„Ég hef sagt það nokkrum sinnum opinberlega að ég telji ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur eins og þennan. Þess vegna er það ekki hluti af okkar áætlunum að gera neitt slíkt. En hins vegar þurfa stjórnvöld auðvitað að vera viðbúin, ef einhver meiri háttar röskun verður, að huga að orðsporsáhættu sem því gæti fylgt og eins stöðu farþega og hvernig greiða skuli úr ef á þarf að halda,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á þingi í dag þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, spurði hann hvort ríkisstjórnin væri að vinna eftir einhverju plani í vandræðum flugfélaganna, einkum auðvitað WOW air.
Þetta hljómar eins og heiðarlegt prinsipp stjórnmálamanns sem vill ekki blanda saman skattpeningum almennings og einkaframtakinu, nema þetta er því miður bara tóm vitleysa þegar nánar er að gáð. Staðreyndirnar eru nefnilega allt aðrar og við Íslendingar höfum varla gert annað undanfarin ár en dæla allskonar skattpeningum í atvinnuskapandi verkefni á vegum einkaaðila.
Ríkisstyrkt kísilmartröð í boði skattgreiðenda
Eigum við að ræða martröðina sem er kísilverksmiðjan í Helguvík? Þar hafa Arion banki og lífeyrissjóðirnir tapað mörgum milljörðum í verksmiðju sem er stopp og enginn veit hvort verður gangsett að nýju.
Verksmiðja United Silicon er aðeins fyrsta púslið í kísilvæðingu landsins, sem keyrð hefur verið áfram af stjórnvöldum af miklum krafti. Verksmiðja PCC á Bakka við Húsavík og svo átti að koma önnur verksmiðja í Helguvík á vegum Thorsil og Silicor Materials á Grundartanga.
Í öllum tilfellum var gerður svonefndur fjárfestingasamningur við íslenska ríkið, sem felur í sér margvíslegar ívilnanir, til dæmis í formi afslátta af sköttum og opinberum gjöldum. Þessar ívilnanir gilda í allt að 10 ár frá því að gjaldskylda myndast hjá fyrirtækjunum. Sem hlutfall af fjárfestingu þá nemur ríkisaðstoðin frá 3% upp í 10%.
Samtals eru skattgreiðendur að gefa fyrirtækjunum fjórum um 10-15 milljarða króna og litlar skatttekjur að hafa af þessari starfsemi á næstu árum.
Gefins jarðgöng sem almenningur fær bara að borga, ekki nota
„Það fyrirtæki sem fær mestu aðstoðina, 10% af fjárfestingu, er PCC á Bakka. PCC er sem sagt að fá um þriggja milljarða afslátt af opinberum gjöldum. Eigendur PCC hafa komið ár sinni vel fyrir borð því ekki einungis tókst þeim að gera gríðarlega hagstæðan fjárfestingasamning við hið opinbera heldur standa skattgreiðendur einnig straum af kostnaði við gerð jarðganga frá Húsavíkurhöfn, í gegnum Húsavíkurhöfða, að verksmiðjuhúsinu,“ sagði í umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið.
Jarðgöngin kostuðu á endanum milli 3-4 milljarða, íslenskir skattgreiðendur mega ekki nota þau — þau eru aðeins gerð fyrir verksmiðjustarfsemina, en alfarið á kostnað okkar allra.
Ríkissjóður Íslands og sveitarfélagið Norðurþing veittu PCC að öðru leyti aðstoð í formi beins fjárstyrks til lóðarframkvæmda, afslátta á tekjuskatti, fasteignaskatti og hafnargjöldum og niðurfellingu ýmissa skatta og gjalda til allt að 10 ára.
Af því að kísilverksmiðjur eru ekki áhætturekstur? Ég held að það hafi alveg gleymst að láta hann Höskuld í Arion-banka vita af því.
Allt þetta fyrir fyrir aðeins fáeinum árum fyrir verksmiðju sem veitir ríflega hundrað manns atvinnu. Þar af er stór hluti aðflutt, erlent vinnuafl.
En þegar kemur að flugfélagi sem er með vel á annað þúsund manns í vinnu, skiptir tugþúsundir starfa beint máli og ber ábyrgð á stórum hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar, þá er bara ekkert hægt að skoða. Skattpeningar fara ekki í áhætturekstur.
Af því að kísilverksmiðjur eru ekki áhætturekstur?
Ég held að það hafi alveg gleymst að láta hann Höskuld í Arion-banka vita af því.
Landsframleiðsla gæti dregist saman um 2,7%
Fram kom í fjölmiðlum í síðustu viku að forsvarsmenn WOW air viðruðu hugmyndir um að stjórnvöld veiti flugfélaginu ríkisábyrgð á lánafyrirgreiðslu frá Arion banka til þess að tryggja rekstur félagsins til skemmri tíma.
Fréttablaðið sagði frá því að hvarf WOW air af flugmarkaði gæti leitt til þess að landsframleiðsla drægist saman um á bilinu 0,9 til 2,7 prósent á einu ári, samkvæmt rannsókn sem ráðgjafarfyrirtækið Reykjavík Economics hefur unnið að beiðni flugfélagsins um efnahagsleg áhrif félagsins á íslenskan þjóðarbúskap.
Til samanburðar var uppsafnaður samdráttur í landsframleiðslu um 10 prósent í kjölfar falls fjármálakerfisins á árunum 2009 og 2010.
Rannsókn greinenda Reykjavík Economics leiðir jafnframt í ljós að brotthvarf WOW air af markaði myndi þýða að gengi krónunnar veiktist, sem kæmi fram í hækkun innflutningsverðs og aukinni verðbólgu, þúsundir manna misstu vinnuna og afkoma hótela og veitingahúsa og annarra fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum rýrnaði.
Það væri kannski ráð fyrir Skúla Mogensen að endurskilgreina WOW air sem kísilverksmiðju og óska eftir nýjum fundi.