Nú er ekki rétti tíminn fyrir ríki Evrópu til að fagna, þau eiga að undirbúa sig fyrir næstu bylgju covid-19. Þetta segir dr. Hans Kluge, svæðisstjóri Evrópu hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) í viðtali við enska dagblaðið Telegraph í dag.
Hann segir eðlilegt að margir andi léttar, nú þegar daglegar tölur um dauðsföll fari loks lækkandi en nýta verði tímann til að gera ráðstafanir svo næsta bylgja komi ekki að óvörum eins og hin fyrsta
Kluge óttast að næsta bylgja komi í haust eða vetur samfara árstíðabundinni inflúensu með tvöföldu höggi á heilbrigðiskerfi margra landa.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna á dögunum í svari við fyrirspurn minni, að líklega sé ekki rétt lengur að tala um möguleikann á annarri bylgju veirunnar. Heldur fremur næstu bylgju. Veiran sé komin til að vera og laga þurfi samfélagið og allar ráðstafanir okkar að því.
Það minnir okkur á að hin skæða spænska veiki er talin hafa orðið 50 milljón manns að aldurtala á tveggja ára tímabili. Hún gaus upp vorið 1918, sneri aftur um haustið og loks kom þriðja bylgjan veturinn 1919.
Fyrsta bylgjan fór einkum illa með viðkvæmari hópa á borð við aldraða og sjúklinga, en önnur bylgjan var enn ógnvænlegri og banvænni og herjaði ekki síst á yngra fólk. Þriðja bylgjan, sem skaut fyrst upp kollinum í Ástralíu og breiddist þaðan út um heiminn, er talin hafa drepið fleiri en sú fyrsta.
Þetta er sagan sem vert er að hafa í huga. Auðvitað er heilbrigðiskerfi nútímans allt annað og dánartölur af völdum Covid-19 ekki í neinu samræmi við fyrstu bylgju spænsku veikinnar. En veirur geta stökkbreyst og þróast með skjótum hætti og það er samdóma álit vísindamanna að fara verði að öllu með gát.
Í því ljósi finnst mér vert að skora á ríkisstjórnina að fara varlega þegar næstu skref varðandi opnun landsins eru útfærð og ákveðin. Smit er lítt útbreitt í samfélaginu, en það hefur grasserað víða erlendis með hörmulegum afleiðingum. Smit eiga því greiða leið inn í landið gegnum Leifsstöð og þjóðin sýnilega útsett fyrir sýkingum. Þess vegna verður að fara varlega og tryggja að ítrustu varúðarráðstafana sé gætt.
Það er ekki traustvekjandi að tillögurnar um opnun landsins hafi í reynd ekki verið meira en hlaðborð hugmynda um nánari útfærslu. Í erlendum fjölmiðlum er okkur hælt fyrir að hafa útfærðustu hugmyndir nokkurs ríkis við opnun landamæra. Stendur raunveruleikinn undir slíkum fullyrðingum?
Er búið að ræða þessar tillögur, eins og Þórólfur sóttvarnalæknir nefndi í bréfi til heilbrigðisráðherra að þyrfti að gera?
Af hverju lá svo á að tilkynna um opnunina að ekki var hægt að bíða eftir áhættumati Landspítalans, sem væntanlegt er á næstu dögum? Af hverju veit enginn enn hver á að greiða fyrir veirupróf á flugvellinum, sem gæti falið í sér kostnað upp á tugi milljóna á dag?
Af samtölum mínum við fólk í stjórnkerfinu og heilbrigðisþjónustunni undanfarna daga að dæma, má ráða að mörgum finnst heldur bratt farið. Ísland hefur náð árangri á heimsvísu í að bæla niður kúrfuna og rekja öll smit með þeim afleiðingum að heilbrigðiskerfið stóðst prófið. Fórnum ekki þeim góða árangri í einhverjum flýti við að reyna að framkalla góðar fréttir.
Auðvitað skil ég vel að opna þurfi landið sem fyrst. Ég er ekki á móti því, ef við ráðum við það. Það er gífurlega mikið í húfi að endurræsa hjól atvinnulífsins. En það væri sjálfsmark aldarinnar, ef opnunin á næstu vikum springur í andlitið á okkur og veiran breiðist út um allt.
Það væri ekki góð landkynning.
Ég vil bara alls ekki sjá það gerast í sumar eða haust að við lendum aftur á byrjunarreit og loka þurfi öllu á ný. Það yrði algjört reiðarslag fyrir okkur landsmenn, bæði andlegt og í efnahagslegu tilliti.
Fari svo illa, yrði kallað af krafti eftir pólitískri ábyrgð. Sú umræða yrði ekki endilega mjög vinsamleg. Þá þyrfti að skoða hvers vegna starfshópur ráðuneytisstjóra virðist allt í einu hafa tekið völdin af þríeykinu og ríkisstjórnin tilkynnti næstu skref.
Í Guðs bænum förum varlega. Það er svo mikið í húfi fyrir okkur öll.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans.