Það er víðar en á Íslandi sem erfiðleikar í flugrekstri setja svip sinn á þjóðmálaumræðuna. Ein stærsta viðskiptafréttin í Evrópu undanfarna daga er risafjárfesting hollenska ríkisins í Air France-KLM sem hefur leitt til minniháttar milliríkjadeilu milli Hollands og Frakklands.
Franska ríkið á 14.3% hlut í hinu sameinaða risaflugfélagi og undanfarið finnst mörgum hollenskum stjórnendum þess sem margvísleg starfsemi sé að færast til Frakklands frá Hollandi með tilheyrandi efnahagsafleiðingum fyrir niðurlendinga.
Og hvað gerðu bændur þá? Jú, ríkisstjórnin í Hollandi — sem hefur staðið fyrir umfangsmikilli einkavæðingu og talað fyrir minnkandi ríkisumsvifum — tilkynnti óvænt á dögunum að ríkissjóður Hollands hefði þá um daginn keypt 12,7% í félaginu. Daginn eftir keyptu Hollendingar 1,3% í viðbót og eiga nú 14% eignarhlut. Markmiðið, sagði fjármálaráðherrann Wopke Hoekstra, er að eignast 14,3% hlut og jafna þar með Frakkana við stjórnarborðið — þar sem ákvarðanirnar eru teknar.
Kaupverðið er ekki lítið — milljarður evra — en Hollendingar telja þeim vel varið.
Þetta varðar þjóðarhag, sagði hollenski fjármálaráðherrann. Þetta er kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Stundum felst almannahagur í því að ríkið skerist inn í og gæta þarf að hollenskri ferðaþjónustu og hollenskum hagsmunum.
Norwegian bjargað
Frá Noregi berast þær fregnir að lággjaldaflugfélagið Norwegian hafi fengið tvöfalt betri þátttöku í hlutafjárútboði félagsins en nam þeim bréfum sem í boði voru. Safnaði félagið þannig ríflega 42 milljörðum króna, en ríkasti maður landsins, John Fredriksen, hafði ábyrgst útgáfuna og fjölmargir af sterkustu einkafjárfestum landsins tilkynnt þátttöku.
Þeir voru allir sammála um kerfislegt mikilvægi félagsins og að það varðandi þjóðarhag og framtíð ferðaþjónustunnar að koma Norwegian gegnum skaflinn.
Það þótti einfaldlega of mikilvægt til að falla.
Gjaldþrot WOW hefði rosaleg áhrif
Hljómar þetta sem hér að framan er rakið, ef til vill kunnuglega fyrir okkur hér á landi sem lesum nánast daglega um rekstrarerfiðleika flugfélaganna Icelandair og WOW air og einkum síðarnefnda félagsins sem glímir við mikinn lausafjárskort.
Undanfarna mánuði hefur starfshópur, skipaður fulltrúum forsætis- og fjármálaráðuneytis og Seðlabankans, skoðað hættuna sem stafar af mögulegu falli kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Starfshópurinn vann meðal annars sviðsmyndagreiningu vegna mögulegra áfalla í rekstri WOW air.
Niðurstöðurnar voru þær að gjaldþrot félagsins gæti leitt til að landsframleiðsla drægist saman um tæp þrjú prósent og gengi krónunnar gæti veikst um allt að 13 prósent. Útflutningur þjóðarinnar gæti dregist saman um heil tíu prósent, verðbólga hækkað um þrjú prósent – yrði sex prósent – og að einhver þúsund manna og kvenna bættust á atvinnuleysisskrá.
Þetta eru rosalegar tölur. Ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir þeim verðmætum og auknum umsvifum sem Skúli Mogensen hefur byggt upp hér á landi fyrir ferðaþjónustuna og efnahag landsins. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, segir máltækið. Ég hygg að margir verði þess áþreifanlega varir, ef þetta endar illa.
Og forráðamenn Icelandair ættu að spara yfirlýsingar um áhyggjur af ívilnun til samkeppnisaðila. Ég er fv. aðstoðarmaður forsætisráðherra og þekki vel hvernig ríkið hefur komið því ágæta félagi til bjargar (oft) gegnum tíðina, þótt ekki hafi alltaf farið hátt. Ég tel að það hafi verið réttmæt í öll skiptin.
Vík milli vina
Nú hafa fregnir borist af því að viðræður Indigo Partners og Skúla um fjárfestingu í WOW air gangi ekki jafn vel og vonir stóðu til. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn (sem frægur er fyrir að vera harður í horn að taka og halda öllum kostnaði í lágmarki) veit sem er að WOW air þarf nauðsynlega nýtt fjármagn og að tíminn vinnur hvorki með Skúla né félaginu.
Á lokadögum febrúarmánaðar, þegar til stóð að klára dæmið, var allt í einu komið annað hljóð í strokkinn. Indigo vildi sjá afskriftir lána, setja aukinn þrýsting á þá sem höfðu sýnt flugfélaginu stuðning í september sl. og færa kröfur þeirra niður og þynna Skúla sjálfan nánast niður í ekki neitt.
Auðvitað mátti kannski sjá þetta fyrir, en þetta var samt högg. Áhyggjur af framtíð WOW air blossuðu upp að nýju, félagið safnar víða skuldum þessa dagana og staðan er erfið. Í dag var svo tilkynnt um margvísleg ný skilyrði Indigo fyrir fjárfestingunni og jafnframt undirstrikað, að enn sé ekkert fast í hendi.
Staðan er semsé tvísýn og erfið. Og gríðarlegir þjóðarhagsmunir undir.
