Fimm atriði sem þið vilduð ekki lesa (en þyrftuð samt að gera)

Önnur bylgja Covid-19 er farin af stað víða í heiminum. Það er því miður staðreynd og kórónuveiran er aftur orðin mál málanna í heimsfréttunum. Búið er að loka Leicester á Englandi vegna hópsýkingar. Brasilía er á barmi hörmungar vegna fjölda nýsmita. Bandaríkin ráða ekki neitt við neitt og engar vísbendingar eru um að faraldurinn sé í rénun á heimsvísu.

Enda þótt sumarið blasi við með veðurblíðu og ferðalögum, eru hér samt fimm atriði sem þið viljið kannski ekki lesa núna, en þyrftuð líklega að gera.

  1. Athyglin beinist í auknum mæli að svonefndum ofurdreifurum (super-spreaders). Þetta er ungt fólk og heilsuhraust, oft einkennalítið og veikist varla af völdum veirunnar, en ber hana áfram eins og enginn sé morgundagurinn. Þið hafið kannski tekið eftir unga fólkinu sem er að greinast nú hér á landi, eða er komið í sóttkví?
  2. Landið okkar var orðið veirufrítt og þrátt fyrir efnahagslegan skell af völdum veirunnar var kominn hugur í landsmenn að gera bara gott úr þessu og ferðast innanlands í sumar og njóta þeirra ótrúlegu gæða að vera í veirulausu landi í miðjum heimsfaraldri. Sú sæla er að baki, veiran er aftur komin á flug hér á landi samfara opnun landsins án skilyrða um sóttkví. Fréttir af nýjum smitum, hundruðum manna í sóttkví og hertum sóttvarnareglum taka nú við. Við áttum þess kost að eiga veirufrítt sumar eftir erfiðan vetur, en stjórnvöld tóku um það efnahagslega ákvörðun að opna landið og reyna að freista ferðamanna. Nú mun koma í ljós hvort það var skynsamleg ráðstöfun og réttlætanleg, eða hvort landsmenn allir munu þurfa að gjalda það dýru verði.
  3. Verja þarf gamla fólkið okkar og viðkvæma hópa. Ein helsta ástæða þess að við Íslendingar sluppum tiltölulega vel í fyrstu bylgjunni í mars-maí var að það tókst að langmestu leyti að koma í veg fyrir hópsýkingar á viðkvæmum stofnunum og öldrunarheimilum. Sumstaðar erlendis fór veiran þar um eins og hvirfilbylur með ömurlegum afleiðingum. Nú þegar veiran er aftur komin á kreik verður því miður að takmarka aftur umgengni við þessa hópa. Það er ömurlegt, en engu að síður staðreynd.
  4. Einstaklingsbundnar sóttvarnir virðast á algjöru undanhaldi. Við vorum farin að trúa því að veiran væri horfin. Í verslunum er varla lengur sprittbrúsa að sjá, allir knúsast og kyssast eins og enginn sé morgundagurinn og hópsamkomur eru út um allt. Unga fólkið um allan heim lætur eins og þetta komi sér ekki við. Það þarf lítið að klikka til þess að skellurinn verði risastór.
  5. Stórar hópsýkingar í kjötvinnslum í Þýskalandi og Bandaríkjunum sýna að veiran kann betur við sig í kulda og raka en hita. Hún er samt slíkt ólíkindatól að hún dreifir sér á ógnarhraða um heiminn ótengt loftslaginu eða árstíðum. En margir óttast haustið, þegar kólna fer og inflúensan bætist í hópinn. Mun heilbrigðiskerfi þjóða heims ráða við tvöfalda árás? Á Landspítalanum er a.m.k. unnið á fullu við ráðstafanir fyrir annað neyðarástand. Þar vona menn það besta, en búa sig undir það versta.

Það ættum við öll að gera. Því miður.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans.