Gjá milli þings og þjóðar

Ég sé að Brynjar aldavinur minn Níelsson lætur nokkuð vel af sér í sóttkví eftir heimkomuna frá Spáni sem er vel. Í færslu þingmannsins á fésbókinni í gær hlotnaðist mér sá óvænti heiður að vera getið í hópi góðra manna með svofelldum hætti:

„Hef haft nokkuð gaman af því að fylgjast með nýja þríeykinu, Þórólfi, Kára og Birni Inga tala við hvern annan um hvað þingmenn eru miklir fávitar að leyfa þeim ekki að nauðungarvista fólk í sóttvarnahúsi, sem hvorki er smitað né grunað um að vera smitað. Auðvitað vilja vinstri menn á þinginu breyta lögunum svo það verði hægt. Kæmi ekki á óvart að Rósa Björk, Andrés Ingi og aðrir mannréttindafrömuðir á vinstri vængnum vildu einnig ákvæði í lögunum um viðurlög þeirra sem hæðast að sóttvörnum eða gera minna úr alvarleika veirunnunar en efni standa til.“

Það var og. Tilefnið er vafalaust samtal okkar þriggja sem birtist fyrir helgi og sjá má hér að neðan.

Af orðum Brynjars má ráða, að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi gefið út nokkurs konar opinbert skotleyfi á fólk og krefjist nauðungarvistar að ástæðulausu og það sé þingmönnum að þakka að ekki hafi reynst lagagrundvöllur fyrir slíkum ráðstöfunum. Ljótt ef satt væri.

En þetta er bara ekkert svo. Um er að ræða komufarþega frá svoköllum há-áhættusvæðum erlendis sem gætu verið smitaðir af COVID-19, ekki síst hinum nýrri afbrigðum veirunnar sem eru meira smitandi og leggjast frekar en önnur á yngra fólk. Reynslan hefur sýnt, að því er kemur fram í minnisblöðum sóttvarnalæknis, að fyrri útfærslur á sóttkví komufarþega hafa ekki virkað sem skyldi, einfaldlega af því að ekki fara allir eftir þeim. Nýleg dæmi eru af erlendum ferðalang sem átti að vera í sóttkví en stóð við þjóðveginn að húkka sér far; fólki sem fer í Leifsstöð að sækja nákomna þótt það eigi ekki að gera, farandverkafólki sem ætlar ekkert að halda sóttkví og ferðamönnum sem fara á slóðir eldgossins í Geldingadölum innan um aðra ferðalanga þótt þeir séu nýkomnir til landsins og gætu verið smitaðir.

Um þetta eru fleiri dæmi. Alltof mörg. Þess vegna hafa mörg lönd sett stífar reglur um 14 daga sóttkví þeirra sem koma til landsins og mörg krefjast einnig nokkurra daga hóteldvalar (farsóttarhús) í fyrstu á eigin kostnað til að minnka líkur á smiti. Forseti Íslands minntist einmitt á það á dögunum, að slíkar reglur giltu í hinu frjálslynda Kanada nú um stundir fyrir alla ferðalanga, bólusetta sem aðra, og virtist traustur lagagrundvöllur fyrir í ljósi almannaheilla.

Ástæður þess að Þórólfur, Kári Stefánsson, ég og fleiri hafa áhyggjur af landamærunum nú er að staðreyndirnar tala sínu máli. Smitin berast þaðan inn í landið. Og þess vegna eru í gildi strangar takmarkanir um samkomur og allskonar starfsemi hér innanlands þótt smit hér séu fá í samanburði sem flestar aðrar þjóðir. Og meðan landamærin „leka enn“ og ekki eru næg úrræði til að stöðva þann leka verður erfiðara fyrir Þórólf og samstarfsmenn hans að samþykkja alvöru tilslakanir innanlands.

Og málið er enn flóknara, því þvert á ráðleggingar sóttvarnalæknis, er búið að opna landið einnig fyrir ferðamönnum frá ríkjum utan Schengen sem hafa verið bólusettir eða eru með mótefni. Og sleppa þeim við sóttkví. Ísland er eitt fyrsta landið sem slíkt gerir, enda segir í grein Sunday Times um helgina að þar með verði Ísland heitasti áfangastaður í heiminum nú sumar. Þetta er ekkert skrítið, þar sem uppsöfnuð ferðaþrá er mikil og fæst lönd hafa farið þessa leið þar sem bólusetning heima fyrir gengur of hægt og áhættan þykir of mikil.

En Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur með þessi völd að fara og ríkisstjórnin stendur bak við þessa ákvörðun, jafnvel þótt sóttvarnalæknir hafi ítrekað barist gegn henni. Hagsmunir ferðaþjónustunnar vega greinilega þungt á metunum.

Það eitt og sér stórminnkar möguleikana á að Íslendingar geti átt sæmilega veirufrítt og frjálslegt sumar innanlands, enda aðeins lítill hluti þjóðarinnar komin með fulla bólusetningu. Allt of lítill miðað við það að ákveðið hafi verið að opna landið fyrir ferðamönnum.

Og hér skal skýrt tekið fram, að ég skil vel áform um að lokka aftur ferðamenn til landsins. En ég hef líka margbent á að forsenda fyrir slíku er að gera ráðstafanir til að bólusetja landsmenn fyrst, ná hér upp hjarðónæmi og gera okkur ekki að tilraunadýrum með ný afbrigði og hafa af okkur sumarið um leið.

Það blasir við að gera þurfi hlutina í réttri röð. Bólusetja fyrst og opna svo. Ekki öfugt, eins og reyndin er.

Allir tapa

Þetta þýðir að óbreyttu að enginn verður ánægður og allir tapa. Hætta á smitum verður fyrir hendi og ferðalög innanlands, samkomuhald og fleira verður áfram í láginni. Ef faraldurinn fer á flug verður Ísland síðri valkostur fyrir þá sem leita að öruggu umhverfi á tímum farsóttarinnar.

Það er þess vegna sem stjórnvöld í þeim löndum sem harðasta afstöðu hafa tekið, til dæmis á Nýja Sjálandi, njóta jafn mikilla vinsælda og raun ber vitni. Þar hafa menn tekið afstöðu og standa við hana. Meðan farsóttin geisar um heiminn, er betra að hafa stífar reglur á landamærunum og þeim mun meira frjálsræði innanlands. En stjórnvöld í þeim löndum þar sem veiran geisar sem aldrei fyrr, eru í tómu basli.

Þess vegna er umræðan í mörgum fjölmiðlum og meðal stjórnmálamanna undanfarið svo athyglisverð. Það er komin upp skýr gjá milli þings og þjóðar. Almenningur vill fara varlega og treystir ráðgjöf sérfræðinganna, en þingmenn eru komnir með algjört óþol fyrir sóttvarnaráðstöfunum og ekki líður lengur sá dagur að talað sé ekki gegn þeim af kjörnum fulltrúum.

Prófessor Ólafur Þ. Harðarson vekur athygli á þessu á fésbókinni og kallar þetta „óró og hávaða“ fámenns hóps. Hann skrifar: „En hafa skoðanir almennings breyst? Er samstaða þjóðarinnar brostin? Stutta svarið er nei. Um og yfir 90% þjóðarinnar styðja áfram sóttvarnayfirvöld.“

Ólafur dregur niðurstöðurnar (sem skoða má betur hér) fram með þessum hætti:

1. Traust til faglegra sóttvarnaryfirvalda og ánægja með þau er yfirgnæfandi og hefur ekkert breyst við hávaða síðustu daga.

2. Traust til faglegra sóttvarnaraðila og ánægja með þá er miklu meiri en raunin er um stjórnmálamenn og aðgerðir þeirra.

3. Sérstaklega áhugavert hversu lítill stuðningur mælist við fyrirhugað litakóðunarkerfi ríkisstjórnarinnar, sem ekki nýtur stuðnings sóttvarnalæknis.

Ætli stjórnmálamenn að afla sér fylgis með gagnrýni á sóttvarnalækni er það ekki líklegt til árangurs almennt. En gæti hins vegar gagnast í frekar fámennum prófkjörum þar sem viðhorfin kunna að vera allt önnur en meðal þjóðarinnar í heild.“