Ég skil ekkert lengur

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Það er allt í háaloft í íslenskum stjórnmálum og Sjálfstæðisflokkurinn logar í illdeilum. Merk greining Elliða Vignissonar (sem margir telja líklegan forystumann í flokknum) hér á Viljanum vakti mikla athygli og ekki síður endurtekin gagnrýni Davíðs Oddssonar í Reykjavíkurbréfum Morgunblaðsins og svo yfirlýsingar Bolla í 17 — sem hefur yfirgefið flokkinn sinn.

Hinn almenni sjálfstæðismaður telur sig fá lítið fyrir sinn snúð í stjórnarsamstarfinu þessa dagana. Báknið þenst út, það má ekkert skera niður og hvergi hagræða. Það er eins og lögmál sé að skattar hækki en lækki ekki og sífellt þyngri byrðar eru lagðar á atvinnulífið.

Samþykkt er það sem kallað er framsæknasta löggjöf á Vesturlöndum um fóstureyðingar og sjálfur forsætisráðherrann kemur með þá makalausu yfirlýsingu að hún telji rétt kvenna til að ráða eigin líkama svo mikinn, að engin tímamörk ættu að vera á heimild til þungunarrofs. Með öðrum orðum: Konur geti látið eyða fóstrum sínum allt fram að fæðingu.

Á sama tíma leggur hún fram frumvarp (sem aftur er kynnt sem framsækið og tímamótaplagg) um kynrænt sjálfræði. Það var samþykkt mótatkvæðalaust í vikunni. Rökin eru þau að hver og einn eigi að ráða sinni kynupplifun og enginn geti vitað betur um hana en viðkomandi.

Gott og vel. Það er frjálslyndi í sinni tærustu mynd.

En hvað gerist svo? Jú, sami stjórnarmeirihluti heykist á að auka frjálsræði í verslun með áfengi og fellir breytingartillögur sem ganga út á að leggja niður Mannanafnanefnd og leyfa fólki einfaldlega að bera það nafn sem það kýs. (Eitt sinn lagði ég fram frumvarp á þingi um að Mannanafnanefnd verði lögð niður, sjá hér.)

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans.

Manneskja á semsé að hafa rétt til að ráða eigin kyni, eyða fóstri langt fram eftir meðgöngu en ekki hvað barnið á að heita. Og alls ekki versla rauðvín með matnum í matvöruversluninni.

Er nokkur furða þótt maður sé hættur að skilja upp né niður í hinni framsæknu frjálsræðisstefnu ríkisstjórnarinnar? 

Ekki undrar mig að sjálfstæðismenn viti ekki lengur í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Fyrir hvert skref til hægri í þessu stjórnarsamstarfi, virðast sjálfkrafa tekin þrjú skref til vinstri.

Þess vegna er almenn vanlíðan í Valhöll þessa dagana…