Forsætisráðherrann íhugar sína stöðu, enda ætti Katrín að verða næsti forseti

Ekki er mörgum blöðum um það að fletta, að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir eru í vandræðum. Það er ekki pólitísk stemning með ríkisstjórninni þessi misserin og það er ekki andartaksástand, heldur viðvarandi vandamál. Vandséð er að þeirri þróun verði snúið með nokkru móti.

Allir flokkarnir eiga í vandræðum. Sjálfstæðisflokkurinn er opinberlega óhamingjusamur í þessu sambandi og ráðherrar flokksins og einstaka þingmenn nýta hvert tækifæri til að gagnrýna gjörðir hennar og aðgerðaleysi. Það var nýstárlegt fyrst að slíka stjórnarandstöðu væri að finna innan raða stjórnarflokkanna, en það verður þreytandi til lengdar ef óánægjan er aldrei meira en orðin tóm. Og skaðlegt fyrir ríkisstjórn sem hafði alveg nóg af erfiðum verkefnum á sinni könnu fyrir.

Formaðurinn Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur einangrast; ýmis skref hans í utanríkisráðuneytinu hafa verið klaufaleg og úr karakter við þann afburðastjórnmálamann sem hann er með sanni. Fleiri og fleiri innan flokksins skipuleggja nú framtíð án hans í forystunni og til marks um það er vígbúnaður í ýmsum flokksfélögum Valhallar og fundir einstakra ráðherra og þingmanna með sínu baklandi. Kapphlaupið um forystuna er þannig í reynd hafin, enda þótt enginn vilji viðurkenna það opinberlega.

Framsókn er undarlegur hluti af þessu stjórnarsamstarfi. Illa geymt leyndarmál í íslenskum stjórnmálum er að varaformaðurinn Lilja D. Alfreðsdóttir vill gjarnan í formannsstólinn og það sem fyrst. Ekkert fararsnið er hins vegar á Sigurði Inga Jóhannssyni og honum virðist slétt sama þótt ríkisstjórnin komi litlu í verk og glími við óeiningu. Það er eins og það nægi honum að fá að búa til flottar glærukynningar og viljayfirlýsingar, minna máli skipti hvort þær verða nokkru sinni að veruleika.

Og Ásmundur Einar Daðason virðist horfinn af stjörnuhimni stjórnmálanna. Maðurinn sem náði að verða vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar, sérlegur barnamálaráðherra og fulltrúi vinstri arms flokksins, virðist allt í einu hafa ákveðið að taka ekki næstu eða þarnæstu tröppu upp metorðastigann. Enginn veit almennilega af hverju, ekki einu sinni hans nánustu samherjar í stjórnmálum.

Og þá eru það Vinstri græn. Flokkurinn sem mótar í reynd stjórnarstefnuna og fer fyrir ríkisstjórninni. Það er kaldhæðni örlaganna að Þjóðarpúls Gallup hafi birst daginn sem frestaður fundur flokksráðs hófs; þar fékk flokkurinn 4,7% sem er ekkert annað en afhroð og ávísun á fall af þingi.

Hvers vegna er þessi staða uppi? Jú, VG hefur notið þess að fasti þessarar ríkisstjórnar er forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir. Hún hefur verið sáttasemjarinn, landsmóðirin og friðarins kona í nánast vonlausri stöðu. Endalausar erjur að leysa og aukinheldur heimsfaraldur og látlausar náttúruhamfarir.

Lítið fylgi VG er ekki nýtilkominn vandi. Fyrir síðustu kosningar stefndi í vonda útkomu, en á lokasprettinum læddist margt borgaralega þenkjandi fólk í kjörklefann og kaus VG, vegna þess að það var samdóma álit margra landsmanna að Katrín Jakobsdóttir hefði staðið sig ótrúlega vel við erfiðar aðstæður og ætti ekki annað skilið en sæmilega útkomu, hið minnsta.

Þessi óvænti stuðningur lengdi líf ríkisstjórnarinnar um fjögur ár, sem aldrei skildi verið hafa, eftir á að hyggja. Það er nefnilega engin ást í þessu sambandi lengur; vesenið hefur eiginlega yfirtekið allt og mislitlar krísur eru brotnar upp reglulega með stærri krísum. Það er aldrei starfsfriður og þess vegna þokast mál ekki áfram; það er störukeppni á alla kanta og allir einhvern veginn óánægðir.

Þetta bitnar auðvitað á forsætisráðherranum til lengdar. Hennar ríflega pólitíska inneign er enn til staðar, en hefur laskast verulega. Ekki á nokkurn hátt vegna þess að hún hafi staðið sig illa, eða gert eitthvað af sér. Engum landsmanni dettur í hug að tengja nafn Katrínar Jakobsdóttur við hneykslismál eða klaufaskap af nokkru tagi. Inneign hennar fer þverrandi, því hún þarf sífellt að koma fram og afsaka orð og gjörðir annarra og það kostar á endanum, bæði gagnvart eigin baklandi og líka gagnvart almenningi.

Hér skal því haldið fram að Katrín Jakobsdóttir sé afburða stjórnmálamaður á alla mælikvarða; ekki aðeins íslenska. Hún er gegnheil, heiðarleg og einlæg og á hreinlega betra skilið en núverandi stöðu. Hún er sannarlega ekki vandamál þessarar ríkisstjórnar, hún er og verður hennar sterkasta vopn.

Þess vegna ættu allir ríkisstjórnarflokkarnir að hafa af því miklar áhyggjur, þegar Katrín segist íhuga sína stöðu í skugga fylgisþróunar Vinstri grænna í könnunum og almennra óvinsælda ríkisstjórnarinnar. Því Katrín er fastinn sem heldur öllu saman og þeir sem þekkja vel til, vita að hún hefur oft þurft að bíta í tunguna á sér og hugsa sitt, þegar hver brimsjórinn á fætur öðrum skellur á.

Ef ekki væri fyrir Katrínu Jakobsdóttur hefðu Vinstri græn aldrei komist í forsætisráðuneytið, aldrei haft jafn mikil áhrif og raun ber vitni á landsmálapólitíkina og aldrei haldið stjórnarsamstarf út jafn lengi og raun ber vitni. Hún hefði getað hugað fremur að eigin hag; orðið forseti með yfirburðum fyrir átta árum eða óskoraður leiðtogi vinstri aflanna, en hún hélt trúnað við sitt fólk og hefur sannarlega staðið sína vakt og ríflega það.

En að Katrín íhugi stöðu ríkisstjórnarinnar og sína eigin sem formaður VG er eðlilegt miðað við þróun mála. Alls staðar í samfélaginu hefur verið skorað á hana að bjóða sig fram sem forseta og sameina þannig sundraða þjóð. Ekki veitir af og er í reynd algjör nauðsyn. Engin væri betur til þess fallin en Katrín Jakobsdóttir. Hún nýtur virðingar þvert á flokka og hvarvetna í samfélaginu.

Hvort hún tekur slaginn og hvernig, er svo aftur allt annað mál. En niðurstaðan kemur í ljós á allra næstu dögum, ekki síst þar sem boðað er í bakherbergjum að Svandís Svavarsdóttir snúi brátt aftur úr veikindaleyfi. Það gæti breytt ýmsu, eins og allir vita…