WOW: Ris og fall flugfélags rekur óþekktar ástæður gjaldþrotsins

Í tilefni af útgáfu bókarinnar WOW: Ris og fall flugfélags eftir Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins,  verður blásið til hádegisfyrirlesturs í Norræna húsinu þriðjudaginn 28. maí milli 12:00 og 13:00.

Þar mun Stefán kynna helstu efnistök bókarinnar ásamt því sem Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, flytur erindi um áhrif WOW á uppgang og seinna meir samdrátt ferðaþjónustunnar.

Í kjölfar fyrirlestra verður opið fyrir spurningar úr sal.

Í bókinni koma fram áður óþekktar ástæður þess að flugfélagið WOW varð gjaldþrota en einnig hvernig Skúla Mogensen, stofnanda þess, tókst á örfáum árum að byggja upp flugfélag sem hafði áður en yfir lauk flutt tíu milljónir farþega yfir Atlantshafið, að því er segir í tilkynningu frá Forlaginu.

Stefán Einar Stefánsson viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins og fv. formaður VR.

Sjálfur segir Stefán Einar á fésbókinni:

„Ég ákvað að skrifa þessa bók því ég taldi mikilvægt að almenningur hefði aðgengi að réttum upplýsingum um sögu félagsins og að á einum stað væri hægt að nálgast mikilvægar upplýsingar um aðdragandann að því að félagið fór á hausinn.

Í bókinni er mikið magn nýrra upplýsinga sem ekki hafa komið fram áður. Þær varpa nýju ljósi á síðustu dagana í lífi félagsins.“

Eftir fyrirlesturinn gefst áhugasömum tækifæri á að kaupa bókina á sérstöku kynningarverði áður en hún kemur í búðir.