Sjálfstæðismenn eru margir með böggum hildar á stórafmælisári flokksins, enda skoðanakannanir óhagstæðar með endemum og vandséð að botni sé náð, enda þótt fylgið mælist í sögulegu lágmarki.
Forsíðufrétt Fréttablaðsins rammaði vanda flokksins vel inn, enda er hann í reynd tveir flokkar um þessar mundir; annar skipaður íhaldssömum kjósendum og fremur hægri sinnuðum en hinn hópurinn er frjálslyndari og gæti allt eins hafa farið með þeim sem flúðu í Viðreisn fyrir nokkrum árum.
Í raun réttri má segja að harðvítug hugmyndafræðileg átök geysi nú millum þessara tveggja fylkinga og rekast þær á í hverju málinu á fætur öðrum. Orkupakkinn er nærtækt dæmi og má heita að flokkurinn sé í henglum eftir þau ósköp, en dæmin eru miklu fleiri. Til dæmis lög um fóstureyðingar, sósísalisminn í heilbrigðiskerfinu sem hefur sagt einkaframtakinu stríð á hendur, endalaus útþensla ríkisbáknsins, stöðugt er gengið á borgaraleg gildi og loks samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu sem Fréttablaðið sagði frá með þeim hætti að hefðu rekið Eyþór Laxdal Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, út í horn og einangrað hann.
![](https://viljinn.is/wp-content/uploads/2019/10/oddvitinn.jpeg)
Þorsteinn Pálsson, fv. formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, segir réttilega í pistli í dag að samgöngusamkomulagið hafi verið viljayfirlýsing en ekki samningur og kjósendum hafi verið kynnt innistæðulaus ávísun.
En hann bætir þeirri lykilsetningu við, að með þessu samkomulagi viðurkenni Sjálfstæðisflokkurinn þá hugmyndafræði sem Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og VG hafa talað fyrir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Hún hafi verið studd af sjálfstæðismönnum sem eru í meirihluta í sveitarfélögunum umhverfis Reykjavík en sætt harðri andstöðu sjálfstæðismanna í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur og Morgunblaðsins.
„Með þessu samkomulagi er málefnagrundvellinum kippt undan minnihluta sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur sem helst hefur byggst á því að vera á móti borgarlínu. Það er merkileg pólitísk hlið á málinu,“ segir Þorsteinn og mælir þar lög eins og oft áður.
![](https://viljinn.is/wp-content/uploads/2019/09/67310917_10219840519864112_1361209418254909440_n-1-300x300.jpg)
Einangrun Eyþórs þegar kemur að samgöngumálum, borgarlínu og vegatollum er þó ekki meiri en svo, að hann endurspeglar grasrót Sjálfstæðisflokksins en forysta flokksins ekki. Það er nánast orðin regla í stjórnmálum hin síðari ár. Grasrót Sjálfstæðisflokksins liggur óbætt hjá garði meðan flokkurinn teygir sig sífellt lengra í átt að stefnumálum annarra flokka og sinnir eigin baklandi lítið sem ekkert.
Þess vegna er fylgið hrunið og þess vegna mun það halda áfram að hrynja.
Miðflokkur og Viðreisn gera sér grein fyrir þessu og bjóða upp á skýrari valkosti fyrir hinar stríðandi fylkingar sem verða sífellt lúnari á stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins og eilífri varnarbaráttu hans. Og nánast átakalegum skorti á sjálfstrausti um þessar mundir.
Spurningin er: Mun landsfundur sætta sig við þetta öllu lengur, eða ætlar einhver að skora núverandi forystu á hólm og gera tilraun til endurheimta stöðu Sjálfstæðisflokksins í íslenskri pólitík?
Varla eru menn endanlega búnir að gefast upp í Valhöll?