Frekar mildar takmarkanir þrátt fyrir allt

Að loknum þriggja klukkustunda löngum aukafundi ríkisstjórnarinnar á Egilsstöðum liggur niðurstaðan fyrir: Brugðist er við tillögum sóttvarnalæknis um hertar samkomutakmarkanir innanlands vegna nýrrar COVID-19 bylgju með því að takmarka fjöldasamkomur við 200 manna hámark, tekin verður upp 1 m nándarregla og opnunartími veitinga- og skemmtistaða er styttur til miðnættis og mega þeir afgreiða áfengi til kl. 23.

Þetta er auðvitað reiðarslag fyrir alla þá sem undirbúið hafa og skipulagt fjölmennar hátíðir um komandi verslunarmannahelgi, en þrátt fyrir allt eru þetta frekar mildar takmarkanir miðað við ástandið. Ef stærstur hluti þjóðarinnar hefði ekki verið bólusettur, er enginn vafi á að búið væri að setja 10-20 manna samkomutakmarkanir, banna ýmsa starfsemi og fleira í þeim dúr.

Segja má því að hér sé um skynsamlega málamiðlun að ræða, enda þótt eflaust telji margir annað hvort allt of bratt farið eða skammt gengið. Það er eins og það er. Sóttvarnalæknir gat ekki látið eins og ekkert væri miðað við þróun í veldisvexti og ríkisstjórnin gat ekki hætt á að taka ekki mark á aðvörunarorðum hans. Það að ekki tókst að afgreiða málið rafrænt í ráðherranefnd í morgun og kalla þurfti til þriggja tíma aukafundar til að komast að þessari niðurstöðu, sýnir að ríkisstjórnin veit að þjóðin er komin að þolmörkum þegar kemur að sóttvarnaráðstöfunum. Og kosningar eru á næsta leiti.

Vandséð hvort mikið breytist fram að 14. ágúst þegar þessar takmarkanir eiga að renna út. En á þeim tíma ætti að koma í ljós hversu alvarleg veikindi smitsprengjan undanfarið veldur í raun og veru. Hvernig bólusetningin virkar til þess að verja fólk fyrir alvarlegum einkennum.

Hér má sjá nánar í hverju breytingarnar felast:

Samkomutakmarkanir taka gildi 25. júlí og gilda til og með 13. ágúst.

 • Almennar fjöldatakmarkanir verða 200 manns. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin.
 • Nándarregla verður almennt 1 metri. Börn fædd 2016 og síðar verði undanþegin.
 • Grímuskylda verður tekin upp innanhúss og þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin.
 • Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verði 200. 
 • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum sem og sund- og baðstöðum verður heimilt að hafa opið fyrir 75% af hámarksfjölda leyfilegra gesta. Sameiginlegan búnað skal sótthreinsa milli notenda.
 • Söfnum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta. 
 • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna heimilar með og án snertinga með 100 manna hámarksfjölda. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými sem skulu skráðir í sæti. Veitingasala óheimil á keppnisstöðum.
 • Æfingar og sýningar sviðslista og sambærilegrar starfsemi heimilar með allt að 100 manns á sviði. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými, svo sem í bíóhúsum. Heimilt að hafa hlé en enga veitingasölu í hléum. Skrá skal gesti í sæti.
 • Hámarksfjöldi gesta við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verður 200.
 • Opnunartími veitingastaða, skemmtistaða o.þ.h. verður til kl. 23:00 (tæma þarf staði fyrir miðnætti) og hámarksfjöldi gesta 100 manns í rými. Vínveitingar bornar fram til sitjandi gesta. Skrá skal gesti. 
 • Tjaldstæði og hjólhýsasvæði fari eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis og Ferðamálastofu.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans (bjorningi@viljinn.is)