13. nóvember 2018: Yfirgengileg íslensk vitleysa

  Stundum er sannleikurinn svo furðulegur að engin lygasaga gæti tekið honum fram. Og einhvern veginn eigum við Íslendingar ótal mörg dæmi um einmitt þetta.

  Tökum sem dæmi tíðindi gærdagsins um framleiðni vinnuafls hér á landi. Frá því ég hóf störf sem blaðamaður fyrir um þrjátíu árum hefur lág framleiðni hér á landi og langur vinnudagur verið til umræðu. Þegar ég var aðstoðarmaður forsætisráðherra sat maður langa fundi með aðilum vinnumarkaðarins um aðferðir til að auka framleiðni og gera okkur samanburðarhæf við aðrar þjóðir. Hingað til lands hafa komið sendinefndir, við höfum haldið marga fundi, farið í stórátök og ég veit ekki hvað og hvað til þess að auka hjá okkur þessa blessuðu framleiðni á hverja unna vinnustund, eins og það heitir í einhverjum fínum skýrslum.

  En hvað gerist svo í gær?

  Jú, allt í einu kemur í ljós að þetta var bara allt í plati. Einn stór misskilningur.

  Hagstofan hefur breytt útreikningum sínum um fjölda vinnustunda og allt í einu er Ísland í flokki þeirra ríkja heims sem vinna fæstar vinnustundir ólíkt því sem áður var talið og framleiðni hér er ein sú hæsta meðal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

  Ha?

  Í mati Hagstofunnar kemur fram að fjöldi vinnustunda á Íslandi sé 16-22 prósent lægri en áður var talið. Kjarasamningsbundin réttindi á borð við matartíma og kaffihlé hafi verið talin með, ólíkt því sem gerist í öðrum löndum.

  Langur vinnudagur Íslendinga hefur því ekkert verið jafn langur og haldið hefur verið fram.

  Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi, að þetta gjörbreyti tölum um framleiðni hér á landi.

  „Framleiðni vinnuafls á Íslandi er mun betri en áður var talið. Nýju tölurnar sýna um það bil 30 prósent meiri framleiðni á hverja vinnustund á Íslandi heldur en í fyrri birtum tölum OECD,“ sagði hann.

  Í raun jókst því framleiðni á Íslandi um þriðjung í sumar með einu pennastriki þegar Hagstofan leiðrétti mistök sín í útreikningum.

  Mistök sem hafa valdið því að árum og áratugum saman hefur verið rifist um framleiðni og langan vinnudag.

  Og ákvarðanir um laun og fleira teknar út frá röngum forsendum.

  Hver ætlar að axla ábyrgð á þessari vitleysu?

  Hverjir höfðu hagsmuni öll þessi ár af því að veifa framan í þjóðina kolvitlausum tölum?

  Stundum er vitleysan svo yfirgengileg að hún tekur öllum skáldskap fram.