7. janúar 2019: Er aðlögun innflytjenda ekki æskileg?

Í Fréttablaðinu í dag er athyglisvert viðtal við Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur, verkefnisstjóra fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ. Viðtalið er raunar birt í fylgiblaði sem heitir Fólk og er sagt vera kynningarblað „sem býður auglýsendum að kynna vörur og þjónustu í formi viðtala og umfjallana.“ eins og það er orðað. Ekki veit ég hvort Reykjanesbær fór þá óvenjulegu leið, að kaupa umrætt kynningarviðtal, en hitt er að verkefnisstjórinn kom inn á áhugaverð atriði í máli sínu, sem mér finnst áhugavert að greina aðeins nánar.

Í viðtalinu kemur fram að um fjórðungur íbúa í Reykjanesbæ er með erlent ríkisfang, þar af eru um 16% íbúa bæjarins af pólsku bergi brotin. Það eru magnaðar tölur og því skiljanlegt að sveitarfélagið vilji sinna þessum málaflokk sérstaklega.

Þannig verðum við víðsýnni og umburðarlyndari þegar við búum við fjölbreytileika, fyrir utan að mannlífið verður skemmtilegra. Fjölmenningarsamfélag Reykjanesbæjar er ekkert annað en samfélagið allt. Við erum öll hluti af því og ef við ætlum að vinna að góðu samfélagi þá þarf að skapa rými fyrir þátttöku allra, óháð uppruna eða öðrum þáttum sem stundum koma í veg fyrir að fólk upplifir sig sem hluta af heildinni. Það þurfa allir að hafa jöfn tækifæri til þess að tilheyra heildinni og við leitumst öll eftir því að finna okkur sess þar sem okkur líður vel,“ segir Hilma í viðtalinu og hægt að taka undir þetta allt með henni.

Ekki sammála nálguninni

En ummæli verkefnastjórans um aðlögun innflytjenda að samfélaginu, vöktu sérstaka athygli. Hún segist ekki vera sammála þeirri nálgun að aðlögun þeirra sé mikilvæg:

„Það er mikilvægt að tala ekki um að við séum að láta þennan hóp aðlagast samfélagi okkar. Við eigum ekki samfélagið frekar en þau sem eru af erlendum uppruna. Samfélagið eigum við í sameiningu.“

Ég verð að játa, að þarna tel ég verkefnastjórann og Reykjanesbæ á einhverri undarlegri braut. Eflaust er meining hennar góð og auðvitað er rétt að samfélagið erum við sjálf og við eigum það öll, en það er nú einu sinni þannig að við búum hér á Íslandi og höfum skapað okkur samfélag hér. Rétt eins og Danir heima fyrir, Pólverjar þar í landi og svo mætti áfram telja.

Af hverju í ósköpunum er óeðlilegt að mælast til þess að hinir nýju Íslendingar aðlagist samfélaginu sem þeir eru að flytja inn í?

Það er inn í þetta íslenska samfélag sem fólkið er að flytja og af hverju í ósköpunum er óeðlilegt að mælast til þess að hinir nýju Íslendingar aðlagist samfélaginu sem þeir eru að flytja inn í?

Í því er engin kynþáttahyggja fólgin, enginn rasmismi. Til hins sama er ætlast af okkur þegar við Íslendingar flytjumst til annarra landa.

Eðlilega.

Fjölmenningarumræðan hefur verið mjög í deiglunni í Evrópu að undanförnu, enda stöðugur straumur flóttafólks til álfunnar, auk þess sem frjálst flæði vinnuafls veldur miklum fólksflutningum.

Á Norðurlöndunum og í Þýskalandi hafa orðið til öfgahópar gegn útlendingum og eru stjórnmálamenn og fræðimenn almennt sammála um að jarðvegur hafi orðið fyrir slíkar hreyfingar vegna þess að ekki var lögð nægilega mikil áhersla á að innflytjendur (einkum flóttafólk og hælisleitendur) aðlöguðust samfélaginu. Þess í stað hafa þeir einangrast, taka síður þátt í vinnumarkaði og skólakerfinu og orðið hefur til togstreita milli þeirra og annarra íbúa viðkomandi landa, sem hafa áhyggjur af menningu sinni, hefðum og sögu — enda langflestir þeirra vilji gjarnan bjóða nýja íbúa velkomna til leiks.

Ætlum við nokkuð að endurtaka mistök nágrannaþjóða?

Væri nokkuð til of mikils mælst að við Íslendingar kynnum okkur þessa þróun í Evrópu og gerum ekki sömu mistökin og voru gerð þar, fyrir einhverjum tuttugu, þrjátíu árum? Við megum ekki láta einhvern misskilinn pólitískan rétttrúnað hrekja okkur af leið í þessum efnum.

Svo vill til að Norðurlöndin hafa lagt mjög mikla áherslu hin síðari ár á aðlögun innflytjenda að samfélaginu og meðal annars hafa norrænir ráðherrar oft fundað um þessi málefni, auk þess sem um þau hefur verið rætt á vettvangi Norðurlandaráðs. 

Ég tek skýrt fram, að ég tel margt jákvætt við að fjölgun nýrra Íslendinga af erlendum uppruna. Og sannarlega hafa þeir margir auðgað menningu okkar og samfélag. Auk þess blasir við, að dýrmætt vinnuafl útlendinga hefur reynst okkur algjörlega nauðsynlegt í hinni miklu efnahagsuppsveiflu undanfarin ár. Við erum bara alls ekki nógu mörg til að þjónusta til dæmis hinn mikla fjölda ferðamanna sem hingað kemur til lands.

En mér finnst nákvæmlega ekkert að því að við reynum að tryggja að þeir aðlagist sem flestir okkar samfélagi og siðum. Læri tungumálið og taki þátt í samfélaginu með virkum hætti.

Þannig komum við í veg fyrir einangrun þeirra, tryggjum börnum úr þessum hópi tækifæri til menntunar og minnkum líkur á því að til togstreitu og jafnvel árekstra komi síðar meir. Það er til mikils að vinna í þeim efnum.