5. febrúar 2019: Sýndarmennska og einelti Pírata á þingi

Einelti Pírata í garð pólitískra andstæðinga hélt áfram á þingi í dag þegar tveir þingmenn flokksins settu á sig húfur merktar FO (Fokk ofbeldi) og stilltu sér upp stundarkorn við hlið Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, þegar hann hélt ræðu í umræðum um samgönguáætlun.

Atvikið var greinilega þaulhannað, því þau Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir stóðu örskamma stund sitt hvoru megin við Bergþór, en nógu lengi til að hægt væri að taka myndir af uppátækinu og vekja athygli á því á samskiptamiðlum.

Nú er það svo, að Bergþór Ólason er réttkjörinn alþingismaður og hefur stjórnarskrárvarinn rétt til þess að sækja þingfundi og sinna sínum störfum, alveg óháð því hvað pólitískum andstæðingum hans finnst um það. Og hann á að hafa sama rétt og aðrir alþingismenn til að taka til máls og fá til þess frið. Forseti þingsins á að sjá til þess og forsætisnefndin öll.

Píratarnir tveir beittu þarna pólitískan andstæðing sinn ofbeldi og hræsnin er að þau þóttust sjálf vera að mótmæla með því ofbeldi. Auðvitað var það ekkert málið, þau voru bara að vekja með þessu athygli á sjálfum sér.

Ekki skal hér efast um að uppátæki Píratanna hefur mælst vel fyrir í sandkassanum þar sem þeir leika sér milli stjórnmálastarfa, en gagnvart flestum öðrum var þetta sjálfsmark sem gerir ekkert annað en vekja samúð með Bergþóri sem hélt haus, lét á engu bera og lauk við ræðu sína.