Æi, krakkar látiði ekki svona

Við Íslendingar höfum öll fengið okkar skammt af meðvirkni gegnum tíðina og þekkjum vel að fylgjast með rifrildi ráðandi afla um fjöreggið. Þetta er fremur vandræðaleg upplifun, svona eins og flestir þekkja; eins og að vera staddur í matarboði þar sem gestgjafahjónin taka allt í einu upp á því að hnakkrífast fyrir framan gestina sem sitja þögulir og niðurlútir eða þegar börn þurfa að fylgjast með heiftarlegu rifrildi foreldra sinna. Þriðji aðilinn við slíkar aðstæður væri helst til í að hverfa ofurhljótt ofan í jörðina…

Þannig líður okkur Íslendingum nú þegar enn eitt foreldrarifrildið er hafið vegna Covid-19. Kári okkar Stefánsson er enn einn ganginn búinn að fá nóg og vill ekki lengur vera memm. Hann er farinn í fýlu og ætlar ekki að hjálpa lengur til við skimun; segir réttilega að stjórnvöld fari um á hraða snigilsins í miðjum heimsfaraldri og treysti bara á að hann reddi málunum með öllu sínu góða starfsfólki og afbragðs tækjum og tólum.

Á vettvangi ríkisstjórnarinnar klórar fólk sig hins vegar í hausnum, er orðið dauðleitt á vikulegum upphlaupum vísindamannsins í Vatnsmýrinni og segir orðið opinskátt að hann sé farinn að haga sér eins og kóngurinn yfir Íslandi. Nýjasta dæmið í þeim efnum sé að hafna beiðni forsætisráðherra landsins um að koma til fundar í dag, en bjóða henni þessi í stað í hádegismat í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýrinni.

Vegna þessa vil ég segja þetta: Æi, látiði ekki svona krakkar.

Setjið nú egóin til hliðar og komist að sameiginlegri lendingu með þjóðarheill að leiðarljósi. Finnið leið til að ríkið geti tekið skimunina yfir sem allra fyrst og fáið lánaða aðstöðu hjá ÍE á meðan. Veiran er stórkostlegasta ógn við íslenskt samfélag og efnahagslíf á seinni tímum og við verðum að finna að þið séuð að leysa málin, en ekki föst í sandkassanum að rífast um hver eigi að hafa skófluna og hver fötuna.

Ég þykist viss um að bandaríska lyfjafyrirtækið Amgen (móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar) hefur engan áhuga á að standa í stríði við ríkisstjórn Íslands. Auðvitað á íslenskur forstjóri að hlýða kalli forsætisráðherrans og koma til fundar þegar beðið er um það.

Gleymum ekki að stjórnvöld margra landa hafa beitt boðvaldi sínu gagnvart einkafyrirtækjum við þessar fordæmalausu aðstæður. Lög um þjóðaröryggi og fleira kveða á um heimildir til tímabundinnar þjóðnýtingar í þágu almannahagsmuna og það er skylda allra landsmanna að svara kallinu þegar það kemur.

Boris Johnson forsætisráðherra Breta skipaði þarlendum bílaframleiðendum í vor að stöðva framleiðslu sína og framleiða þess í stað öndunarvélar. Allir hlýddu. Alvaran var mikil og þjóðarheill undir.

Íslensk stjórnvöld verða um leið að viðurkenna að kórónuveirufaraldurinn hér hefði verið katastrófa ef Íslenskrar erfðagreiningar og Kára Stefánssonar hefði ekki notið við. Við höfðum hvorki mannafla né tæki til að ráða við verkefni af þessari stærðargráðu. Og aftur og aftur hefur sýnt sig að einkaframtakið í Vatnsmýrinni er langt á undan þunglamalegri kerfishugsuninni þegar kemur að því að leysa málin.

Lærum af því og komum hlutunum í lag. Högum okkur eins og fullorðið fólk.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans og vinnur þessa dagana að ritun bókar um Ísland og kórónuveirufaraldurinn (bjorningi@viljinn.is).