Undanfarna daga hef ég unnið hörðum höndum að ritun bókar sem koma á út fyrir verslunarmannahelgina um Ísland og kórónuveiruna Covid-19, fyrstu bylgjuna sem skók landið og heiminn síðla vetrar og vorið 2020. (Lesendur Viljans munu geta skráð sig fyrir forpöntun á næstunni).
Þetta verður kilja; svokölluð blaðamannabók um mikilsverða atburði; sagt frá því sem gekk á að tjaldabaki í ákvörðunum sem vörðuðu samfélagið allt og atburðum sem settu allt á hliðina hér á landi. Það var dr. Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sem fyrstur læddi þessari hugmynd að mér og hvatti mig til verksins. Síðan hafa margir fleiri lýst mikilvægi þess að þessari atburðarás verði lýst á einum stað og ég lét slag standa. Vonandi verður einhver áhugi á bókinni þegar hún kemur út.
Ég er líklega ágætlega til þess fallinn að skrifa þessa bók eftir að hafa sótt á sjöunda tug upplýsingafunda Almannavarna og skrifað um veiruna undanfarna mánuði. Eftir samtöl við fjölmarga aðila undanfarna daga hefur mér einnig orðið ljóst, að mikil saga er enn ósögð um það sem gekk á að tjaldabaki –– innan stjórnkerfisins og í heilbrigðisþjónustunni. Þar var gamalkunnug togstreita um völd og ákvarðanir og sitt sýndist hverjum, þótt allt væri slétt og fellt á yfirborðinu og þríeykið sameinaði þjóðina að baki þeim ákvörðunum sem teknar voru.
Ég hef sjálfur lýst því svo, að við Íslendingar höfum verið í hálfgerðu svikalogni í maí og þessa fyrstu daga júnímánaðar eftir þann frábæra árangur sem náðist í sóttvörnum hér með smitrakningu, einangrun sýktra og sóttkví þeirra sem voru útsettir fyrir veirunni. Landið er því sem næst lokað og nýsmit hafa því ekki borist til landsins, enda þótt veiran lifi góðu lífi utan landsteinana. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO lýsti því yfir í gær, að Covid-19 hafi aldrei verið skæðari í heiminum en einmitt nú.
Ósamrýmanleg sjónarmið
Og þá kemur að yfirskrift þessa pistils. Hausverk aldarinnar, sem er opnun landsins fyrir ferðamönnum þann 15. júní nk. Eftir aðeins fáeina daga. Eins og við höfum orðið vör við að undanförnu, skiptist þjóðin í tvær fylkingar þegar kemur að opnun landsins og sjónarmiðin sem sett eru fram, virðast ósamrýmanleg. Í stjórnkerfinu er að magnast upp spenna í aðdraganda opnunar og enginn veit í reynd hvað mun gerast næst.
Þetta er sannkölluð óvissuför.
Talsmenn ferðaþjónustunnar eru afar ósáttir við gang mála; telja að framkvæmdin sé allt of laus í reipunum og spurningar sem vakni séu miklu fleiri en svörin. Þeir segja að skimunargjald sé allt of hátt og það fæli frá og valdi afbókunum.
Hinn hópurinn vill helst ekki að landið sé opnað svo skjótt; veiran muni skjóta upp kollinum um leið og fólk fer aftur að koma hingað til lands og mótefnamælingar sýni að 99% þjóðarinnar séu enn berskjölduð fyrir smiti.
Forsvarsmenn Landspítalans og læknar almennt eru áhyggjufullir og benda á, að lítið þurfi að gerast til að heilbrigðiskerfið fari á hliðina. Ferðaþjónustan segir á móti að eina vonin til að fyrirtæki í greininni haldi lífi, sé að ferðamenn komi aftur til landsins og hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný.
Þjóðin örugg innan landsins
Það var einkar athyglisvert að fylgjast með umræðum í Háskóla Íslands í vikunni, þar sem akademískt uppgjör við fyrsta kaflann í Covid-19 fór fram. Erindi tveggja frummælenda vöktu mesta athygli, þeirra Gylfa Zoega hagfræðiprófessors og Bryndísar Sigurðardóttur smitsjúkdómalæknis við Landspítalann.
