Á því rúmlega hálfa ári sem liðið er frá því Viljinn var settur á laggirnar, hef ég tekið eftir því hve margir eru þakklátir fyrir ritstjórnarstefnu sem byggir á borgaralegum (og kannski eilítið íhaldssömum) gildum. Það er greinilegt að þeim hefur að margra mati ekki verið nægilega vel sinnt í umræðu hér á landi undanfarin ár, enda þótt stór hluti landsmanna aðhyllist þau í daglegu lífi.
Ég er auðvitað þakklátur fyrir þessar góðu viðtökur og segja má að Viljinn hafi markað sér ákveðna sérstöðu í þessum efnum, hafi eignast sína syllu (e. niche). Enda engin ástæða til að stofna enn einn fjölmiðilinn með sömu áherslurnar og allir hinir.
Þetta datt mér í hug eftir samtal við góðan og gegnan sjálfstæðismann í dag, sem var að barma sér yfir stjórnmálaástandinu í landinu og nýrri skoðanakönnun MMR sem sýnir fimmtungsfylgi Sjálfstæðisflokksins — afleita stöðu í sögulegu ljósi.
Því 20,2% fylgi fyrir Sjálfstæðisflokkinn er auðvitað ekkert annað en afhroð. Spyrjið hvaða stjórnmálaprófessor sem er.
Mér varð á að spyrja þennan góða vin minn hvort hann teldi mikið gert þessa dagana fyrir fólk sem aðhyllist borgaraleg gildi? Þjóðfélagshópinn sem stundum er kallaður þögli meirihlutinn (e. moral majority).
Í framhaldinu spurði ég hann hvort það gæti ef til vill verið einhver vísbending, að í hverju stjórnarmálinu á fætur öðru væru það þingmenn Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar sem gengju fram fyrir skjöldu og töluðu fyrir málunum, meðan minna færi fyrir einstökum þingmönnum stjórnarliðsins.
Hvernig skyldi standa á því?
Gæti verið að ýmis stór mál ríkisstjórnarinnar þessa dagana höfði bara ekkert til borgaralega þenkjandi fólks og stríði jafnvel gegn lífsskoðunum þess?
Snúist fremur um eltingarleik við pólitíska rétthugsun en grundvallaratriði?
Og að minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins endurspeglist í óánægju með einmitt þetta?
Væri kannski ráð að fá gamla góða Sjálfstæðisflokkinn aftur og sjálfstæðisstefnuna sem hann boðaði?
Ég skil þessa hugsun bara eftir hér.
Ps. Flest hér að ofan á einnig við um Framsóknarflokkinn. En það er efni í aðra grein.