Margir heimspekingar og stjórnmálaskýrendur hafa áhyggjur af þróun umræðu á Vesturlöndum. Með tilkomu samskiptamiðla er eins og pólaríseringin verði meiri, óþol fyrir andstæðum sjónarmiðum eykst og reiðin almennt kraumar undir. Margir tala í hástöfum í óeiginlegri merkingu, spara ekki stóru orðin og láta út úr sér hluti á kommentakerfunum sem þeir myndu aldrei láta sér detta í hug að segja við aðra manneskju — augliti til auglitis.
Margir stjórnmálaforingjar gera út á þessa pólaríseringu. Trump í Bandaríkjunum er frægur fyrir þetta. Hann kallar andstæðinga sína öllum illum nöfnum, niðurlægir þá, tekur þá fyrir. Gagnrýnir fjölmiðlar fá á sig Falsfrétta/Fake News-stimpilinn frá forsetanum og hann hvetur fólk til að hætta að lesa eða horfa á tiltekna fjölmiðla og vill ekki ræða við einstaka fjölmiðlamenn sem honum líkar ekki við.
Þetta er skelfileg þróun í einu mesta lýðræðisríki heims og hefur auðvitað varpað ljósi á mátt samskiptamiðlanna og þessara risastóru fyrirtækja sem ráða í raun umræðunni í heiminum með algríminu sínu, safna banka með viðkvæmustu persónuupplýsingum jarðarbúa og hafa rænt hefðbundna fjölmiðla tekjumöguleikum sínum með því að fleyta sjálf rjómann með deilingu tengla og allskyns misgáfulegra skilaboða.
Við eigum alls ekki að afþakka Fréttablaðið eða aðra miðla, við eigum ekki að segja upp áskriftinni að Mogganum, jafnvel þótt við séum ekki sammála öllu sem kemur þar fram.
Sama þróun er að verða víða í Evrópu. Í Tyrklandi, Póllandi og Ungverjalandi hafa fjölmiðlar fengið fyrir ferðina. Margir vilja komast á stig Pútíns í Rússlandi, sem ræður algjörlega umræðunni þar í landi. Gagnrýnum fjölmiðlum er lokað, alvöru blaðamenn hreinlega hverfa eða eru myrtir.
Og nú er þetta að gerast einnig hér á landi. Gunnar Smári Egilsson, forystumaður íslenskra sósíalista og áhrifamaður á bak við upprisu hinnar nýju verkalýðshreyfingar (eins og framkvæmdastjóri Eflingar orðaði það sjálfur) hefur margoft að undanförnu gagnrýnt Fréttablaðið (sem hann stofnaði með fleirum) fyrir fréttaflutning og leiðaraskrif. Sama hefur hann gert við Morgunblaðið.
Auðvitað má gagnrýna fjölmiðla. Nema hvað. En Gunnar Smári fer í smiðju Trumps og Erdogans og fleiri slíkra manna og hvetur fólk til að sniðganga fjölmiðilinn sem honum mislíkar við. Hann hjólar í þá blaðamenn og ritstjóra sem eru honum ekki þóknanlegir, dreifir upplýsingum um það hvernig megi afþakka fjölmiðla sem eru með fjölda heiðarlegra blaðamanna í vinnu og vanvirðir störf þeirra með uppnefnum og allskyns lágkúru í málflutningi. Síðast í gær talaði Gunnar Smári um áróður Samtaka atvinnulífsins í formi Fréttablaðsins.
Þetta er óheillavænleg þróun og við henni verður að bregðast. Blaðamannafélagið hlýtur að bregðast við, enda þótt þar á bæ virðist menn raunar hafa litlar áhyggjur af hótunum stjórnmálafólks í garð blaðamanna.
Og við hin eigum ekki að taka undir slíkar kröfur. Við eigum alls ekki að afþakka Fréttablaðið eða aðra miðla, við eigum ekki að segja upp áskriftinni að Mogganum, jafnvel þótt við séum ekki sammála öllu sem kemur þar fram. Algrímið hans Zuckerbergs á Facebook gerir það að verkum að við sjáum oftast aðeins skoðanabræður okkar og systur þegar við skoðum fésbókina okkar. Þess vegna er eins og margir verði nánast undrandi og jafnvel alveg brjálaðir þegar þeir sjá fólk halda fram andstæðum sjónarmiðum.
Gleymum ekki að rökræðan er hornsteinn lýðræðisins. Rétturinn til málsfrelsis er heilagur. Pössum upp á að fjölmiðlar fái að rækja sitt mikilvæga hlutverk. Og látum ekki stjórnmálaforingja segja okkur hvað við eigum að lesa og hvað ekki.
Slíkt myndi enda með ósköpum. Sagan segir okkur það.