Fimm ástæður til að gleðjast

Þríeykið margfræga leggur línurnar fyrir upplýsingafund. / Almannavarnir.

Nú er hálfur mánuður frá því hertar aðgerðir tóku gildi á landamærunum með kvöðum um tvöfalda skimun og sóttkví þess á milli. Aðgerðin var umdeild, svo sem vonlegt er og hitti ferðaþjónustuna illa fyrir, en það sem hefur gerst síðan er engu að síður mjög gleðilegt.

Hér langar mig að nefna fimm ástæður til að gleðjast á þessum síðustu og verstu tímum:

  1. Engin ný veirutilfelli greindust hér innanlands sl. sólarhring og vel virðist ganga að koma böndum á faraldurinn sem kalla mætti bylgju númer tvö og gekk yfir landið í sumar með hópsmitum og einstaka tilfellum hér og hvar. Nánast hvergi í heiminum er hægt að finna dæmi um 0 smit á heilum sólarhring; veiran er þvert á móti í mikilli sókn víðast hvar.
  2. Hertar aðgerðir á landamærunum gera okkur kleift að slaka á samkomutakmörkunum innanlands, eins og Þórólfur sóttvarnalæknir Guðnason viðraði á upplýsingafundi dagsins. Fá dæmi eru um lönd þessa dagana sem eru að undirbúa tilslakanir, þvert á móti er víðast hvar verið að herða reglurnar enda óttast menn mjög haustið í Evrópu og búast jafnvel við holskeflu smita þá.
  3. Skólahald gengur víða sinn vanagang, sem er sannarlega ekki sjálfsagður hlutur. Stjórnendur í framhalds- og háskólum mættu að ósekju leyfa frekara skólastarf með hefðbundnu sniði, enda voru settar reglur um eins metra fjarlægðarmörk til að auðvelda skólastarf með hefðbundnu sniði. Það er ekki gott fyrir unga fólkið okkar að vera mánuðum og misserum saman í fjarkennslu og engin ástæða til, þegar lítið sem ekkert innanlandssmit er í gangi og stoppað hefur verið fyrir lekann á landamærunum.
  4. Menningarstarfsemi er að fara aftur í gang og vonandi munu sóttvarnayfirvöld á næstu dögum kynna tilslakanir svo að fleiri en hundrað manns geti komið saman í einu rými. Það yrði mikil lyftistöng fyrir samfélagið allt, að ekki sé talað um alla þá sem starfa í þeim geira og hafa horft á verkefnaskort allt of lengi.
  5. Á næstu dögum og vikum getum við Íslendingar farið að upplifa aftur það sem snemmsumars var kallað veirufrítt samfélag (þótt ekki sé hægt að ætlast til þess að aldrei greinist ný smit) og það verða sko lífsgæði sem verða saga til næsta bæjar.

Þessi atriði ættu landsmenn að hafa í huga þegar veiran blessuð og afleiðingar hennar koma til umræðu. Með því að stoppa í gatið á landamærunum tímabundið meðan faraldurinn stendur sem hæst erlendis, er hægt að tryggja landsmönnum ótrúleg lífsgæði í alþjóðlegum samanburði.

Fórnarkostnaðurinn er auðvitað töluverður með því að ferðamennska er ekki svipur hjá sjón. En sú er sagan um allan heim um þessar mundir og ekkert séríslenskt fyrirbrigði. En að samfélag geti gengið sinn vanagang mitt í heimsfaraldri er ekki lítils virði. Að ekki þurfi sí og æ að grípa til hertra aðgerða með tilheyrandi fórnum fyrir samfélagið allt, er einfaldlega ómetanlegt. Svo ekki sé talað um heilsufarsþáttinn.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans. Bók hans: Vörn gegn veiru, Ísland og COVID-19 er væntanleg í verslanir nk. föstudag, 4. september.