Bessastaðaveikin og kapallinn Katrínar

Fámenn þjóð nyrst í Atlantshafi gengur brátt til forsetakosninga og Bessastaðaveikin virðist smitast milli fólks, jafnvel í veldisvexti. Einhverjir skráðu sig óvart í forsetaframboð með því að ýta á rangan takka á island.is (sem er mögulega eitt hið íslenskasta í heimi) en það sem verra er: margir ætla viljandi í forsetaframboð að því er virðist án þess að eiga í það nokkuð erindi.

Margt af þessum frambjóðendum er bara hið ágætasta fólk. Það er bara ekki endilega best til þess fallið að verða forseti lýðveldisins. Sá eða sú sem sigrar í forsetakosningum, hefur náð að sannfæra stærstan hluta landsmanna um kosti sína umfram galla, hefur náð að koma grundvallarsjónarmiðum sínum og helstu áherslum á framfæri og er með menntun og reynslu sem gæti komið að gagni í embætti.

Til þess að þetta geti gerst, þarf viðkomandi að hafa áður öðlast þá stöðu að einhverjir utan nánustu fjölskyldu og vina hafi hugmynd um hver hann er. Í forsetakosningum þar sem fjöldi fólks er í framboði og umræðuþættir með öllum frambjóðendum verða hvorki upplýsandi lýðræðisveisla né heppilegur vettvangur til að koma meginskilaboðum á framfæri, heldur einhvers konar sirkus þar sem hver og einn fær aðeins örfáar mínútur til að bregðast við allskonar grundvallarspurningum og engin tækifæri til að kynna sig almennilega fyrir þjóðinni.

Þeir sem á þessu græða eru því þeir sem þjóðin þekkir fyrir. Og eftir því sem frambjóðendum fjölgar, sem virðist gerast dag frá degi um þessar mundir, verður betur ljóst, að enn er enginn frambjóðandi kominn fram sem öllum er ljóst að getur tekið afgerandi forystu; getur orðið til þess að einhverjir aðrir dragi sig í hlé og er líklegastur frá fyrsta degi til að taka við af Guðna Th. Jóhannessyni sem næsti forseti Íslands.

Bæði Baldur Þórhallsson og Halla Tómasdóttir ætluðu að vera slíkur frambjóðandi, en eru það ekki, jafn ágæt og bæði eru. Þess vegna gætu nöfn á borð við Steinunni Ólínu og Jón Gnarr enn komið fram.

Og nei: Guðni er ekki að fara að endurskoða þá ákvörðun sína, að hætta við að hætta. Það er ekki að fara að gerast, enda hefði hann þá bara einfaldlega sóst eftir endurkjöri og fengið 80-90% stuðning í kosningum.

Þess vegna bíða nú allir eftir forsætisráðherranum Katrínu Jakobsdóttur og ákvörðun hennar. Hún þarf nú að stíga fram, í allra síðasta lagi strax eftir páska, og kveða upp úr um það hvort hún hyggst gefa kost á sér. Allir vita að hún hefur til þess mikinn stuðning, að hún hefur verið að velta því alvarlega fyrir sér og er afar frambærileg manneskja í þetta embætti.

Hvað verður um ríkisstjórnina þá?, er hins vegar hausverkurinn sem Katrín Jakobsdóttir hefur verið að glíma við. Vandinn er að þá atburðarás er ekki hægt að hanna nema að afar takmörkuðu leyti. Líklegast er að allir flokkarnir þrír bjóði þá fram nýjan kandídat sem forsætisráðherra, jafnvel í starfsstjórn fram að kosningum í ágúst/september.

Sjálfstæðismenn myndu aftaka með öllu að Svandís Svavarsdóttir eða Guðmundur Ingi Guðbrandsson leysi Katrínu af hólmi. VG mun gera hið sama með Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Framsókn mun stinga upp á Sigurði Inga sem sáttalausn, en hinir flokkarnir gætu talið óskynsamlegt að styrkja þannig Framsókn rétt fyrir kosningar. Líklegast er þó að hann taki við fyrst um sinn, til þess að láta kapalinn hennar Katrínar ganga upp. Og Svandís þarf nýtt ráðuneyti til að koma í veg fyrir vantraust og þá hefst einhver hringekja sem getur endað á alla vegu.

Möguleikar Sjálfstæðisflokksins til þess að hætta sífellt að bregðast við aðstæðum og fara þess vegna til tilbreytingar að taka forystu á stjórnmálavellinum, eru þó til staðar. Valhöll gæti sagt: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður flokksins er okkar forsætisráðherrakandídat og við teflum henni fram. Hún er enda í reynd starfandi formaður flokksins og baktjaldamakk í ýmsum kreðsum Sjálfstæðisflokksins um forystu til framtíðar löngu hafið.

Allt þetta mun skýrast á næstu sjö dögum. Frídagarnir framundan, verða því þrungnir pólitískri spennu þar sem ríkisstjórnin er undir, enda límið sem hefur haldið henni saman að reima á sig skóna á leið til göngu út á Álftanes.

Þess vegna er ekki aðeins Bessastaðaveikin allt um kring þessa dagana, heldur og flokkarnir komnir í kosningabaráttu og einstakir ráðherrar, þingmenn og frambjóðendur, farnir að míga hver í sitt horn og merkja sér svæði.

Áhugafólki um pólitík til mikillar ánægju. Enda löngu kominn tími á breytingar. Nú verður gaman.

bjorningi@viljinn.is