Af hverju hugsum við ekki stórt?

Hækkandi lífaldur þjóðarinnar er áberandi í umræðunni um ríkisfjármál og heilbrigðiskerfið fyrir komandi kosningar, enda þýðir það í einfölduðu máli að fólk nær að lifa lengur en áður og þarf þess vegna frekar á þjónustu á borð við hjúkrunarheimili, lyf, heilsugæslu og heimaþjónustu að halda.

Þetta er auðvitað frábær þróun, en hún kostar peninga og á Vesturlöndum hafa miklar umræður spunnist um þessi mál, enda hefur barneignum fækkað og sumar þjóðir búa hreinlega við þá staðreynd að landsmönnum fer fækkandi en ekki hitt og færri skattgreiðendur eiga þá að standa undir þessari þróun samfara auknum kröfum á flestum sviðum.

Ýmsar þjóðir, t.d. Kanadamenn, hafa ákveðið að líta fremur á þetta sem tækifæri en ógn. Stjórnvöld þar í landi hafa látið þau boð út ganga að sjálfstæðir atvinnurekendur og frumkvöðlar, sérhæft starfsfólk, menntamenn og -konur, listafólk og íþróttamenn séu velkomnir þangað til lands og fái hraðafgreiðslu á umsókn um ríkisborgararétti.

Hugsunin er sú að því fleiri sem leggi í hina sameiginlegu sjóði, því betra og innviðirnir þoli vel nokkra fólksfjölgun. Hún skili sér ekki aðeins í auknum skatttekjum, heldur aukist umsvifin í efnahagslífinu almennt; margskonar þjónusta þiggi fleiri viðskiptavini og aukinn mannauður geti komið samfélaginu vel í mörgu öðru tilliti.

Af hverjum hugsum við ekki á þessum nótum, Íslendingar? Hvers vegna er umræðan alltaf aðeins á þann veg að hækka hér skatta eða skera niður? Við erum aðeins innan við 400 þúsund í stóru landi og megum vel við fleiri skattgreiðendum og nýjum íbúum sem lagt geta samfélaginu lið.

Ísland er ekki slæmur kostur á tímum heimsfaraldurs; hér er öruggt og gott samfélag með traustum innviðum og margir geta unnið héðan á alþjóðavettvangi í fjarvinnu, svo dæmi sé tekið.

Það mættu einhverjir stjórnmálamenn ræða fyrir kjördag.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans (bjorningi@viljinn.is)