Áskorun til lögreglustjórans á Vestfjörðum

Ágæti lögreglustjóri,

Þú hefur eflaust –– eins og landsmenn allir ––fylgst í forundran með atburðarás undanfarinna daga vegna COVID-19 sýkingar sem kom upp um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni sem gerður er út frá Ísafirði. Upplýst er að veikindi komu upp um borð þremur vikum áður en komið var í land og allar verklagsreglur um smitsjúkdóma í fiskiskipum verið þverbrotnar. Landhelgisgæslan og almannavarnir ekki látnar vita um ástandið um borð, ekki haldið til hafnar í sýnatöku vegna farsóttarinnar sem geisar í heiminum, heldur ákveðið að láta eins og ekkert sé, þótt sífellt fleiri skipverjar veiktust og fleiri væru útsettir fyrir smiti. Ekki gætt að einangrun veikra, heldur voru þeir látnir vinna veikir innan um ósýkta með þeim afleiðingum að loks þegar skipið kom í höfn vegna brælu og til að taka olíu, varð ljóst að um stórt hópsmit var að ræða.

Júlíus Geirmundsson á leið til heimahafnar á Ísafirði. / Facebook.

Af fréttum að dæma er embætti þitt nú með málið til skoðunar. Augljóst virðist að hefja beri opinbera rannsókn nú þegar. Umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum hefur staðfest að hafa margítrekað nauðsyn þess að skipverjar kæmu í land í sýnatöku, en við því hafi ekki verið orðið. Í lögum er skýrt kveðið á um ábyrgð skipstjóra og útgerðar á lífi og heilsu sjómanna um borð og augljóst öllum sem málið skoða, að þau lög voru þverbrotin í máli þessu.

Útgerðin harmar nú sinn hlut og segir þungbært að sitja undir ásökunum um að hafa stefnt lífi og heilsu skipverja í hættu. Samt blasir við að það var einmitt gert. Og þótt afsökunarbeiðni sé nú loks komin fram er hún lítt sannfærandi og hreint átakanlegt að sjá framkvæmdastjóra útgerðarfyrirtækisins skýra málið á þann veg, að menn hafi einfaldlega ekki vitað neitt um þessa veiru og því ekki vitað hvernig ætti að bregðast við.

Afsakaðu, en frá því í febrúar hefur eiginlega ekkert annað verið í fréttum hér á landi og erlendis en einmitt þessi veira. Hún hefur náð á undraskömmum tíma að setja allt hreinlega á hliðina. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa undirgengist verklagsreglur með almannavörnum fyrir viðbrögð við mögulegu hópsmiti um borð í fiskiskipum og á dögunum fengu bæði útgerð og skipverjar á Valdimar GK hrós fyrir að hafa fylgt þessum reglum í einu og öllu. Sem gamall Vestfirðingur veit ég að þú veist, að það er tóm della að útgerðarmenn Júlíusar Geirmundssonar hafi einir Íslendinga ekki frétt af kórónaveirunni.

Þótt blási á móti í varnarbaráttunni gegn veirunni, hefur margt verið gert prýðilega hér á landi í viðbrögðum almennings, fyrirtækja og opinberra aðila. Ég hef fylgst vel með viðbúnaðinum frá fyrstu stundu, sótt vel á annað hundrað upplýsingafundi og skrifað heila bók um málefnið. Ég þori að fullyrða, að framkoma útgerðar togarans og skipstjórans, sé alvarlegasta frávikið sem komið hefur upp hér á landi og nokkuð sem fordæma ber af fullum þunga og án nokkurra undanbragða.

Að þetta hafi gerst árið 2020 í upplýstu og siðuðu samfélagi er þyngra en tárum taki. Enn verra væri, að lögregla tæki þátt í að þagga það niður með undanbrögðum. Það má ekki gerast. Það verður allur sannleikurinn í þessari sögu að koma fram.

Ég treysti því að laganna verðir standi undir sinni ábyrgð í þessum efnum og er viss um að landsmenn allir taki undir það.

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans.