Við sem dveljum oft í nágrenni við Akranes getum ekki annað en tekið eftir þeirri gríðarmiklu aukningu sem orðið hefur á komu ferðafólks í bæinn. Aukningin hefur verið gífurleg í sumar og fjölskyldufólk af höfuðborgarsvæðinu streymir á Skipaskagann fagra, sem af heimafólki er stundum kallaður Flórídaskaginn í góðu veðri.
Og veðrið í sumar hefur einmitt verið með allra besta móti.
Hingað til hefur Akraness ekki síst verið getið hin síðari ár fyrir rómaða knattspyrnumenningu sína, en eftir að Hvalfjarðargöngin komu til sögunnar og ferðir Akraborgar milli Reykjavíkur og Akraness lögðust af, hafa margir landsmenn ekki átt leið þangað. Hringvegurinn liggur beint úr göngum og í gegnum Borgarnes og fyrir vikið eru komnar upp heilu kynslóðirnar sem aldrei hafa komið til bæjarins, eða litið aðeins við eina helgi til að taka þátt í Norðurálsmótinu.
En hvað er það sem hefur breyst? Af hverju streyma borgarbúar nú upp á Skipaskaga? Af hverju er bíltúr upp á Akranes búinn að taka við því sem mín kynslóð þekkti sem ísbíltúr austur fyrir fjall með ísstoppi í Eden í Hveragerði?
Jú, Akurnesingar tóku sjálfir til sinna ráða og hafa byggt upp sund- og sjóbaðsaðstöðu við Langasand, sem algjörlega hefur slegið í gegn hjá börnum og fullorðnum. Ég hef heyrt dæmi um fólk, sem aldrei hafði komið til bæjarins þar til í sumar, en hefur komið í útilaugina Guðlaugu nokkrum sinnum, notið lífsins á Langasandi og baðað sig í sól og sjó, eins og á erlendri baðstund væri. Eða jafnvel kíkt fyrst upp á Akrafjallið góða og notið útsýnis sem er einstakt til allra átta.
Notendur fésbókarinnar og Instagram koma ekki þarna við, án þess að taka af því myndir og deila undir myllumerkinu #gudlaug og #langisandur.
Styrktarfé sem nýttist vel
Guðlaug samanstendur af útsýnispalli, heitri laug og grynnri laug sem nýtur vatna úr yfirfalli efri laugarinnar. Útsýni úr lauginni er stórfenglegt, yfir Faxaflóann og til Reykjavíkur. Hæð mannvirkisins er um 6 m yfir meðal stórstreymis flóði og þess vegna kemur fyrir að sjór flæði inn í vaðlaugina.
Á vef Akranesbæjar má lesa, að forsaga Guðlaugar á sér rætur að rekja til ársins 2014 þegar Minningarsjóður Jóns Gunnlaugssonar útvegsbónda og Guðlaugar Gunnlaugsdóttur húsmóður frá bræðraparti á Akranesi var formlega slitið en sjóðurinn var stofnaður árið 1969. Stjórn minningarsjóðsins ákvað þar að ráðstafa samtals 14 m.kr. til uppbyggingar á heitri laug við Langasand ásamt öðrum styrkjum til samfélagsins á Akranesi . Tilgangur með stofnun sjóðsins var að efla mannlíf og samfélag á Akranesi og veita ungum fátækum námsmönnum á Akranesi styrki til náms sem tengdist sjávarútvegi.
Með breyttum aðstæðum og atvinnuháttum á Akranesi sóttu færri um styrk úr sjóðnum en stofnendur hugðu upphaflega. Það var því einróma samþykkt í stjórn sjóðsins að leggja sjóðinn niður og ráðstafa stærstum hluta hans til málefna tengdum slysavörnum og samfélagsmálum á Akranesi. Í kjölfar styrkveitingarinnar var settur á laggirnar starfshópur sem átti að útfæra verkefnið um uppbyggingu á heitri laug á Langasandi.
Þetta er alveg frábær forsaga að framkvæmd sem opnuð var um áramótin og hefur slegið algjörlega í gegn og komið Akranesi aftur á kortið. Ég spái því að Akurnesingar muni halda áfram að byggja upp baðaðstöðu á heimsmælikvarða við Langasand og bíltúr upp á Skaga sé kominn til að vera sem fastur punktur hjá fjölskyldufólki og útivistaráhugamönnum. Innlendum sem og erlendum.
Ég hvet alla til að kíkja upp á Skaga, fara í Guðlaugu og jafnvel í hina dásamlegu sundlaug að Jaðarsbökkum sömuleiðis. Það kostar ekkert að fara í Hvalfjarðargöngin nú þegar þau eru búin að borga sig upp og munar um minna.
Langisandur er ekki aðeins gyllt og falleg strönd, heldur er þar og búið að koma upp fjölda líkamsræktartækja úti við, leikaðstöðu fyrir börn og frábærri aðstöðu fyrir alla fjölskylduna.
Ég ólst upp í Hveragerði fram að grunnskólaaldri og man eftir öllum borgarbúunum sem komu í Eden til að kíkja á apana og kaupa ís, blóm og grænmeti. Sama stemning er nú að skapast á Skaganum. Í því eru meiri tækifæri fólgin fyrir bæjarfélagið og nærsveitir, en unnt er að greina frá í stuttum pistli.
Hér sannast hið fornkveðna, að viljinn er allt sem þarf.