Bryndís benti á að skimunarprófin sem eigi að nota, veiti falskt öryggi og ekki sé faglega verjandi að treysta þeim. Margir ferðamenn og Íslendingar á heimleið eigi eftir að sleppa í gegn með veiruna í líkamanum en einkennalausir. Það sé algjörlega óhjákvæmilegt og muni líklega gerast strax með fyrstu vélinni sem kemur til landsins.
Bryndís benti á að landið væri í reynd alveg öruggt núna, engin virk smit í gangi og spurði hvort ekki gæti verið skynsamlegt að halda því þannig áfram, þjóðin geti átt áhyggjulaust sumar og leyft sér að fara í útilegur, halda útihátíðir og tónleika eða aðra mannfagnaði innan landsteinana.
Gylfi sagðist vilja benda sóttvarnalækni á að þar sem okkur Íslendingum hefði tekist jafn vel upp gegn veirunni í vor, væru komin upp eins konar samfélagsleg gæði að geta búið hér í landinu þótt í heiminum geisi farsótt og lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi.
Eitt er að læknir gjaldi varhug við áhættusömum áformum, en hitt er að hagfræðiprófessor geri það líka. Athygli vakti á fundinum að Gylfi Zoega, sem meðal annars situr í peningastefnunefnd Seðlabankans, sagði framtíð efnahagslífsins hér á landi ekki standa og falla með opnun landsins nú.
„Hagkerfið mun ná sér á strik þótt ekki komi fjöldi ferðamanna, svo fremi sem annar faraldur kemur ekki í haust,“ sagði hann og tók undir með Bryndísi þegar hann bætti við að góður árangur í sóttvörnum í vor hafi skapað almannagæði sem bæti lífskjör og örvi hagvöxt.
Gylfi sagðist vilja benda sóttvarnalækni á að þar sem okkur Íslendingum hefði tekist jafn vel upp gegn veirunni í vor, væru komin upp eins konar samfélagsleg gæði að geta búið hér í landinu og lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi þótt í heiminum geisi farsótt.
Benti hann aukinheldur á, að sóttvarnalæknis sé að hugsa um sóttvarnir og hagfræðinganna og stjórnmálamannanna sé að hugsa um efnahagshlið málsins. „Ef þú ert að plana næsta vetur, þá skiptir máli að reyna að varðveita þessi samfélagslegu gæði sem við höfum hérna. … Og hafa þessa samræðu, þannig að þið séuð ekki að hugsa um efnahagsþættina. Þið hugsið um sóttvarnir og látið okkur um hitt. Og svo vinnum við saman. Að þið séuð ekki að taka sénsa af því að þið haldið að allt efnahagslífið sé að fara á hliðina,“ bætti hann við.
Í máli Gylfa kom jafnframt fram, að hann hefur miklar áhyggjur af því að veiran blossi aftur upp við opnun landsins –– nú í sumar, haust eða byrjun vetrar og það geti orðið algjört reiðarslag fyrir samfélagið. Því sé afar brýnt að vanda vel öll skref sem tekin eru.
Svo mörg voru þau orð.
Í þessu ljósi held ég að ekki sé ofsagt, að næstu dagar skipti okkur sem samfélag miklu máli. Það er því væntanlega engin tilviljun að þríeykið hafi boðað til þriggja upplýsingafunda í næstu viku. Þau vita sem er að það er bæði eftirvænting og beygur í landsmönnum yfir opnun landsins. Það að fundirnir verði í beinni útsendingu frá Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu bendir til að einhverjir ráðherrar ætli sér líka að svara spurningum á fundunum.
Ég verð að minnsta kosti á mínum stað að spyrja spurninga. Þær eru ótalmargar og vonandi fást svör við mörgum þeirra áður en 15. júní rennur upp. Ég vil líka hvetja þá sem vilja til að senda mér ábendingar um efni í væntanlega bók; t.d. reynslusögur þeirra sem veiktust illa, urðu fyrir tekjufalli vegna rekstrarstöðvunar eða hafa einhverja merkilega sögu að segja. Skráning samtímaheimilda er alltaf vandasöm, en mikilvæg því undrafljótt fennir yfir sporin og þetta hafa sannarlega verið athyglisverðir tímar.
Björn Ingi er ritstjóri Viljans. (bjorningi@viljinn.is)