Gengur lífið almennt sinn vanagang í Bandaríkjunum?

Auknar deilur í samfélaginu um viðbrögð við veiruvánni eru eðilegar, en engu að síður áhyggjuefni. Við sjáum dæmi um það erlendis frá, ekki síst í Bandaríkjunum, hvað deilur geta rist djúpt og valdið miklum skaða.

Hér á landi var mikil samstaða um helstu viðbrögð framan af og árangurinn eftir því, en undanfarið hefur umræðan farið í nokkra hringi. Þegar landið var næsta veirufrítt síðla vors og snemma sumars var kallað eftir opnun landsins og fleiri ferðamönnum. Eftir mikinn þrýsting var orðið við því. Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar; veiran barst um leið aftur til landsins og hópsýkingar urðu hér og hvar með þeim afleiðingum að hætt var við frekari tilslakanir en þær hertar þess í stað og hverskyns mannfagnaðir bannaðir. Listamenn og fjölmargir aðrir horfðu enn og aftur fram á verkefnaskort, jarðarfarir og fermingar komust aftur í uppnám, bæjarhátíðir á borð við Þjóðhátíð í Eyjum og Menningarnótt blásnar af og skólahald fært í fjarkennslu á efri stigum.

Til að bregðast við því og reyna að viðhalda eðlilegu samfélagi þar til það versta er um garð gengið eða bóluefni fundið, var brugðið á það ráð að setja alla sem koma hingað til lands í tvöfalda skimun og sex daga sóttkví þess á milli. Sú er staðan nú og þess vegna horfum við nú fram á að seinni bylgjuna í rénun, tilfellum fer fækkandi og útlit fyrir að unnt verði að slaka á gildandi takmörkunum fljótlega.

Ástæða þess að hægt verður að slaka á takmörkunum á næstunni er sú að ný veirutilfelli komast ekki inn í landið með þeim ráðstöfunum sem nú eru í gildi. Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir þessari staðreynd. Ef ekki væri skimað tvöfalt með sóttkví, er alveg borðleggjandi að ný tilfelli myndu gjósa upp reglulega með tilheyrandi skaða um allt samfélagið.

Önnur lönd eru einnig búin að grípa til margvíslegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu nýrrar bylgju. Bretar og Spánverjar eru með kvaðir um sóttkví; Nýja Sjáland er enn lokað, Frakkar krefjast þess að allir beri grímu á almannafæri. Víða er útgöngubann, skólar enn lokaðir. Annars staðar er talið tímaspursmál hvenær aftur verður gripið til slíkra óyndisúrræða.

Þess vegna þótti mér svolítið kúnstugt að lesa grein eftir íslenskan prófessor við læknadeild Harvard-háskólans í Bandaríkjunum í Morgunblaðinu í dag. Sá er Jón Ívar Einarsson og hefur hann áhyggjur af of harkalegum viðbrögðum hér á landi við veirunni.

Jón Ívar segir: „Nú er ég ekki að gera lítið úr þess­ari far­sótt, enda snýst þetta ekki bara um dauðsföll held­ur líka aðra af­leidda kvilla. Hins veg­ar er umræða fjöl­miðla til þess fall­in að ala á ótta og nei­kvæðar frétt­ir eru mun al­geng­ari en já­kvæðar. Til dæm­is voru viðbrögð vegna far­ald­urs­ins vestra ekki til fyr­ir­mynd­ar og Covid hef­ur í raun brunnið þar í gegn eins og sinu­eld­ur. En, án þess að það fari hátt í fjöl­miðlum, þá hef­ur til­fell­um í Banda­ríkj­un­um farið fækk­andi og lífið hér úti geng­ur al­mennt sinn vana­gang, veit­inga­hús full af fólki og sjúkra­hús að mestu að sinna hefðbundn­um sjúk­ling­um þótt vissu­lega sé ástandið mis­jafnt á milli ríkja. Hjarðónæmi mynd­ast ekki í einu vet­fangi held­ur verður smám sam­an erfiðara fyr­ir veiruna að breiðast út og það gæti e.t.v. farið að raun­ger­ast vestra á næstu mánuðum.“

Svo mörg voru þau orð.

Ekkert er fjær sanni

Nú hef ég fjallað ansi mikið um COVID-19 að undanförnu og í næstu viku kemur út bók eftir mig um þetta efni, þar sem það er brotið til mergjar í innlendu og alþjóðlegu ljósi. Þess vegna komu mér þessi orð íslenska læknaprófessorsins í Harvard ansi spánskt fyrir sjónir, ekki síst þau ummæli að lífið þar vestra gangi almennt sinn vanagang. Ekkert er í reynd fjær sanni og í reynd óskiljanlegt að læknir sem vill láta taka sig alvarlega haldi slíku fram. Bandaríkin ráða þvert á móti ekkert við veirufaraldurinn; þar eru enn í gildi miklu harðari takmarkanir á athafnafrelsi en nokkru sinni hér á landi. Skólar eru margir alveg í fjarkennslu, útgöngubann verið í gildi vikum og mánuðum saman og einstök ríki á borð við New York setja alla þá sem koma í tveggja vikna sóttkví, líka þá sem koma frá öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Ferðabann Trumps er enn í gildi að mestu og veiran sums staðar enn að sækja í sig veðrið í fyrstu bylgju faraldursins. Heilbrigðiskerfið vestra hefur fengið algjöra falleinkunn fyrir viðbrögð sín sl. vor og menn horfa með hryllingi til þess sem kann að vera framundan í haust og vetur.