Og ekki bara það. Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur, jafnvel þótt samningar næðust. Indigo er frægir fyrir að ráða verktaka fremur en starfsfólk í verkalýðsfélögum. Þeir skera burt allan kostnað. Ætli þeir myndu lengi veðja á Ísland sem aðalbækistöð?
Hafa mikla og beina hagsmuni
Friðrik Jónsson, hagfræðingur, hefur starfað lengi í utanríkisþjónustunni og vakið athygli fyrir skarpa sýn á efnahagsmál. Hann fjallar um stöðuna sem upp er komin, í færslu á fésbókinni í dag og segir:
„Ég skal játa að ég er pínu hugsi yfir stöðunni hjá WoW, aðkomu Indigo Partners og hví íslenskir fjárfestar halda að sér höndum í þeim pælingum sem nú eru í gangi.
Í fyrsta lagi er það svo að íslenskir fjárfestar (væntanlega aðallega lífeyrissjóðir beint og óbeint) eru stórir skuldabréfaeigendur og eiga því beina hagsmuni – tala nú ekki um ef neyða á þá til afskrifta og vaxtalækkana.
Þessir fjárfestar eru væntanlega með aðrar tengdar fjárfestingar upp á hundruðir milljarða í ferðatengdum rekstri og eiga þannig beina og óbeina hagsmuni af því að vel takist til með endurfjármögnun og björgun á WoW.
Heildar fjármögnunar- og fjárfestingarþörfin í WoW til að koma því vel fyrir vind er líkast til á bilinu 15-20 milljarðar, þ.e. endurskipulagning núverandi skulda og nýtt rekstrarfé í formi nýrra lána og eiginfjárinnspýtingar.
Væri ekki nær fyrir þá innlendu aðila sem eiga lang mest undir að hér takist vel til að taka virkari og beinni þátt í björgunaraðgerðunum – og þá frekar með eiginfjárinnspýtingum en lánveitingum?
Í öðru lagi á hið opinbera gríðarlega mikið hér undir í formi atvinnustigs, skattheimtu, gjaldeyristekna, gengisstöðugleika, ímyndar landsins sem áfangastaðar o.s.frv. Ætti hið opinbera hugsanlega að leika hér stærra hlutverk?
Í þriðja lagi á keppinauturinn Icelandair mikið undir því að hér takist vel til því ruðningsáhrifin af því hvernig tekst til – ekki bara hvort tekst að bjarga WoW, heldur líka hvernig það er gert, mun hafa veruleg áhrif á rekstrarumhverfi Icelandair. Þannig getur uppsveifla hlutabréfa Icelandair reynst skammgóður vermir þegar rykið er fallið.
Ekki er ég á móti erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, nema síður sé. En í ljósi allra þeirra miklu innlendu hagsmuna sem hér eru í húfi þykir mér skjóta eilítið skökku við að Bandarískt fjárfestingafélag, sem þekkt er fyrir, skulum við segja, einstrengislega viðskiptahætti, virðist alls- og einrátt um örlög WoW.“
Plan A, B og jafnvel C
Undir þetta skal tekið. Ég þekki Skúla Mogensen og veit að hann er baráttujaxl sem gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Ég gef mér að hann sé að vinna eftir plani A, en hafi plan B og jafnvel C einnig á bak við eyrað. En hann veit — eins og við hin — að tíminn er ekki að vinna með honum, félagið þarf nýtt fjármagn og neikvæður fréttaflutningur um vonda lausafjárstöðu virkar eins og olía á eld. Lánadrottnar verða órólegir, staðgreiðslu er krafist og vítahringur verður til.
Undanfarnar vikur hefur fjármálastjóri félagsins víða fengið slaka og gott veður í samskiptum við lánadrottna, þar eð unnið sé að lausn mála og fjármagns beðið. En sú bið verður ekki endalaus og þótt velvild landsmanna gagnvart Skúla og WOW sé réttilega mikil, borgar hún á endanum enga reikninga.
Þess vegna skal hér skorað á ráðamenn þjóðarinnar og forystumenn lífeyrissjóðanna að skoða alvarlega kaup á hlutafé í félaginu til að koma því fyrir vind svo hægt sé að sækja fram. Það ætti ekki að vera mikið vandamál að sannfæra lánadrottna félagsins um að vera með, láta þá hlutafé gegn einhverjum afskriftum lána. Svo þegar tiltekinni stöðu væri náð, væri skynsamlegt fyrir Skúla og stóra hluthafa að bjóða almenningi að vera með og skapa félaginu þannig ákveðna stöðu meðal þjóðarinnar.
Ríkið gæti svo selt sinn hlut eftir einhver ár þegar betur stendur á, vonandi með ágætum hagnaði, en hefði í millitíðinni tryggt efnahagslegan stöðugleika, bjargað þúsundum starfa um allt land og forðað ferðaþjónustunni frá tímabundnu hruni.
Skúli hefur sjálfur viðurkennt að ákveðin mistök hafi verið gerð í rekstrinum. En hann hefur tapað manna mest á þeim mistökum og eflaust lært helling um leið. Nú er hann er aftur kominn með félagið í það horf sem gekk svo vel og náði að dafna. Við Íslendingar megum ekki við því að hverfa mörg ár aftur í tímann í fjölda ferðamanna og útflutningstekjum og því ætti að skoða þennan möguleika alvarlega.
Rétt eins og Hollendingar gerðu. Og norska kapítalið.
Ég þreytist ekki á að segja það, en geri það samt: Viljinn er allt sem þarf.