Er Ólafur Ragnar okkar eigin Schröder?

Það var satt að segja svolítið dapurlegt að hlýða á málflutning Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands, í Silfrinu í gær, þar sem hann rakti ýmsar ástæður þess að Rússland hefði með svívirðilegum hætti ráðist inn í nágrannalandið Úkraínu og væri þessa dagana að murrka lífið úr fólki í borgum og bæjum. Ekki síst rússneskumælandi borga sem Rússarnir þóttust sérstaklega vera að verja gegn yfirgangi ný-nasista og óþjóðalýðs.

Skilaboð Ólafs Ragnars voru einhvern veginn á þá leið að ofbeldið í Úkraínu væri okkur sjálfum að kenna, það væri stækkun NATO sem hefði valdið innrásinni og oftar en einu sinni sagði hann að hluti af Rússlandi hefði verið tekið af þeim. Er þar kominn nokkurn veginn eini þungavigtarmaðurinn á vettvangi stjórnmálanna á Vesturlöndum sem tekur undir stórundarlegan málflutning Pútíns um Móður Rússland; keisaradæmið sem leyst hefði verið upp illu heilli fyrir ríflega hundrað árum og að fall Sovétríkjanna og sjálfstæð lönd við Eystrasalt og annars staðar væru einhvers konar mistök sem þyrfti að leiðrétta.

Reyndar er einn annar maður sem tekið hefur undir rugl af þessu tagi og reynt að réttlæta voðaverkin nú og kanna þolendunum um í stað þess að varpa sökinni á þann sem ábyrgur er; ofbeldismanninn sjálfan. Sá er Gerhard Schröder, fyrrverandi kanslari Þýskalands, sem nú er forsmáður í heimalandi sínu af því að hann neitar að skera á vinartengsl við Moskvu, vill ekki segja sig úr stjórnum stærstu gasfyrirtækja heims og segir að yfirgangur Rússa sé einhvern veginn okkur að kenna. Hugsar fremur um eigin forréttindarass en blóðið saklausra borgara sem flýtur um ekrur hinnar fögru Úkraínu.

Hvað fleira eiga þeir Ólafur Ragnar og Schröder sameiginlegt? Jú, þeir eru að gæta að eigin stöðu og mikilvægum hagsmunum. Það virðist algjörlega hafa farið framhjá Ólafi Ragnari að heimsmyndin breyttist varanlega fyrir mánuði með innrásinni, því á honum var að skilja að staðan nú myndi engu skipta fyrir samstarfið um norðurslóðir; Hringborð norðursins (Arctic circle) sem hann hefur einmitt haft forystu um.

Þvílík firra! Rússar fara með formennsku nú um stundir í Norðurskautsráðinu, tóku við formennskunni á fundi í Hörpu fyrir nokkrum mánuðum að viðstöddum meðal annars utanríkisráðherrunum Blinken og Lavrov, og auðvitað munu aðrar þjóðir ekki sækja neina viðburði á vegum þess ágæta ráðs eða Hringborðsins við þessar aðstæður. Fjármögnun þessara verkefna var á gráu svæði meðan upphafsmaður þeirra var forseti íslenska lýðveldisins og ekki betri nú þegar eignir rússneskra olígarka eru frystar víða um heim og rússneskir peningar útlægir ger í heimsviðskiptunum. Að Ólafi Ragnari skuli detta í hug að samt verði engin breyting á óskaverkefninu hans er ekki aðeins óskhyggja, heldur vanvirðing fyrir alla þá Úkraínumenn, -konur og börn sem hafa fórnað lífi sínu á altari mikilmennskubrjálæðis rússneskra heimsvaldasinna sem neita að viðurkenna lýðræðislegan rétt þjóða, virða óskir íbúanna sjálfra að vettugi og horfa á borgir og lönd sem ómerkilega punkta á landakorti sinna eigin hagsmuna.

Íslensk stjórnvöld þurfa nú þegar að tilkynna að samstarfinu um Hringborð norðurslóða hafi tímabundið verið slegið á frest og frysta eigi allar rússneskar greiðslur til innlendra og aðila sem því tengjast. Ólafur Ragnar hefði átt að tilkynna það sjálfur í Silfrinu í gær, en hann gerði það ekki. Fyrir marga gamla stuðningsmenn hans voru það sárari vonbrigði, en lýst verður með nokkrum orðum.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans.