Ágætu Katrín og Bjarni: Staða flugfélaganna þrengist dag frá degi

Bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið segja frá því fréttir á forsíðu í dag, að Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi WOW air, hafi leitað hófanna fyrir ríkisábyrgð á skammtímafjármögnun félagsins hjá Arionbanka á undanförnum dögum.

(Samkeppni blaðanna um viðskiptafréttir er svo annar kapítuli; bæði standa sig vel í þeim efnum og ViðskiptaMogginn kemur í fyrsta sinn í dag út á miðvikudegi, beint til höfuðs Markaði Fréttablaðsins).

Mun aðeins á þessu stigi máls um þreifingar að ræða, en bæði er WOW air í tímaþröng vegna aðsteðjandi mánaðarmóta og stórra gjalddaga auk þess sem Isavia hefur augsýnilega hert skrúfurnar gagnvart Skúla Mogensen vegna vangoldinna lendingargjalda, svo mjög að nú mun ávallt ein þota félagsins þurfa að vera við landgang flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli sem handveð fyrir skuldinni. Flugvellir hafa sem kunnugt er, ríkan rétt til að tryggja kröfur sínar og geta kyrrsett vélar hvenær sem er í því skyni.

Staðan er því augljóslega þröng. En það vissum við svosem fyrir.

Hjá Icelandair er hún líka að þrengjast með degi hverjum. Ekki aðeins hefur undirliggjandi rekstur verið afar erfiður á grjóthörðum samkeppnismarkaði og ljóst að fyrsti ársfjórðungur nú verður enn verri en fyrsti ársfjórðungur 2018 (sem var afleitur) heldur er ljóst að alþjóðlegur skellur Boeing 737 MAX vélanna veldur algjöru uppnámi hjá félaginu til lengdar, því svo miklu hefur verið veðjað á hagræðingu vegna þeirra í rekstri félagsins og áhersla lögð á þjálfun starfsfólks og allan undirbúning.

Boeing 737 MAX er nú tímabundið að minnsta kosti eitthvert versta vörumerki sem til er (því hvorki flugmenn né flugfarþegar treysta vélunum) og enn bætast við vondar fréttir frá Bandaríkjunum sem benda til þess að flugvélaframleiðandinn og þarlend flugmálayfirvöld hafi horft framhjá vísbendingum lengi um að eitthvað væri mikið að hugbúnaði vélanna.

Boeing 737 MAX vélarnar áttu að leika lykilhlutverk í viðspyrnu Icelandair.

Það blasir því við að félögin eru bæði í mikilli krísu, þótt í bili séu sjóðir Icelandair digrari og bráðavandinn þar enn ekki fyrir hendi.

Fordæmið er til staðar

Í þessu ljósi — og vegna þess hve íslenskt efnahagslíf á mikið undir rekstri þessara félaga og öllum þeim ferðamönnum sem þau flytja hingað til lands — hljóta þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að skoða alvarlega hvort ríkið getur með einhverjum hætti hlaupið undir bagga, en um leið farið fram á að félögin leiði saman hesta sína og skoði sameiningu eða samvinnu, því Airbus-vélarnar hjá WOW air eru kannski einmitt það sem Icelandair þarf mest á að halda núna, eins og bent hefur verið á.

Við höfum fordæmið fyrir framan okkur. Og fordæmin raunar (skoðið bara hvað ríkið ábyrgðist að gera fyrir verksmiðjuna á Bakka við Húsavík aðeins fyrir fáeinum árum).

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans.

Með lögum nr. 87, frá 15. maí 2002 (í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins), samþykkti Alþingi að fjármálaráðherra væri heimilt, í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi, að veita einfalda ábyrgð á skuldabréfum útgefnum af móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar ehf., deCODE Genetics Inc., að fjárhæð allt að 200 milljónir bandaríkjadala, til fjármögnunar nýrri starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. á sviði lyfjaþróunar. Samkvæmt lögunum skyldi ráðherra veita ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann mæti gild.

Sú heimild til ríkisábyrgðar sem lögin kváðu á um tengdist áformum umrædds fyrirtækis er nánar var lýst í frumvarpi til heimildarlaganna um uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi. Kom fram í frumvarpinu að talið væri að fjárfestingin gæti numið um 35 milljörðum króna og gert ráð fyrir að 250–300 ný störf gætu skapast hér á landi á nokkrum árum ef fyrirætlanir fyrirtækisins gengju eftir.

Á endanum kom ekki til þess nokkru sinni að ganga á þessa ríkisábyrgð — líklega var yfirlýsingin það sem þurfti — en ef tölurnar og hagsmunirnir sem þá lágu til grundvallar, eru færðir yfir á nútímann og það sem snýr að WOW air, blasir við að hagsmunirnir eru að minnsta kosti sambærilegir og líklega miklu, miklu meiri.

Ef þetta er allavega ekki tilefni til að skoða málið vandlega, þá veit ég eiginlega ekki hvað.