkurinnar eru Guðna hugleikin og mjög að skapi.
Við renndum í hlað á Stóru-Ásgeirsá rétt fyrir kvöldmat og tóku Magnús bóndi og fjölskylda vel á móti okkur. Guðni átti að hefja skemmtunina klukkan níu, en ákvað að koma fram tíu mínútum of seint. Taldi hann mikilvægt að Magnús næði að selja nokkra rótsterka drykki áður en hann stigi á stokk enda búið að vera rólegt yfir ferðaþjónustunni síðustu mánuði og misseri.
Þegar Guðni birtist gestunum loks tilkynnti hann þeim að hann væri kominn í framboð fyrir Framsóknarflokkinn á ný; hann væri í sjötta sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður og liti svo á að þetta væri baráttusæti listans. Uppskar hann hlátur fyrir. Hann áréttaði þó að þótt hann væri kominn í framboð í þéttbýlinu slægi hjarta hans enn í sveitinni. Lagði hann eiginlega línurnar fyrir samkomuna með eftirfarandi orðum sínum:
„Við verðum að standa vörð um það dýrmætasta sem við Íslendingar eigum: Landbúnaðinn. Ég kom hér norður með gleði í hjarta. Þið finnið að rigningin er komin og brátt verður jörðin framsóknargræn. Þið finnið vorloft þegar þið andið að ykkur; þannig að vorið er að koma eina ferðina enn. Ykkar skál, kæru vinir.“
Guðni flutti sannkallaða eldmessu og tókst vel upp. Glatt var á hjalla enda „Kófið“ nærri yfirstaðið eða svo héldum við og greina mátti uppsafnaða þörf meðal fólksins að hefja samkvæmislíf að nýju; höfðu margir á orði hve gaman væri að hittast. Salurinn í Mjólkurhúsinu er langur og mjór, og blandaði Guðni geði við gesti og spjallaði við þá. Flestir komu þeir úr Vestur-Húnavatnssýslu nema innst þar sem eitt borð var setið gestum úr austursýslunni. Vitandi af fjölda vestursýslunga henti Guðni óspart gaman að Austur-Húnvetningum, sem sátu brúnaþungir undir lestrinum, en allt var þetta græskulaust; þeir létu sneiðar Guðna sem vind um eyru þjóta, styrktu bara blönduna og skemmtu sér hið besta. Hélt samkvæmið áfram fram á nótt.
Guðni var í miklu stuði þegar leið á kvöldið og sagði sögur af Húnvetningum bæði fyrr og nú. Hann nefndi að læknar héraðsins hefðu oft og einatt verið býsna litríkir, en taldi þó Jónas Sveinsson vera einn almerkasta lækni sem þjónað hefði Vestur-Húnvetningum. Rifjaði Guðni upp fræga sögu af Jónasi sem hann tilgreinir einnig í ævisögu sinni, en það var þegar húnvetnskur bóndasonur seldi annað eista sitt fyrir jarðarverð og Jónas græddi það í aldurhniginn norskan skipakóng. Sá norski á að hafa lifað löngu og góðu lifi eftir húnvetnsku líffæragjöfina og átt fjölda barna á gamals aldri. Fleiri sérstæðir karakterar hafa setið Hvammstanga og er kannski sá frægasti Kári Stefánsson sem þar var læknir í rúmt ár um miðjan áttunda áratuginn. Sumir halda því fram að vísa sem hékk lengi uppi á vegg í sjúkrahúsinu á Hvammstanga hafi verið samin af Kára en vísan hljóðar svo:
Allar þessar kerlingar og klemmdir puttar, dóp.
Kristján sullur, Pétur feiti og Hanna.
Sú löngun gnýr í sál minni sem heljar mikið hróp,
að halda aftur suður á land til manna.
Hver orti vísuna skiptir kannski ekki máli í hinu stóra samhengi. Þó er líklegt að Húnaþing hafi verið of lítið fyrir Kára Stefánsson. Guðni nefndi enn fremur tvo aðra fræga lækna sem setið hefðu héraðið, þá Þórarin Tyrfingsson sem teygaði eitthvað annað með Húnvetningum á þeim árum en vatnið úr Víðidalsá og loks stórvin sinn, Ólaf F. Magnússon, sem Guðni taldi besta borgarstjóra sem Reykvíkingar hefðu átt á þessari öld en hann þjónaði Hvammstanga stuttu eftir að hann kom úr námi.
Í ræðu sinni hafði Guðni rætt um Húnvetninga fyrri tíðar og vini þeirra, m.a. læknana sem nefndir voru hér ofan. Einum hafði hann þó gleymt: Séra Róbert Jack á Tjörn á Vatnsnesi, sem kom upphaflega til Íslands til að þjálfa Val árið 1937, tók ástfóstri við land og þjóð og nam í framhaldinu guðfræði við Háskóla Íslands. Róbert minnti þó rækilega á sig þegar líða tók á kvöldið. Guðni átti langt spjall við ungt par sem ættað var úr Víðidalnum, þau Heiðrúnu Nínu Axelsdóttur frá Valdarási og Eyþór Elmar Berg frá Galtanesi. Hefur Guðni gaman af því að ræða við ungu kynslóðina og fór því vel á með honum og unga parinu. Talið barst að föður Nínu en svo kallar hún sig. Hún er dóttir Axels Rúnars Guðmundssonar bónda á Valdarási í Fitjárdal sem er lítill dalur og liggur samsíða Víðidalnum. Er ekið inn í Fitjárdalinn þegar komið er niður af Miðfjarðarhálsinum, en fimm kílómetrar eru síðan frá aðalveginum að Valdarási, bæ Axels Rúnars, og er jörðin þar landmikil.
Fram kom í samtali Guðna við hjónaleysin ungu að þrátt fyrir að Axel Rúnar, sem notar jafnan seinna nafnið, stæði í baráttu við krabbamein vildi hann gjarna bjóða Guðna í morgunkaffi. Guðni þekkti Rúnar ekki fyrir en samþykkti að heimsækja Fitjárdalinn næsta morgun, sérstaklega eftir að hann fékk að heyra að Rúnar væri eini Íslendingurinn sem hefði spilað með Manchester United og meira að segja skorað mark. Þá var enginn vafi í huga hans: Að Valdarási skyldi halda. Og átti séra Róbert þá eftir að koma töluvert við sögu.