Ætla ég í bólusetningu?

Farsóttarþreytan sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Embætti landlæknis hafa varað við, er svo sannarlega orðin raunverulegt vandamál hér á landi. Við erum að vonum öll orðin hundleið á þessari veiru sem spratt upp í Kína kringum síðustu áramót (eða eitthvað fyrr) og hefur ett heiminn hreinlega á hliðina síðan. Þúsundir hafa misst vinnuna, fyrirtæki sem byggð hafa verið upp með svita og tárum orðið að loka og þjóðfélagið allt verið fast í einhvers konar limbói frá einni viku til annarrar. Skólakerfið lamað, heilbrigðisþjónustan undirlögð og íþrótta- og menningarstarf liggur niðri misserum saman. Jólin framundan, þar sem landsmenn eru hvattir til að hitta aðeins sína nánustu og enga aðra. Eftir allt sem á undan er gengið. Ferðalög tilheyra fortíðinni og við sem byggjum þessa eyju komumst hvorki lönd né strönd meðan veiran geisar allsstaðar í kringum okkur. Er nema von, að allir séu orðnir hálfuppgefnir?

Það er hins vegar loksins hægt að merkja ljós við enda ganganna sem hingað til hafa virst svo dimm og óralöng. Hér kemur því uppbyggilegt innlegg, auk þess sem mig langar að nota þetta tækifæri til að svara þeim fjölmörgu sem hafa spurt mig undanfarið hvort ég ætli að láta bólusetja mig. Nú þegar fregnir berast af því að ýmis vænleg bóluefni séu að fara í dreifingu (sem verður að teljast eitt mesta afrek læknavísindanna um langt skeið á svo skömmum tíma) er hægt að fara að gera sér vonir um eðlilegra líf um eða uppúr miðju næsta ári. Þá er gott að minnast þess að tækifæri okkar Íslendinga eru óendanlega mörg og vonandi förum við þá í viðspyrnuna sem eitt þeirra landa sem setti heilsu og líf íbúanna í fyrsta sæti. Ferðaþrá heimsbyggðarinnar verður mikil og mikilvægt að íslensk ferðaþjónusta verði klár í þann slag. Víðerni og fámenni verða enn um sinn mikil auðlind og auðvitað heilbrigðisþjónusta í fremstu röð. Við eigum eftir að horfa til baka á kófið sem mikið lærdómsferli, þar sem margt tókst vel og annað síður, en vonandi komum við út úr því sem betra samfélag, þar sem allir hafa reynt á eigin skinni hvað það er dýrmætt að eiga góða að og njóta samvista við annað fólk á hverjum degi. Það er ljós við enda ganganna, gleymum því ekki. Þangað til verðum við að haga okkur af ábyrgð og hugsa ekki síður um náungann og þá sem viðkvæmastir eru en okkur sjálf.

Svandís Svavarsdóttir benti á Alþingi í dag, á að Ísland hafi þegar gert samning við fyrirtækið AstraZeneca um kaup á bóluefni gegn Covid-19 sem dugir fyrir 115.000 einstaklinga og skrifað verði undir samning Íslands við Pfizer í næstu viku um kaup á bóluefni sem dugar fyrir 85.000 einstaklinga. Þá liggja fyrir drög að samningum við fyrirtækin Moderna og Jensen og unnið er að gerð fleiri samninga um kaup á bóluefni í gegnum Evrópusambandið.

Markaðsleyfi fyrir bóluefni Moderna og Pfizer verða rædd á fundi Lyfjastofnunar Evrópu annars vegar 29. desember og hins vegar 12. janúar. Bretar hafa hins vegar fyrstir þjóða ákveðið að hefja bólusetningar með efninu frá Pfizer strax í næstu viku. Það eru sannarlega ótrúleg tíðindi. Fleiri bóluefni fá væntanlega markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu eftir áramót.

Það er því hægt að vænta þess að fljótlega eftir að markaðsleyfi fæst fyrir bóluefnin verða fyrstu skammtarnir fluttir til landsins. Auðvitað fer þá í gang mikið kapphlaup milli einstakra ríkja og vandseð að okkur Íslendingum berist allt það magn bóluefna sem samið hefur verið um í einu lagi. Heilbrigðisráðherra sagði á þingi í dag að samningar geri flestir ráð fyrir að bóluefnin verði flutt til landsins af framleiðanda og drög liggi fyrir að samningi við dreifingaraðila. Vinnuhópur á vegum sóttvarnarlæknis sér um að skipuleggja bólusetninguna en framkvæmdin er unnin í samvinnu við heilbrigðisstofnanir um allt land. Sóttvarnalæknir undirstrikaði einmitt á upplýsingafundi í morgun að ekki verði hægt að kaupa sig framfyrir neina röð; forgangshópar gangi fyrir og svo sé unnið eftir fyrirfram ákveðinni röð. Það er gott. Efnahagur á engu að ráða þegar kemur að lífi og heilsu fólks við þessar aðstæður.

Eins og fram hefur komið, þarf að bólusetja hvern og einn tvisvar og er gert ráð fyrir að bólusett verði með tveggja til þriggja vikna millibili. Eftir það líður allt að mánuður þar til viðkomandi einstaklingur er kominn með mótefnasvar. Ég hef ítrekað verið spurður að undanförnu hvort ég ætli að láta bólusetja mig þegar röðin kemur að mér. Einkum hafa þeir spurt sem hafa efasemdir um hraða þróun bóluefnanna, eru hræddir við mögulegar aukaverkanir og óttast samfélagslegan þrýsting eða jafnvel lagaskyldu um bólusetningar við þessar aðstæður.

Svar mitt er já.

Markmið bólusetningar er að vernda fólk fyrir COVID-19 og að ná upp hjarðónæmi sem hindrar útbreiðslu faraldursins hér á landi og um alla heimsbyggðina. Það er ekkert smá verkefni. Þórólfur sóttvarnalæknir hefur sagt að til þess að ná hjarðónæmi þurfi að bólusetja um 60% þjóðarinnar. Það eru mörg hundruð þúsund skammtar, sé tekið tillit til þess að stærstur hluti þeirra sem fæddir eru fyrir 2005 verði bólusettir. Ég tel því samfélagslega mikilvægt að taka þátt, bæði til að verja mig og aðra og stuðla að hinu langþráða hjarðónæmi sem leggur faraldurinn að endingu að velli. Því fleiri sem hugsa eins, þeim mun fyrr náum við því markmiði og getum aftur horft fram á eðlilegt líf. Með félagslegum athöfnum, óskertu athafnafrelsi og upprisu heilu atvinnugreinanna. Það er því til mikils að vinna.

Heilbrigðisráðherra sagðist í dag vonast til þess að umfangsmestu bólusetningu í sögu þjóðarinnar verði lokið að mestu fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2021. Það er í marslok. Það er þá líklega viðeigandi að um það leyti komi út seinna bindi bókaflokksins Vörn gegn veiru eftir mig, þar sem seinni hluti veirufaraldursins hér á landi er skrásettur; farið yfir atburði á borð við hópsmitið á Landakoti, vaxandi deilur um sóttvarnaráðstafanir og pólitíska spennu samfara kólnun atvinnulífsins. Sú bók er langt komin, en skrifar sig eiginlega sjálf þessa dagana og þetta væri því kjörinn tími fyrir útgáfuna. Ég leyfi mér að vona að viðtökurnar verði jafn góðar og með fyrri bókina sem kom út í haust.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru.