Er landið okkar stjórnlaust?

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Það er að verða fremur óþægilegt að fylgjast með því hvernig stemningin á stjórnarheimilinu súrnar dag frá degi. Þetta er ekki aðeins upplifun þingmanna í stjórnarandstöðunni; stuðningsmenn flokkanna sem standa að ríkisstjórninni segja hverjum sem heyra vill að stjórnin komi litlu í verk, öll orkan fari í endalausar málamiðlanir og einkaflipp einstakra ráðherra verði æ algengari.

Við þessar aðstæður er ekkert skrítið að almenningur og atvinnulífið velti fyrir sér hvort landið er stjórnlaust. Það er hið minnsta mikið áhyggjuefni fyrir leiðtoga stjórnarflokkanna að sú sé upplifun fólksins í landinu. Alls staðar blasir dýrtíðin við; það er beinlínis allt að hækka og fólk fær miklu minna fyrir peninga sína en áður. Vaxtastig er í hæstu hæðum, verðbólgan ógnarhá og neyðarástand á húsnæðismarkaði og í heilbrigðismálum.

Margir þingmenn í stjórnarliðinu eru farnir að spá haustkosningum, þar sem spilin verði gefin að nýju. Að óbreyttu er fylgi Vinstri grænna enda að þurrkast út og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eiga erfitt með lengur að réttlæta samstarf þar sem allt snýst um aukinn ríkisrekstur, hærri álögur og að bregða fæti fyrir hverskyns atvinnuuppbyggingu. Að ekki sé talað um stjórnleysið í útlendingamálum, þar sem hver höndin er upp á móti annarri. Formaður Framsóknarflokksins heldur vikulega blaðamannafundi með nýjum glærukynningum um uppbyggingu í samgöngum marga áratugi fram í tímann sem allir vita að munu ekki ganga fram, því á sama tíma boðar fjármálaráðherrann aðhald í ríkisfjármálum og að mannaflsfrekar framkvæmdir hins opinbera þurfi að bíða.

Það er eins og þetta fólk tali ekki lengur saman. Að það sé ekkert plan í gangi.

Hvað varð um „land tækifæranna“ sem Sjálfstæðisflokkurinn talaði um fyrir síðustu kosningar?

Þingið var sent heim í sumarfrí, þótt mörg brýn mál biðu afgreiðslu, því ágreiningur innan stjórnarliðsins var svo mikill. En það er ekki lengur hægt að horfa framhjá því að tilraunin með stjórn þvert yfir hinn pólitíska ás virðist á góðri leið með að lenda úti í skurði.

Hvað ætla Katrín, Bjarni Ben og Sigurður Ingi að gera í því?