Í bókinni 1984 eftir George Orwell talar fólkið nýlensku, eða „newspeak“, sem hann kallaði svo. Þar er einnig að finna svokallaða „tvíhyggju“ – það að halda samtímis uppi tveim gagnstæðum skoðunum í huga sér og samþykkja þær báðar.
Winston Smith er starfsmaður Sannleiksráðsins, hann er að verða fertugur og hefur þann starfa að breyta upplýsingum í blöðum og kennslubókum eftir skipunum Flokksins. Yfir öllu vakir Stóri bróðir og fylgist vel með öllu sem gert er og sagt er.
Ráðið var í risabyggingu, eins og pýramídi í lögun, úr ljómandi, hvítri steinsteypu, er teygði sig — hver stallurinn af öðrum — þrjú hundruð metra í loft upp. Á framhlið hennar stendur:
STRÍÐ ER FRIÐUR
FRELSI ER ÁNAUÐ
FÁFRÆÐI ER MÁTTUR
Þetta datt mér allt í einu í hug, þegar ég las fréttir um að heilbrigðisráðherra vilji skipa starfshóp vegna biðlista eftir aðgerðum og heilbrigðisþjónustu. Starfshópurinn á ekki að leggja fram tillögur til að eyða biðlistum, heldur vill ráðherrann að hann skilgreini hvað er biðlisti.
Þetta er sannarlega áhugaverð nálgun. Ég legg til að ráðherrann skipi strax í framhaldinu annan starfshóp sem skilgreini hvað er sjúklingur.
Með þessu er hægt að halda fjölda manns uppteknum í viðamikilli vinnu ýmissa starfshópa og ekkert er verið að trufla ráðherrann á meðan með því að ræða einhver leiðindi um versnandi heilbrigðisþjónustu, óboðlega biðlista og slæma stöðu sjúklinga.
Orwell hefði orðið stórhrifinn. Og Stóri bróðir líka.