Undanfarna sólarhringa hafa mótmæli hælisleitenda og flóttafólks stigmagnast á Austurvelli, framan við Alþingi Íslendinga. Fjöldi fólks hefur slegið þar upp tjaldbúðum, gist yfir nætur og staðið fyrir ýmis konar viðburðum, allt að því er virðist með leyfi borgaryfirvalda.
Lögreglan virðist lítið þora að hreyfa við mannskapnum, eftir harða gagnrýni sem hún fékk á sig á dögunum þegar í brýnu sló milli hennar og mótmælendanna og fyrir vikið virðist ríkja nokkurs konar stjórnleysi á einhverjum helgasta reit Íslendinga, framan við þjóðþingið og skilti eru hengd utan á styttuna af Jóni Sigurðssyni.
Fyrirgefiði, en hvaða vitleysa er þetta eiginlega?
Hvar annars staðar í veröldinni haldiði að þetta yrði látið óátalið?
Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að loka eigi landinu fyrir fólki sem hingað vill koma og vinna og setjast hér að. Mannauðurinn sem hefur streymt hingað til lands á undanförnum árum er okkur ómetanlegur og við sem þjóð munum njóta góðs af því til langrar framtíðar.
Mótmælin snúast um eitthvað allt annað
Ég veit heldur ekki betur, en nokkuð auðvelt sé að fá hér atvinnuleyfi. Auðvelt að fá hér vinnu og setjast hér að. Fyrir þá sem sækja um eftir réttum boðleiðum, geta sýnt fram á að þeir hafi atvinnu osfrv.
En mótmælin á Austurvelli snúast um eitthvað allt annað.
Meginkrafa mótmælendanna — sem segjast ekki ætla að yfirgefa Austurvöll fyrr en orðið hefur verið við kröfum þeirra — er að landamæri Íslands verði lögð af. Landið verði semsé galopnað og eftirliti hætt.
„Stop deportation. No borders, no nations“ syngja mótmælendurnir, auk þess sem má sjá þessi skilaboð á fjölda skilta, bæði á íslensku og ensku.
Þekkiði þið marga sem telja það skynsamlegt? Viljum við það Íslendingar?
Svar mitt er nei.
Næsta krafa mótmælendanna er að Útlendingastofnun geti ekki vísað fleiri hælisleitendum úr landi. „Brottvísanir eru pyntingar,“ segja þeir.
Vitaskuld hefur ýmislegt í ákvörðunum Útlendingastofnunar sætt gagnrýni og það má alltaf gera betur í að aðstoða þá sem þurfa aðstoð í raun og veru, en staðreyndin er sú að fjöldi umsókna um hæli hér á landi er frá löndum sem skilgreind hafa verið örugg, eru því dæmdar tilhæfulausar (eins og gert er á öðrum Vesturlöndum) og því viðkomandi sendir aftur heim.
Viljum við Íslendingar að bannað verði að vísa þeim frá landinu sem framvísa fölsuðum skilríkjum, gefa ekki upp rétt nöfn, eru jafnvel á sakaskrá erlendis, koma ekki frá löndum þar sem ríkir ófriður eða neyðaraðstoð en vilja samt sækjast eftir alþjóðlegri vernd?
Svar mitt er nei.
Hælisleitendurnir sem mótmæla nú á Austurvelli segjast ekki geta dvalið á Ásbrú, því þar sé aðbúnaður ekki fólki bjóðandi.
Staðreyndin er hins vegar sú að aðbúnaður íslenskra hælisleitenda er klárlega með því besta sem gerist í þeim málaflokki í heiminum. Aðstaða, fjárhagsleg aðstoð, langur biðtími og fleira hefur gert það að verkum, að ýmislegt bendir til þess að fleiri sækist eftir því að koma hingað og leita eftir hæli, en ella væri.
Fjölmargar íslenskar fjölskyldur eiga í vandræðum með að tryggja sér húsnæði. Aldrað fólk og langveikt kemst ekki í viðeigandi úrræði vegna langra biðlista.
Ef þeim líst ekki á þetta, eða telja að húsnæðið þeirra á Ásbrú eða annars staðar sé ekki nægilega gott, er þeim auðvitað frjálst að taka fyrstu vél aftur heim.
Á sama tíma stendur hælisleitendum húsnæði og uppihald til boða á vegum Útlendingastofnunar, en þeir vilja ekki vera þar (af því það er í Ásbrú Reykjanesbæ en ekki í höfuðborginni) og þeir ætla að gista í tjaldbúðum á Austurvelli þar til kröfum þeirra hefur verið mætt.
Löglega kjörin stjórnvöld í þessu landi geta ekki látið undan slíkum kröfum.
Fylgja skal landslögum
Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem sækja hér um alþjóðlega vernd, að þeir fylgi landslögum og beri virðingu fyrir lögreglunni.
Ef þeim líst ekki á þetta, eða telja að húsnæðið þeirra á Ásbrú eða annars staðar sé ekki nægilega gott, er þeim auðvitað frjálst að taka fyrstu vél aftur heim.
Ég þykist nefnilega viss um, að langflestir flóttamenn, sem flýja stríðsátök, dauða, fátækt og hvers konar ofsóknir og hörmungar, myndu ekki kvarta yfir aðbúnaði hælisleitenda hér á landi.
Því segi ég: Tökum vel á móti þeim sem eru í neyð þegar stríðsátök geysa í heiminum. En treystum landamæri okkar og lærum af reynslu annarra þjóða. Sendum umsækjendum sem sækja hér um hæli augljóslega á tilhæfulausum forsendum, skýr skilaboð um að slíkt sé ekki í boði.
Og berum virðingu fyrir samfélaginu og okkar helstu stofnunum á borð við lögregluna og Alþingi.
Það er eiginlega algjört lágmark, verð ég að segja.