13. febrúar 2019: Búið ykkur undir nýtt Elsu-æði

Ritstjórinn með prinsessuna sína.

Ég á litla þriggja ára stúlku sem er algjör augasteinn foreldra sinna og hefur glatt miðaldra föður sinn ótæpilega undanfarin ár. Það er ótrúlega gott fyrir sálina að eignast lítið barn þegar maður er kominn vel yfir fertugt. Mæli eindregið með því.

Björk Von mín syngur öll lög myndarinnar daginn út og daginn inn, hvort sem er á ensku eða íslensku og finnst fátt skemmtilegra en klæða sig í kjóla úr myndinni. Ég hygg að sama megi segja um milljónir stúlkna og drengja um víða veröld, enda er Frozen ein vinsælasta kvikmynd allra tíma.

Vinsældir myndarinnar hafa verið svo miklar um árabil á barnaheimilum að margir foreldrar fá grænar bólur af tilhugsuninni um að hlusta enn eitt skiptið á „Þetta er nóg/Let it go“ en ég hef náð að afbera þetta allt af því ég sé hvað litla daman mín elskar þessi lög og þessa mynd út af lífinu.

Og svo er sagt að ferðamannalandið Noregur hafi sprungið út í kjölfar ótrúlegrar velgengni myndarinnar.

Og nú er framhaldið væntanlegt. Tilkynnt var í dag að Frozen 2 verði frumsýnd í nóvember næstkomandi og fyrsta stiklan úr myndinni frumsýnd, hún er hér að neðan. Ef ég þekki Árna Samúelsson og fjölskyldu í Sambíóunum rétt, verður hún tilbúin til sýninga á sama tíma með íslensku tali. Ágústa Eva getur farið að brýna raustina.

Foreldrar: Búið ykkur undir fleiri lög sem límast munu á heilann úr draumaverksmiðju Disney, Elsa og Anna eru að mæta aftur til leiks og litlar prinsessur um víða veröld munu ekki ráða sér fyrir kæti.

Næstu fimm eða tíu árin, eða svo.