Af hverju er Baldvin Þorsteinsson svona reiður?

Fjölmiðlar flytja nú fregnir af því að soðið hafi upp úr eftir opinn fund í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun þar sem yfirstjórn Seðlabankans sat fyrir svörum um framkvæmd laga um gjaldeyriseftirlit bankans og svonefnd Samherjamál.

Að fundi loknum labba þingmenn og fundargestir út og sést á myndskeiðum (sjá hér) hvar Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hyggst heilsa upp á Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, en sonur þess síðarnefnda gengur þá á milli.

„Hafðu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu,“ sagði Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips og sonur Þorsteins Más við seðlabankastjóra.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, gekk þá á milli og bað Baldvin að hafa sig hægan, enda væru þetta salir Alþingis og svona mætti ekki haga sér.

Búinn að moka sig ofan í mjög djúpa holu

Vitaskuld átti Baldvin ekki að haga orðum sínum með þessum hætti (og hann veit það sjálfsagt vel sjálfur) en eftir að hafa fylgst með þessu máli frá upphafi, kynnt mér það afar vel og tekið ótal viðtöl við alla málsaðila — auk þess sem ég fylgdist með fundinum í morgun og um daginn þegar Umboðsmaður Alþingis kom fyrir nefndina) verð ég líka að viðurkenna, að ég undrast ekki þær miklu tilfinningar sem eru ólgandi undir niðri hjá helstu persónum og leikendum.

Nú þekki ég seðlabankastjóra ágætlega (og hann var reglulegur gestur í sjónvarpsþáttum mínum, svo mjög raunar að bankaráð Seðlabankans reyndi að fá hann til að hætta að koma og tjá sig jafn opinskátt og raun bar vitni), en í þessu Samherjamáli verð ég að viðurkenna að mér finnst hann vera búinn að moka sig ofan í mjög djúpa holu. Og í stað þess að reyna að komast upp úr henni, mokar sig hann bara og mokar frekar niður.

Þetta held ég líka að ég sé upplifun margra fleiri, utan kannski nánustu samstarfsmanna hans í Seðlabankanum.

Til marks um þetta er þingnefndarfundurinn í morgun. Þar er engu svarað með beinum hætti, jafnvel þótt fyrir liggi (og hann hafi sjálfur staðfest í bréfi til forsætisráðherra og viðtali við Morgunblaðið) að ekki hafi verið rökstuddur grunur um refsivert afhæfi þegar óskað var eftir húsleitarheimild — þvert á lagabókstafinn um þau mál — hann segist ítrekað ekki geta tjáð sig um einstök mál (þótt hann hafi gert það ótal sinnum í fjölmiðlaviðtölum) og gefi í reynd enn í skyn að allt varðandi stjórnsýslu bankans hafi verið í samræmi við lög, en klúður hafi orðið við lagasetningu, ríkissaksóknari hafi ekki verið nógu skýr og þar fram eftir götunum.

Allar heimsins útskýringar og afsakanir, en engin ábyrgð tekin á neinu — þótt miður fallegar staðreyndir málsins blasi við.

Aldrei gerð nokkur tilraun til að viðurkenna að mjög alvarleg mistök hafi verið gerð og bæta fyrir þau — biðjast afsökunar.

Og þá kemur að þætti Baldvins. Pabbi hans hefur um árabil verið hafður undir rangri sök fyrir alvarleg brot, haft réttarstöðu sakbornings og borinn þungum sökum. Seðlabankastjórinn hefur margoft sagt beint eða óbeint að pabbi hans hafi sloppið á tækniatriðum (sé í reynd sekur samt) og svo virðist sem seðlabankinn hafi keyrt mál áfram gegn honum um árabil gegn betri vitund.

Ekki var hægt að skilja Umboðsmann Alþingis öðruvísi.

Ætli það geti ekki flest börn — þótt fullorðin séu — sett sig í þau spor að við þessar aðstæður sé hægt að verða heitt í hamsi.

Staðreyndin er sú (og það virðast forsætisráðherra, bankaráð Seðlabankans, Umboðsmaður Alþingis og nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sammála) að það verður að rannsaka stjórnsýslu Seðlabankans í Samherjamálinu.

Þetta mál hreinlega verður að hafa einhverjar afleiðingar. Það er ekkert hægt að sætta sig við að Seðlabanki Íslands hafi margbrotið lög og góða stjórnsýsluhætti og reynt með allskyns klækjum að fela slóð sína jafnharðan og varpa ábyrgðinni á alla aðra.

Það er bara ekkert hægt að kjafta sig út úr því. 

Afsökunarbeiðni Baldvins Þorsteinssonar

Á vef Samherja birtist síðdegis svofelld yfirlýsing Baldvins Þorsteinssonar:

„Í morgun komst ég óheppilega að orði við seðlabankastjóra í hita leiksins í húsakynnum Alþingis. Orðaval mitt var ekki sæmandi og hefði ég gjarnan kosið að hafa valið kurteislegri orð.

Í rétt sjö ár hefur Samherji setið undir ásökunum seðlabankans. Engin stoð hefur verið fyrir ásökunum bankans allan þennan tíma. Þetta hefur óneitanlega tekið á okkur öll sem þykir vænt um fyrirtækið, fjölskyldur okkar og starfsmenn.

Þegar við héldum að loks væri runnin upp sú stund að afsökunarbeiðni kæmi frá seðlabankanum var enn haldið áfram að réttlæta aðfarirnar. Við þær aðstæður fannst mér óviðeigandi að seðlabankastjóri nálgaðist föður minn kumpánlega og bað ég bankastjórann um að láta það ógert.

Orðalagið við það tilefni gekk of langt. Mér þykir það leitt og vona að Alþingi og þið liðsfélagar mínir virðið mér þetta til vorkunnar.“