Það var nánast hrollvekjandi en um leið upplýsandi að heyra Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra tjá sig um vanda Icelandair og ferðaþjónustunnar í fréttum RÚV í kvöld.
Ráðherrann sagði að ríkisstjórnin væri fyrst og fremst „að fylgjast með“ og ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að ríkissjóður taki yfir allar launagreiðslur í landinu.
Þetta rímar ágætlega við upplifun stjórnenda og starfsfólks fyrirtækja af björgunarpakka tvö hjá stjórnvöldum, sem kynntur var í vikunni. Orð eins og „vonbrigði“, „áfall“ og „algjör skortur á veruleikatengingu“ hafa verið notuð um upplifun fólks af kynningarfundi ráðherra ríkisstjórnarinnar og pakkanum í heild.
Hann var minni að umfangi en sá fyrsti, en samt ber öllum saman um að vandinn sé miklu meiri en gert hafi verið ráð fyrir.
Að auki hreyfist kerfið á hraða snigilsins þegar sinueldar breiðast hratt út innan ferðaþjónustunnar og sífellt fleiri bál kvikna sem þyrfti að slökkva. Brúarlán sem kynnt voru fyrir fimm vikum eru ekki enn komin í gagnið, því unnið er að nákvæmari útfærslu. Á sama tíma er bandaríska ríkið tvívegis búið að dæla út fáheyrðum upphæðum til að koma súrefni í umferð í þarlendu hagkerfi. Og meira á leiðinni. Mörg Evrópuríki hafa sömuleiðis kynnt fordæmalausar björgunaraðgerðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og kollsteypur á sínum heimavígstöðvum.
Tíminn er nefnilega ekki á okkar bandi.
Og það er alveg afleit staða, að ríkisstjórnin segist bara vera „að fylgjast með“. Björgunarpakkarnir báru þess einmitt merki. Þar er verið að bregðast við af vanmætti, ekki verið að koma í veg fyrir neitt.
Að óbreyttu fara fjölmörg fyrirtæki í þrot á næstu dögum og næstu vikum. Það verður viðbót við versta ástand á vinnumarkaði nokkru sinni. Skilaboð stjórnvalda virðast vera á þá leið, að markaðurinn verði að ráða för og ekki sé hægt að bjarga öllum.
Þá verður staðan sú að tugþúsundir landsmanna þurfa að þiggja atvinnuleysisbætur. Kannski langleiðina að hundrað þúsund manns. Fjöldi fólks sem byggt hefur upp ferðaþjónustu um allt land, missir allt sitt. Efnahagslegt og sálrænt áfall af þessum sökum verður eitt hið alvarlegasta á seinni tímum hér á landi, ef ekki hið alvarlegasta.
Þá mun það einfaldlega raungerast, sem Sigurður Ingi samgönguráðherra sagði í fréttum áðan að ríkið geti ekki staðið undir.
Við slíkar aðstæður er satt best að segja lítið gagn í stjórnvöldum sem ætla bara að fylgjast með. Bregðast við því sem er að gerast, en reyna ekki með öllum mætti að koma í veg fyrir það.
Fólkið í landinu ber ekki ábyrgð á heimsfaraldri kórónuveiru. Það er ekki slæmum rekstri ferðaþjónustufyrirtækja að kenna, að landið sé lokað og ferðamennska liggi niðri í heiminum.
Þetta er alheimsvandi af áður óþekktri stærðargráðu og hér duga engar hefðbundnar lausnir.
Spurningin sem er á allra vörum nú um stundir er: Er ríkisstjórnin virkilega ekki með neitt plan?
Höfundur er ritstjóri Viljans.