Að halda því þess vegna fram að sóttvarnaaðgerðir á Íslandi séu of harðar er því eins og hvert annað grín. Hér var aldrei sett á útgöngubann, börn hafa getað sótt skóla og í stað ferðabanns eða kröfu um fjórtán daga sóttkví förum við hér á landi fram á tvöfalda skimun og 5-6 daga sóttkví. Flestir hafa getað lifað eðlilegu lífi og notið miklu meira frelsis til afhafna en aðrar þjóðir hafa getað boðið þegnum sínum upp á. Til þess að tryggja heilsu almennings og viðhalda næsta eðlilegu samfélagi var gripið til þess ráðs að stoppa lekann sem var á landamærunum. Það gátum við gert af því að við erum eyja og auðvitað nýttum við okkur það. Jafnvel þótt það þýddi miklar efnahagslegar fórnir.

Heilbrigðissjónarmiðin urðu ofan á. Einmitt þess vegna getum við Íslendingar átt von á ótrúlegum lúxus næstu vikurnar þegar holskefla nýrra smita breiðist út um Evrópu og Bandaríkin, eins og allt bendir til að muni gerast. Þá getur góður árangur Íslands aftur orðið heimsfrétt, mitt í öllum hörmungartíðunum öllum.

Erfitt að útskýra fyrir Íslendingum

Og að halda því fram að lífið í Bandaríkjunum gangi almennt sinn vanagang um þessar mundir hljómar líka eins og hvert annað grín. Gefum Ólafi Jóhanni Ólafssyni, rithöfundi og athafnamanni orðið, en hann er búsettur í New York en kom hingað til lands í mars með fjölskyldu sinni til þess að forðast veirufárið. Í væntanlegri bók minni, Vörn gegn veiru, sem kemur út næstkomandi föstudag, segir hann:

„Það er erfitt að útskýra þetta fyrir Íslendingum. Frelsið og gæðin sem við búum við eru einstök. Þetta er upplýst samfélag þar sem innviðir eru traustir og fólk stendur saman þegar á reynir. Þjóð sem getur rifist endalaust um hvaða tittlingaskít sem er frá degi til dags en tekur höndum saman sem einn maður þegar á reynir. Stjórnmálamenn höfðu vit á að halda sig til hlés, vísindamennirnir okkar unnu eftir áætlun sem byggðist á nýjustu þekkingu og gömlum viðteknum vísindum og maður skynjaði hvernig traustið umvafði samfélagið.

Á hinn bóginn versnaði ástandið í New York dag frá degi svo maður varð hreinlega harmi sleginn. Bandaríkin féllu algjörlega á þessu prófi. New York og margar aðrar borgir þessa heimsveldis verða lengi að jafna sig á þessu áfalli. Þegar við þurftum mest á styrkri stjórn að halda sátum við uppi sem mann sem tók enga ábyrgð, þvældist bara fyrir og setti sjálfan sig í forgrunn til að verða sér úti um fleiri mínútur á besta sjónvarpstíma. Það var skelfilegt að horfa upp á þetta.

Í ljós kom að innviðir þessa risaveldis eru fúnir, efnamunur orðinn allt of mikill í samfélaginu og heilbrigðiskerfi og menntakerfi eftir því. Við þær aðstæður skiptir engu máli hvort þú átt fjármuni eða ekki, kerfið sjálft fúnkerar ekki og enginn ræður neitt við neitt. Að eiga skjól á Íslandi var okkar mesta gæfa.

Héðan af Íslandi var ég í sambandi við gamla vini fyrir vestan. Þeirra viðkvæði var alltaf þetta: Hvernig get ég orðið Íslendingur? Menn sem eru eldri en ég spurðu í gamni og alvöru hvort ég gæti ættleitt þá. Við þær aðstæður sem nú eru uppi í heiminum munu margir velja sér búsetu eftir öryggi og lífsgæðum fyrir sig og sína. Tölvutenging er það eina sem þarf til að sinna erindum og margs konar starfi, en að geta boðið börnum sínum upp á öryggi og frelsi í stað þess að hírast heima í útgöngubanni er ekki flókið reikningsdæmi.“

***

Með allri virðingu fyrir Jóni Ívari Einarssyni í Harvard er þess vegna akkúrat ekkert sem bendir til þess að við Íslendingar eigum að sækja fyrirmynd okkar í sóttvörnum til Bandaríkjanna um þessar mundir. Bara alls ekki neitt.

Þeim fer fjölgandi virðist vera, þeim Íslendingum sem vilja reyna „sænsku leiðina“ gegn veirunni, láta hana bara breiðast út og vona það besta. Ég er sannfærður um að íslenskur almenningur er ekki á þeirri línu og það er gott hjá íslenskum stjórnvöldum að hafa fylgt ráðgjöf Kára Stefánssonar og Þórólfs Guðnasonar, þótt það feli í sér tímabundinn sársauka í margvíslegu tilliti. Hinn valmöguleikinn var miklu verri. Stundum er staðan einfaldlega þannig, að enginn kostur er áberandi góður. Þá þarf að hafa sterk bein og beita skynseminni. Vonandi verður sami háttur hafður á áfram, enda þótt þrýstingurinn sé mikill og margir sárir. Það er engin ástæða til að gera lítið úr því.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans. Bók hans, Vörn gegn veiru, kemur í verslanir næstkomandi föstudag, 4. september. Hægt er að panta hana áritaða í forsölu. Sjá Facebook-síðuna Vörn gegn veiru.