Ég sakna mömmu og pabba

Fjögurra ára dóttir mín spjallaði við afa sinn gegnum bréfalúgu um daginn og sagðist elska hann og sakna hans. Hann kíkti við með skammt af vítamínum frá ömmu og fékk í staðinn poka með bókum og góðu lesefni til að hafa með sér heim í sveitina.

Ekkert knús, engin nánd, bara kærleikskveðja úr hæfilegri fjarlægð, eins og tíðkast hjá öllum þeim sem eru í sjálfskipaðri sóttkví þessa dagana og reyna að takmarka útbreiðslu Kórónaveirunnar eins og kostur er.

Hvernig útskýrir maður þessa fáránlegu stöðu fyrir litlu barni? Til þess hafa verið gerðar ýmsar tilraunir; yfir yfirgripsmiklum handþvotti, sótthreinsun á borðum, hurðarhúnum og handriðum í bland við sprittnotkun er rætt um hættur heimsins og mikilvægi þess að passa eldra fólkið og þá sem veikir eru fyrir.

Og svo er reynt að segja með sannfærandi hætti að bráðum komi betri tíð og þá megi aftur knúsa ömmu og afa og allt verði aftur gott.

Ég sakna mömmu og pabba. Ég skal bara vera heiðarlegur með það. Enda þótt tölvutæknin sé nýtt til hins ítrasta og maður ræði þannig við fólkið sitt á hverjum degi, er staðreyndin samt þessi. Ég hef átt nær dagleg samskipti við þau alla mína ævi, brasað allt mögulegt með þeim og knúsað oftar en tölu verður á komið. Þau eru ómissandi hluti af minni tilveru og nú hittir maður þau aldrei augliti til auglitis, fær ekki að vera með þeim yfir páskana og það er bæði leiðinlegt og sárt.

En líka nauðsynlegt, því maður vill passa dýrmætasta fólkið sitt og koma því öllu gegnum þennan ömurlega storm sem gengur yfir heimsbyggðina.

Ég er ekkert einn um þessa stöðu. Við höfum öll lært að tileinka okkur nýja siði á nýjum tímum, en flest söknum við okkar nánustu og skiljum nú betur hvað félagslegt samneyti við annað fólk er dýrmætt. Hvað það er mikilvægt að faðmast og kyssast, vera í fjölmenni, mega ferðast, fara til útlanda, strjúka um frjálst höfuð.

Maður fylltist bjartsýni eftir fundinn með Víði, Ölmu og Þórólfi í gær. Vonandi er sú bjartsýni reist á kletti. Við megum ekki við mikið fleiri ótíðindum. Samt er ég viss um að góður árangur varð líka til þess að einhverjir önduðu léttar og voru kærulausari en áður þar sem toppnum gæti verið náð.

Það má ekki. Þá getur bakslag komið allrækilega í bakið á okkur.

Vöndum okkur þess vegna, svo þessi leiðindatími gangi hraðar yfir með eins litlu samfélagstjóni og frekast er unnt.

Mig langar nefnilega að knúsa mömmu og pabba sem allra fyrst aftur.

Höfundur er ritstjóri Viljans. bjorningi@viljinn.is