30. október 2018: Sjálfstraust til að efast

  Ég var svona að spekúlera: Er ekki möguleiki að við sem byggjum þetta fámenna land, gætum mögulega verið aðeins huggulegri hvert við annað? Og róað okkur aðeins í leiðinni…

  Sá sem fylgist með umræðunni á samskiptamiðlum og í kommentakerfum fjölmiðlanna hættir fljótlega að láta sér bregða þótt hátt sé reitt til höggs. Þegar það gerist aftur og ítrekað hættir það smám saman að virka. Þetta þekkja margir, líka þau okkar sem hafa oft verið milli tannanna á fólki. Þetta er vont en það venst, eins og maðurinn sagði. Skrápurinn þykknar með tímanum og á endanum spáir maður ekki lengur í þessu.

  Á Sturlungaöld riðu hetjur um héruð og vógu mann og annan. Geðslag sumra var að taka aldrei friðinn, ef ófriður var í boði. Á okkar tímum munar ekkert um að taka fólk af lífi á samskiptamiðlum; það tekur bara örfáar sekúndur — hviss, bamm, búmm; það er einn í dag og annar á morgun og einhverjir allt aðrir í síðustu viku og þar áður og lífið heldur svo áfram. Enginn spáir í því hvað verður um allt þetta fólk sem lendir í umferðarslysi umræðunnar og liggur kannski krambúlerað á eftir í óeiginlegri merkingu og á um sárt að binda.

  en samt er stundum eins og mennskan fái hvergi sæti við tölvuna

  Auðvitað á margt fullan rétt á sér — hér er enginn að tala fyrir þöggun eða vísa til einstakra atburða umfram aðra og það er mikilvægt að fólk fái að tjá sig í lýðræðissamfélagi — en samt er stundum eins og mennskan fái hvergi sæti við tölvuna. Sé hvergi nálægt lyklaborðinu. Kærleikurinn hvergi nærri. Að engum detti lengur í hug að draga djúpt andann og telja upp í tíu áður en Stóridómur er felldur á veraldarvefnum.

  Það virðast allténd engin takmörk fyrir því hvað sumir eru tilbúnir að láta út úr sér undir nafni og með mynd um annað fólk. Sem þeir þekkja kannski ekki neitt. Og vita í reynd ekkert um. Dómstóll götunnar getur verið miskunnarlaus og skeytir hvorki um skömm né heiður. Lygin ferðast hálfan hnöttinn meðan sannleikurinn er enn að reima á sig skóna og það tekur jú bara örfáar sekúndur fyrir nútímamanninn að dæma lifendur og dauða.

  Passíusálmur nr. 51 eftir Stein Steinarr, hljóðar svo:

  Á Valhúsahæðinni

  er verið að krossfesta mann.

  Og fólkið kaupir sér far

  með strætisvagninum

  til þess að horfa á hann.

  Það er sólskin og hiti,

  og sjórinn er sléttur og blár.

  Þetta er laglegur maður

  með mikið enni

  og mógult hár.

  Og stúlka með sægræn augu

  segir við mig:

  Skyldi manninum ekki leiðast

  að láta krossfesta sig?

  Svo mörg voru þau orð. Árni Grétar Finnsson úr Hafnarfirði orti líka um hörku umræðunnar, löngu áður en kommentakerfin gerðu okkur kleift að stækka gjallarhornið nánast óendanlega.

  Í hinu magnaða ljóði, Lífsþori, segir hann:

  Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,

  Sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,

  Djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,

  Manndóm til að hafa eigin skoðun.

  Það þarf viljastyrk til að lifa eigin ævi,

  Einurð til að forðast heimsins lævi,

  Visku til að kunna að velja og hafna,

  Velvild, ef að andinn á að dafna.

  Þörf er á varúð víðar en margur skeytir.

  Víxlspor eitt oft öllu lífi breytir.

  Þá áhættu samt allir verða að taka,

  En enginn tekur mistök sín til baka.

  Það þarf magnað þor til að vera sannur maður,

  Meta sinn vilja fremur en fjöldans daður,

  Fylgja í verki sannfæringu sinni

  Sigurviss, þó freistingarnar ginni.