Ég tek það fram, að ég vil alls ekki að ríkisstjórnin frá eða boðað verði til kosninga. Við Íslendingar þurfum á pólitískum stöðugleika að halda og hægt sé vinna eftir áætlunum til lengri tíma. Aðeins þannig mun okkur ganga vel sem þjóð.
Ég hef á hinn bóginn vaxandi efasemdir um að ríkisstjórnin haldi út kjörtímabilið. Ég er ekki einu sinni viss um að hún lifi þennan vetur af.
Það eru nokkur erfið álitamál sem þar koma til, þessi helst:
- Kjaraviðræður framundan. Verkalýðshreyfingin er að blása til stórsóknar og setur fram mikla kröfugerð. Vandséð er að atvinnulífið stundir undir því og þá er hætt við miklum verkföllum og sárum vonbrigðum. Þjóðfélagið mun loga í átökum. Þolir bakland VG það?
- Fjárlögin koma til annarar umræðu á morgun og í gærkvöldi lak út að meirihluti fjárlaganefndar væri að leggja til nokkra lækkun á tillögum ráðherrans sjálfs frá í haust. Bæði af tæknilegum ástæðum (skipulagsvinna við Landspítala hefur tafist og eins undirbúningur nýs skrifstofuhúss fyrir Alþingi) en einnig vegna erfiðra hagtalna, ótta við vaxandi verðbólgu og gengishrun. Kólnun í hagkerfinu, sagði formaður fjárlaganefndar. Niðurstaðan er m.a. að áður boðuð hækkun til öryrkja er stórlækkuð, eða um 1.100 milljónir króna. Líklega er margt af þessu skiljanlegt, en þetta var óskaplega klaufalega sett fram fyrir þjóðina og þetta eru afar vond skilaboð inn í kjaraveturinn. Ríkisstjórnin verður auðvelt skotmark fyrir vikið og auðvelt að benda á, að á sama tíma sé verið að stórauka enn og aftur framlög til stjórnmálaflokkanna og lækka álögur t.d. á útgerðina. Þolir bakland VG þetta?
- Umræður um þriðja orkupakka ESB verða harðari dag frá degi. Sitt sýnist hverjum, en erfitt er orðið að sjá að meirihluti sé innan ríkisstjórnarflokkanna fyrir innleiðingunni í íslensk lög. Það gæti haft afdrifarík áhrif á aðild okkar að EES-samningnum. Iðnaðarráðherra vill alls ekki tefla honum í tvísýnu (þrýstingur eykst frá Noregi) og í Valhöll virðist í undirbúningi að keyra málið í gegn, jafnvel með stuðningi einhverra stjórnarandstöðuþingmanna (Samfylkingin og Viðreisn, jafnvel Píratar eru ekki andsnúnir orkupakkanum). Mun bakland stjórnarflokkanna þola það?
- Vinsældir ríkisstjórnarinnar fara hratt minnkandi, enda þótt hún hafi siglt lygnan sjó. Það er magnað. Sjálfur Trump nýtur meiri vinsælda í Bandaríkjunum en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á Íslandi. Meltið það andartak. Sjálfstæðisflokkurinn er kominn undir tuttugu prósent í könnunum sem er ótrúleg staða og framsókn og VG eiga mjög erfitt. Þolir baklandið áframhald af þessu?
- Já og svo er það krónan. Sem fellur og fellur. Seðlabankinn rýmkaði gjaldeyrisreglur og hækkaði vexti, en það sér ekki högg á vatni. Ekkert eitt mál mun ráða jafn miklu um afkomu heimilanna á næstunni. Og þegar lán landsmanna hafa hækkað vegna verðbólgunnar um næstu mánaðarmót og vöruverð tekur að stórhækka, verður allt vitlaust. Mun bakland stjórnarflokkanna þola það?
Það verður spennandi að sjá.